Einn hljómur

Tónlist er mögnuð. Það er ósköp einfalt. Mig hefur lengi langað til að skrifa um áhrifamátt tónlistar og loksins er komið að því. Þetta er auðvitað frekar sjálfhverft, því ég get ekki lýst nema minni eigin reynslu.

Auðvitað skynjum við tónlist hvert á okkar hátt. Áhrifin eru mismikil fyrir hlustandann, en ég hef alltaf verið ein af þeim sem tónlist hefur gríðarleg tilfinningaleg áhrif á. Auðvitað eru þeir til sem hafa engan áhuga á tónlist og pæla lítið í henni, því við getum jú sem betur fer ekki öll verið eins.

Tónlist hefur alltaf haft mikil áhrif á mig, síðan ég man eftir mér. Hver ástæðan er, veit ég ekki. Ég man ekki eftir því að hafa fengið eitthvað gríðarlegt tónlistarlegt uppeldi eins og sumir, þó svo að pabbi hafi verið gítarkennari og tónlistarmaður, enda ólumst við systur aðalega upp hjá mömmu. Það var alveg tónlist á heimilinu, þó svo að elsku mamma sé kannski ekki sú lagvissasta. Einhvertíman sagði hún mér sögu af því þegar hún var syngja fyrir mig vögguvísu, þá segi ég: ,,Uss ekki þú.“

Ég var reyndar send í blokkflautunám, síðan altflautu á meðan við biðum eftir að þverflauta yrði laus í Tónlistarskólanum í Neskaupstað. Loks var það eitt eða tvö ár á þverflautu. Þetta voru þó samanlagt ekki nema nokkur ár og ég hætti í tónlistarnámi þegar ég var 10 ára.

Eitthvað hefur þetta þó gert fyrir lítinn óþroskaðan heila, sem hefur ekki beðið þess bætur.

Eitt sem mér finnst alltaf jafn merkilegt er það þegar maður man stað og stund  þegar maður heyrir lag í fyrsta skipti, eða jafnvel part úr lagi sem maður hafði ekki tekið eftir áður. Hversu gríðarleg áhrif getur eitt helvítis lag haft? Maður man hvar maður var þegar risa viðburðir í mannkynssögunni gerðust, eins og tvíburaturnarnir og Díana. En hvað gerist í heilanum? Túlkar heilinn þessi lög jafn mikilvæg og fall tvíburaturnanna? Það hafa eflaust einhverjar rannsóknir verið gerðar á þessu, en ég hef enga þolinmæði til að fletta í gegnum einhverjar fræðigreinar. En hér eru dæmi um það hvað heilinn á mér túlkar sem gríðarlega merkilega hluti:

  • Þegar ég heyrði fyrst lagið Cemetery Gates með Pantera vorum við Dóri Stóri upp á Ártúnshöfða á rúntinum.
  • Þegar ég tók fyrst eftir einkennilegri bassatrommu í Black Dog með Zeppelin. Þá sat ég í aftursætinu á Cryslernum sem pabbi hans Dóra Stóra átti. Bassinn var mjög góður þarna aftur í. Ég man tilfinninguna þegar ég tók eftir því að það var eins og hægðist á bassatrommunni á einhverjum tímapunkti og hún er við það að detta úr takti, en gerir það ekki. Dásamlega mannlegt.
  • Þegar ég heyrði fyrst lagið, Ég bíð þín, með Vök þá var ég að labba heim úr vinnunni að taka strætó. Á þeim tíma var ég mikill talsmaður þess að öll raftónlist væri drasl. Þess vegna finnst mér alltaf jafn fyndið að þetta lag hafi setið svona í mér.
  • Þegar ég heyrði fyrst lagið Unconditional Love með Röggu Gröndal. Þá var ég að keyra niður Laugaveginn og heyrði það í útvarpinu. Snarstoppaði, hlóp inn í Skífu og keypti plötuna.
  • Þegar ég áttaði mig á því að gítarsólóið í Domination með Pantera væri væntanlega eitt það besta í sögunni, var ég stödd á Albert Cuypmarkt í Amsterdam á leiðinni heim.

 

Ég hef farið í marga tilfinningarússíbana hlustandi á tónlist. Legið í fósturstellingunni og grenjað, dansað eins og fábjáni, hlegið, skjálfað og titrað og fengið það gríðarlega mikla gæsahúð að jaðraði við fullnægingu.

Einhverjir myndu eflaust skammast sín að fara að grenja á almannafæri á tónleikum, en ég ákvað sem unglingur að njóta þess bara, enda væri ekkert annað hægt. Nærtækasta dæmið er þegar ég sá Opeth á Eistnaflugi 2016. Opeth hefur lengi verið í uppáhaldi en ekki ein af mínum allra uppáhalds, en það kom ekki að sök. Þegar þeir byrjuðu tónleikana þá lak ekki bara tár, heldur mættu ekkasog á svæðið líka. Þannig að ef þið rekist á mig grenjandi á tónleikum þá er allt í lagi með mig.  

Útgangspunkturinn ef einhver er, er held ég þessi: Ef að manni (mér) líður vel og hlustar á hressandi tónlist líður manni enn betur. Ef manni líður hins vegar illa og hlustar á sorglega tónlist er eins og heimurinn sé að farast.

Um daginn var ég að labba heim úr vinnunni og leið ekkert alltof vel í sálartetrinu. Á leiðinni hlustaði ég á uppáhalds hljómsveitina mína, Turin Brakes, sem eiga það til að vera svolítið melankólískir á köflum. Það komu tvö frekar þung lög í röð og ég var með tárinu í augunum af því að allt var ómögulegt, svo mikið myrkur úti, ég ekki komin í jólaskap, ný hætt með kærastanum og í ljótri úlpu. Semsagt allt ómögulegt. Þriðja lagið byrjaði hins vegar með upplífgandi hljóm og það birti strax til. Myrkrið varð ekki jafn þrúgandi, ég andaði léttar, naut allra fallegu jólaljósanna, hugsaði að lífið væri kannski ekki búið þó að maður væri einhleypur að detta í 31. árið og að þessi úlpa væri bara alveg ágæt eftir allt saman.

Hlustum á tónlist!


Plöturnar hans pabba #2

Ég á það til að fá mjög góðar hugmyndir. Yfirleitt tekur það mig þó nokkr ár að framkvæma þær. Skömmu eftir að pabbi dó fékk ég þá hugmynd að hlusta á allar plöturnar hans og skrifa um þær nokkra punkta, til að vita hverjar maður ætti að hlusta á aftur og hverjar maður ætti að sleppa.

Í maí í fyrra byrjaði ég svo þetta ferðalag og það var engin slor plata, Back in black. Auðvelt verkefni. Þegar ég ætlaði síðan að halda áfram með næstu plötu féllust mér hendur hreinlega. Platan Lone Rhino með Adrian Belew er algjört bull…eða það fannst mér þá. Ég ætlaði að gefa mér nokkra daga sem varð að vikum, mánuðum og síðan rúmu ári.

Í dag hafði ég svo kjarkinn til að prófa þessa plötu aftur. Það sorglega við þetta er að platan var enn í plötuspilaranum, sem þýðir að hann hefur ekki verið notaður í rúmt ár. Eftir fyrstu hlustun á þessari plötu hef ég greinilega ekki þorað að snerta plötuspilarann.

Platan Lone Rhino er tekin upp á sama stað og Back in black í Compass Point á Bahamas árið 1981. Hún er flokkuð sem pop rock, avant-garde og ég býst við að það sé avant gardið sem hafi hrint mér í burtu þarna í byrjun. Já ég veit að það er erfitt að flokka tónlist niður í ákveðnar stefnur og allt það, mér finnst samt fínt að hafa það til hliðsjónar.

Upphafslag plötunnar, Big electric cat, er bara aðeins of mikið. Tilraunakennt, skrítið og alls konar sem ég kem ekki orðum að. En því lengra sem platan rúllar verður hún þægilegri í hlustun og meira mér að skapi. Lagið Man on the Moon er ofsalega fallegt og að mínu mati flottasta lagið á A hliðinni. Á umslaginu stendur um lagið ,,..about the death of my father..it took 11 years and one surreal evening to put words on my feelings..” Yndisleg melódía og fallegur texti með samt svo einkennilegri útsetningu að þetta verður eitthvað súrrealískt fusion af sorg, trega og partýi.

B hliðin byrjar jafn einkennilega og A hliðin, á stuttu instrumental lagi sem er út um allt. Herra Belew getur alveg samið melódíur og texta sem kemur skýrt fram í laginu the Lone Rhinoceros. Textinn er um einmanna nashyrning sem er fastur í steypubúri í dýragarði þar sem fólk hendir í hann kókflöskum og það eina sem hann þráir er að fara aftur heim.

Á plötunni leikur hann sér að því að mixa hljóðfæri og effecta afturábak (veit ekki rétta orðið yfir það). Mér finnst það passa misvel í lögin en það fær að njóta sín í laginu Swingline, sem er hressandi og grúví smellifingrumlag.

Allt í allt finnst mér þetta bara ágætis plata sem kemur mér á óvart miðað við sjokkið eftir fyrstu hlustun. Kannski þurfti ég bara þetta rúma ár til að hugsa þetta aðeins. Það eru mjög leiðinleg lög inn á milli en flest lögin væri ég alveg til í hlusta á aftur.

Uppáhaldslögin mín á plötunni eru the man on the moon, the lone rhinoceros og animal grace.

Lög sem ég er hreint ekki hrifin af eru Big electric cat og hot sun.

Næsta platan á listanum (sem er í stafrófsröð) er önnur Adrian Belew plata, Twang bar king. Ég ætla að reyna að hlusta og skrifa um hana áður en ég fermi fyrsta barnið mitt..sem hefur ekki verið búið til ennþá. Skemmtilegt nokk, þegar ég var að gramsa í plötunum fann ég tvær inneignir í Lucky Records. Einhverjar uppástungur? Ég er að hugsa um nýju ADHD plötuna...


Eistnaflug dagur 4

Síðast dagur hátíðarinnar hófst á uppistandi í Egilsbúð með Andra Ívars. Mér finnst þetta frábær pæling hjá Eistnaflugmönnum að bjóða upp á þetta. Setur skemmtilegan svip á hátíðina. Það er líka mjög gott svona á fjórða degi þegar gestir eru kannski dálítið sjúskaðir og útkeyrðir að byrja daginn á hláturdetoxi. Andri er ágætis kunningi minn en aldrei hefur mér tekist að sjá uppistand með honum, ég þurfti að keyra landið þvert til að sjá hann. Hann er skelfileg fyndinn, gerir óspart grín að sjálfum sér og sínum kvennamálum og tókst að láta mig grenja úr hlátri oftar en einu sinni.

Eftir hrikalega fína pizzu á Pizzafirði sáum við Mammút í Egilsbúð. Ég myndi ekki endilega kaupa mér plötu með Mammút, en mér finnst nokkur lög með þeim mjög flott en síðan finnst mér lítið í hin spunnið. Ég hef séð þau ansi oft og þetta voru hreinlega með leiðinlegri tónleikum sem ég hef farið á með þeim. Ekki það að þau hafi verið léleg, mér fannst bara lagavalið skrítið. Ég kannaðist ekki við neitt af lögunum og þau tóku ekkert af vinsælustu lögunum. Aðeins of artí fyrir minn smekk.

Ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja að skrifa um Opeth. Fyrsta lagið sem ég heyrði með þeim var lagið Face of Melinda. Ég man nákvæmlega hvar ég var þegar ég heyrði það fyrst. Félagi minn sendi mér það í gegnum msn held ég alveg örugglega og ég sat inn í stofu í gráu Fujitsu tölvunni sem ég fékk í fermingargjöf. Efir það var hreinlega ekki aftur snúið. Þó svo að einhver lögin þeirra séu aðeins of hörð fyrir minn smekk fýla ég megnið af dótinu þeirra. Ég tók ástfóstri við lagið Face of Melinda og skrifaði meðal annars ritgerð um lagið til að komast í BA nám. Það er auðveldlega eitt af topp 10 lögum allra tíma hjá mér. Ég vonaði þess vegna heitt og innilega að þeir tækju það á tónleikunum. Ég byrjaði að tárast um leið og þeir komu fram á sviðið, ég trúði hreinlega ekki að þetta væri að gerast, held líka að ég hafi ekki áttað mig á því hvað ég væri raunverulega mikill aðdáandi.

Þar sem ég er skelfileg að muna nöfn á lögum þá var mér bent á þessa síðu sem er algjör snilld, ég hefði þurft að vita af henni fyrr. Þarna getur maður fundið set lista eftir tónleika, þetta er víst eitthvað eldgamalt, en splunkunýtt fyrir mér, setlist.fm

Þetta eru lögin sem þeir tóku ef einhver er að velta því fyrir sér.

  1. Cusp of Eternity
  2. The Devil‘s Orchard
  3. The Grand Conjuration
  4. To Rid the Disease
  5. Demon of the Fal
  6. The Drapery Falls
  7. Deliverance

Mér tókst að vera tiltölulega venjuleg í fyrstu tveimur lögunum. Þegar intróið í lagi 3 byrjaði þá byrjar gamla bara að grenja, og það var ekkert lítið. Þetta voru ekki bara nokkur tár, heldur var þetta bara alvöru ugly cry. Sem betur fer tóku þeir ekki Face of Melinda, þá hefði ég legið á gólfinu í fósturstellingunni með ekkasog. Þessir tónleikar voru allavega með þeim betri sem ég hef séð, þvílíkur söngvari og hljóðfæraleikarar. Ég veit ekkert hvernig sándið var, ég var bara í einhverjum trans og var ekkert að pæla í því. Hógværðin lak af þeim og þeir virtust skemmta sér mjög vel. Töluðu um að koma aftur sem fyrst, sem verður því miður ekki alveg strax. Ég er búin að kíkja á næsta túr hjá þeim og Ísland er ekki þar inni, en það kemur túr eftir þennan (pun intended).

Eftir Opeth kíkti ég niður í Egilsbúð til að sjá Ophidian I. Ég sá þá á Gauknum fyrir einhverju síðan og fannst þeir alveg magnaðir þá. Mér fannst þeir ekki jafn skemmtilegir núna og fór eftir nokkur lög. Það gæti alveg hafa spilað inn í að ég var nýbúin að sjá Opeth..

Páll Óskar kláraði síðan kvöldið. Ég man þegar ég sá fyrst að Páll Óskar væri að spila á Eistnaflugi þá fannst mér það frekar skrítið. En jiminn góður, þetta var bilað. Það er eitthvað frekar súrrealískt að sjá síðahærða svartmálaða rokkara dansandi við Pál Óskar. Það sýnir bara stemninguna á þessari mögnuðu hátíð. Og ef Opeth voru hógværir þá veit ég hreinlega ekki hvað Páll Óskar var. Hann trúði ekki að þetta væri að gerast og að hann hafi fyllt íþróttahús af dauðarokkurum. Retro Stefson tóku við af honum og voru skemmtileg eins og alltaf. Síðan endaði partýið með dj setti sem var mikill 90‘s fýlingur í. Ferlega skemmtilegt.

Þið sem hafið ekki farið á Eistnaflug viljið þið vinsamlegast drulla ykkur, þetta er svo skemmtileg! Takk fyrir mig enn og aftur, og milljón þakkir til Bergþóru og Gunnars. Betri gestgjafa er ekki hægt að finna. One love í fallega fjörðinn.


Eistnaflug dagur 3

Ég verð nú að klára að blogga um Eistnaflug. Það hefur aðeins dregist sökum veikinda en hérna kemur dagur 3.

Föstudagskvöldið hófst á Kontinuum. Flottir tónleikar og gjörsamlega epískt trommusánd, ég fæ gæsahúð við tilhugsunina eina. Ég get nú ekki sagt að ég fýli öll lögin þeirra, en ég vil meina að lagið Í huldusal sé gjörsamlega (mig langar að segja aftur epískt, en ætla að sleppa því) magnað. Í instrumental partinum fékk ég svo mikla gæsahúð að ég þurfti að standa grafkyrr til að hindra tárin í að leka niður.

Næstir voru drengirnir í Dimmu. Það er alltaf mjög skemmtilegt að sjá þá á sviði. Þetta stefndi í að vera bestu tónleikar sem ég hef séð með þeim eftir fyrsta lag, ég hugsaði með mér að ég hefði aldrei séð þá jafn flotta. Í lagi númer tvö klikkaði eitthvað í gítarnum, skipt var um snúru og síðan magnara og ekkert virkaði. Mér skilst að gítarinn hafi að lokum verið tekinn beint í magnara án effecta. Þannig að þeir tóku ansi langan tíma að komast í gang. Þessi pása fannst mér dálítið drepa stemninguna á sviðinu og það tók þá nokkur lög að komast aftur í fýling (eða kannski tók það nokkur lög að koma mér sjálfri í fýling). Þeir voru með annan bassaleikara en venjulega og ekki gat ég heyrt að það hefði áhrif á spilamennskuna, alveg jafn góðir og venjulega.

Amorphis er finnsk hetjumetal sveit sem við sáum næst. Ég skemmti mér konunglega á tónleikunum, skemmtileg sviðsframkoma og ágætis mússík alveg hreint. Lítið meira um það að segja.

Sólstafir kláruðu kvöldið og kláruðu á sama tíma sénsana sem ég hef gefið þeim í gegnum tíðina. Ég hef séð þá ansi oft en aldrei náð að klára heila tónleika. Ástæðan fyrir því að ég gef þeim alltaf fleiri sénsa er sú að mig langar svo að skilja þessa tónlist. Einhver hlýtur ástæðan að vera fyrir þessum gríðarlegu vinsældum og ég bara þoli ekki að skilja ekki hlutina. En til að gera langa sögu stutta entist ég í hálft lag og ákveð hér með að fara ekki á fleiri Sólstafa tónleika. Einhver spurði mig hvort að ég fýlaði Sigur Rós. Þegar ég sagði nei við því sagði hann að þá myndi ég ekki fýla Sólstafi. Ágætis pæling. En mikið væri lífið nú leiðinlegt ef við hlustuðum öll á sömu tónlistina.


Eistnaflug dagur 2

Dagur tvö byrjaði á hljómsveitinni Brot sem spiluðu í Egilsbúð. Áhugavert band og ágætlega þétt en að mínu mati var söngvarinn ekki alveg með á nótunum. Mér fannst röddin hans reyndar skemmtilega lík rödd Björns Jörundar á köflum, gaman að því. Einnig fannst mér hljóðið hafa mátt vera ögn lægra, en það er ef til vill bara aldurinn…

Eftir það sáum við hljómsveitina Nykur. Þetta er mússík að mínu skapi þó svo að sum lögin séu dálítið keimlík. Í fyrstu fjórum lögunum var reyndar leiðinleg tíðni sem hékk yfir öllu, væntanlega eitthvað úr snerlinum, sem gerði upplifunina ekki alveg jafn góða. En sem betur fer eru ekki allir jafn smámunasamir og ég. Ég væri allavega til að fara aftur á tónleika með þessari hlómsveit.

Gleðisveitin Kolrassa krókríðandi voru næst á svið. Rosalega gaman að þeim, mikið stuð og taumlaus spilagleði. Ég er bara ekki alveg nógu pönkuð til að geta tjáð  mig eitthvað að viti um tónleikana. 

Ísraelsku rokkararnir í Melechesh tóku við af þeim og þar kvað við örlítið annar tónn, þó bara örlítið. Á feisbúkk síðu þeirra segjast þeir hafa fundið upp "mesapotamian metal." Ágætis sviðsframkoma, en ég hefði alveg sofið jafn vel þó að þeir hefðu sleppt því að finna upp á þessari tónlistartegund.

Kvöldið okkar endaði á Ensími sem maður hefur séð 20 sinnum áður. En það er ástæða fyrir því að maður fer aftur og aftur á tónleika. Þeir eru bara með þeim bestu á landinu. Það sem ég kann líka að meta við Ensími er lagavalið þeirra. Sama hversu oft maður sér þá, þá getur maður alltaf gert ráð fyrir að heyra gömlu góðu uppáhalds lögin sín.


Eistnaflug dagur 1

Nú er ég stödd á mínu fjórða Eistnaflugi. Ég fór þrjú ár í röð, en fór svo í fýlu í fyrra því ég bjóst ekki við að flutningur úr Egilsbúð í íþróttahúsið myndi takast vel. Um leið og Eistnaflugsliðar tikynntu að Opeth kæmu í ár kyngdi ég fýlunni og keypti miða, enda hefur Opeth verið ein af mínum uppáhalds í um áratug. 

 

Mikið var ég ánægð að hafa drullað mér, því íþróttahúsið lítur svo vel út og sándar mjög vel. Maður er reyndar með smá samviskubit að drekka bjór þar sem maður er vanur að vera heilsusamlegur og spila blak, en það hlýtur að lagast.

 

Í gærkvöldi byrjuðum við á því að sjá nokkur lög með Muck en vorum aðalega að setja okkur í stellingar til þess að sjá Magna, enda við mjög harðar gellur. Muck er ekki alveg mín tónlist og bara ekkert meira um það að segja, við fýlum bara ekki öll það sama.

 

Ef ég væri forseti myndi Magni fá fálkaorðuna og Guðni Finns helst líka, jafnvel hljóðmaðurinn. Ég er enn sár yfir því að Magni hafi ekki komist í Eurovision hérna um árið því hann er bara hreinlega einn af bestu söngvurum landsins. Þeir tóku cover gigg og voru lögin mér að skapi. Þeir tóku lög með Stone temple pilots, Nirvana, Bowie, Live, Metallica, Radiohead, Pearl Jam og fleirum. Þetta band er alveg skelfilega þétt, enda valinn maður í hverju horni og jidúdda hvað bassinn sándaði vel, fæ án djóks smá tár í augun bara að hugsa um það (ég er mjög emotional þegar kemur að góðu bassasándi). Helst hefði ég viljað allavega þriggja tíma tónleika. Öll lögin voru svo gott sem alveg fullkomlega spiluð en að öðrum ólöstuðum þá átti For whom the bell tolls þetta kvöld, gæsahúð dauðans. Dolphins cry með Live er mikið guilty pleasure hjá mér og hefði ég viljað fá bandið með í því, ekki bara Magna þó að hann sé frábær…það er það eina sem ég hef út á þetta frábæra gigg að setja.

 

Eftir Magna spiluðu Marduk sem er sænsk black metal sveit. Þar sem ég skil ekki black metal staldraði ég stutt við á þeim tónleikum. Eftir þeim spiluðu Agent Fresco, sem eru búnir að vera í uppáhaldi í kringum áratug…nei getur það verið? Vá! Ég tók nú strax eftir því að það var ekki allt með feldu hjá söngvaranum, enda tilkynnti hann áhorfendum það eftir tvö lög að hann væri með lungnabólgu, en tók jafnframt fram að maður sleppti því ekkert að spila á Eistnaflugi þrátt fyrir smá veikindi. Þumlar upp til ykkar! Þeir vou alveg geggjaðir eins og venjulega. Ég verð að hrósa Jóa hljóðmanni líka fyrir gott sánd og þarf að fá uppskriftina af sneril sándinu í þriðja laginu sem mig minnir að hafi verið Wait for me. Ég brosti bara hringinn, algjört nammi.

 

Ég fór nú að hlægja þegar ég sá að Úlfur Úlfur væru að spila á hátíðinni, enda ein af þeim sem skilur ekki hippedí hopp (ég virðist hafa lítinn skilning á ansi mörgum tónlistarstefnum). Ég varð nú samt að sjá nokkur lög. Byrjaði standandi út í horni með krosslagðar hendur (klassísk varnarstaða), en fikraði mig svo alltaf nær og nær. Þetta kom skemmtilega á óvart. Það sem var náttúrulega alveg magnað við þetta var að Agent Fresco bandið varð eftir á sviðinu og spilaði með þeim. Ég er ekki viss um að ég hefði nennt að hluta á mörg lög á þeirra.

 

Annars er ég bara hrikalega sátt með fyrsta kvöld fjórðu Eistnaflugshatíðarinnar. Mikið verður þetta gaman! Rokk og ról


Plöturnar hans pabba #1

 

Í október verða orðin sex ár síðan að pabbi varð bráðkvaddur. Við systur vorum svo "heppnar" að erfa allt hans hafurtask sem innihélt meðal annars um 200 vínyl plötur. Stuttu eftir að hann dó fékk ég þá hugmynd að hlusta á allar plöturnar og skrifa um þær nokkrar línur. Síðan þá hefur þessi hugmynd alltaf verið í kollinum á mér en loksins núna ætla ég að byrja á þessu, betra er seint en aldrei.

 

Einhverjum finnst eflaust einkennilegt af hverju ég er að blogga um plötur sem voru flestar gefnar út fyrir meira en 30 árum. En ástæðan er sú að ég þekkti pabba því miður ekki eins vel og ég hefði viljað og með þessu vona ég að mér takist að skilja hann aðeins betur og einhvernveginn komist ég aðeins nær honum. Auk þess er ég mikill tónlistarunnandi og finnst gaman að uppgötva "nýja" tónlist og skrifa um hana.

 

Pabbi var mjög skipulagður þegar kom að plötunum hans. Þær eru allar númeraðar í stafrófsröð og margar sem maður kannast við og margar sem maður hefur aldrei heyrt um. Sumar sem ég hlakka mikið til að hlusta á eins og plötur með Frank Zappa og Deep Purple, og aðrar sem ég hreinlega kvíði fyrir að hlusta á eins og ein sem heitir Russian Balalaika, en sem betur fer er hún númer 167, þannig að miðað við hægaganginn á mér verð ég örugglega orðin sjötug þegar kemur að henni.

 

En plata númer 1 á listanum er hvorki meira né minna en Back in Black með ACDC og er með þeim þekktari á listanum. Gaman að segja frá því að aftan á henni er verðmiði sem stendur á 76.00kr. Við hvern talar maður til að fá þetta verð aftur?

 

Það er hrikalega erfitt að skrifa um plötu sem flestir rokk og ról unnendur hafa væntanlega verið með á repeat oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Platan er gefin út 1980 og inniheldur marga slagara eins og Hells Bells, Back in black og You Shook me all night long. Platan er tekin upp á Bahamas, sem er skemmtilegt trivia fyrir nöllana þarna úti.

 

Ég verð að viðurkenna það að ég hef aldrei verið mikil AC/DC kona þó að auðvitað hafi maður heyrt þessi helstu lög (sorrý, mínus rokk stig í kladdann fyrir mig). En á þessari plötu voru nokkur sem ég man ekki eftir að hafa heyrt, eins og til dæmis Have a drink on me og Shake a leg. Á plötunni er líka uppáhalds AC/DC lagið mitt sem er Let me put my love into you. Að mínu mati er það lag mest sexý rokk lag sögunnar. Ekki bara út af textanum heldur melódíunni, taktinum og bara öllu.

 

Næst síðasta lagið á plötuni er Shake a leg sem eftir þessa uppgötvun er jafnvel nýja uppáhalds lagið mitt með þessari sveit. Töff gítarriff lagið út í gegn, og ef mér skjátlast ekki þá verður takturinn örlítið hraðari því lengra sem líður á lagið. Veit ekki hvort það hafi verið með ráðum gert eða hvort trommarinn hafi bara orðið svona spenntur. Alltaf jákvætt að mínu mati þegar trommarinn er ekki klikktrakk vélmenni.

 

Rock and roll aint noise pollution er gott lokalag á þessari plötu. Mér finnst rosalega oft í lokalögum að það er aðeins minni alvarleiki yfir þeim. Eins og í intróin á þessu lagi til dæmis, þá heyrir maður andardrátt og einhvern vera að tala. Þetta loðir dálítið við lokalög og gerir plötur mannlegri að mínu mati. Þá veit maður að það er fólk í stúdíói einhversstaðar að leika sér.

 

En annars er þessi plata gourmet út í gegn. Skelfilega fínt trommusánd og enginn að óverdósa í reverbi. Söngurinn er dálítið aftarlega í mixinu á þessari plötu, sem er bara fínt, gott að leyfa tónlistinni bara að njóta sín svona endrum og eins. 

 

Næsta plata á listanum er platan Lone Rhino með Adrian Belew. Ég veit ekkert hvað ég er að fara út í þar, en kemur í ljós. 


Airwaves - laugardagur

Iðnó var fyrsta stopp laugardagskvöldsins á Airwaves. Þar var blús/rokk hljómsveitin Beebee and the bluebirds að spila. Ég hef aldrei verið mikil blús kona en það var nóg af rokki í þessu til að staldra við. Ég hef heyrt söngkonuna syngja áður með Baggabandinu og vissi að hún væri hörku söngkona. Ég vissi líka að hún spilaði á gítar en ég bjóst við öðrum lead gítarleikara. Ég hef greinilega ekki verið nógu dugleg að lesa Veru blöðin hennar mömmu hérna í denn. Eða þá að maður er hreinlega ekki vanur að sjá söngkonu sem er líka lead gítarleikari sólóandi út um allt. Á milli laga sagði systir mín að þessi kona hlyti að vera mest cool kona sögunnar og ég held að hún sé ekki fjarri lagi þar. Við allavega stóðum alveg dolfallnar, með gæsahúð og ég með tár í augun í einhverjum lögum. Lögin eru hvert öðru betra og bandið er skipað topp hljóðfæraleikurum. Mér fannst líka æðislegt hvað þau voru hógvær. Hún þakkaði áhorfendum oft fyrir komuna og ég segi nú bara nei, þakka ykkur fyrir.

 

Við röltum þá í Hörpu í raun ekki með neitt ákveðið plan. Kíktum fyrst á Kiasmos sem er techno tvíeyki. Stöldruðum við í nokkur lög, þetta var örugglega rosa flott en ég skil ekki techno það er ósköp einfalt. Þaðan fórum við í næsta sal og sáum nokkur lög með írsku hljómsveitinni Soak sem var svona allt í lagi, rokk popp eitthvað, ekkert sem heillaði mig upp úr skónum. Sóley spilaði eftir þeim. Hún var ágæt, ekki mín uppáhalds tónlist, kannski aðeins of rólegt og of miklar endurtekningar fyrir minn smekk. En hún er með fallega rödd og skemmtileg á sviði, spjallar við áhorfendur mér finnst það alltaf skemmtilegt, eitthvað svo mannlegt.

 

Við skoðuðum dagskránna og ákváðum að sjá smá af Battles, kíkja síðan í næsta sal og fá smá soul í kroppinn frá Saun og Starr og fara svo á Nao á Nasa. Battles er nú meiri sýran. Samt þannig að maður getur eiginlega eki slitið sig frá, því maður er svo forvitin hvað í ósköpunum skildi eiginlega gerast næst. Gítarleikarinn minnti mig á sjálfa mig þegar ég fékk fyrst rafmagnsgítar og magnara með innbyggðum effectum. Þið vitið þegar maður situr bara og prófar alla effectana sína. Síðan var hann líka með hljómborð sem hann ýtti bara á einhverjar nótur hér og þar, allavega hljómaði það þannig í mínum eyrum, þau eru kannski ekki nógu þroskuð fyrir þetta.

 

Við ætluðum bara að sjá eitt, tvö lög með Saun & Starr og fara svo á Nao. Til að gera langa sögu stutta fórum við ekki á Nao. Mikið er gaman að uppgötva nýja tónlist. Við erum að tala um sax, trompet, bassa, trommur, gítar og tvær fimmtugar alvöru gospel söngkonur. Getur maður beðið um eitthvað betra!? Bandið byrjaði að spila áður en söngkonurnar komu inn á sviðið og það hefði verið alveg nóg fyrir mig því þetta er með betri böndum sem ég hef séð. Bassinn maður, bassinn. Í einu laginu sendu þær bandið af sviðinu og stigu frá míkrafónunum og sungu gospel. Namminamm. Við stóðum með stjörnur í augunum alla tónleikana. Ég held að það sé skilda að athuga þetta band betur.

 


Airwaves - föstudagur

Þriðja kvöld Airwaves hátíðarinnar byrjaði rennandi blautt. Förinni var heitið í Fríkirkjuna til að hlusta á hljómsveitina Ylju. Við stóðum fyrir utan í grenjandi rigningu í stundarfjórðung áður en við komumst inn. Verandi jafn miklar pæjur og við erum datt okkur ekki í hug að klæða okkur eftir veðri. Aldrei skildi maður læra. Ég varð ástfangin af Ylju þegar ég sá þau í fyrsta skipti sem var í kjallaranum á 11unni fyrir nokkrum árum. Ég varð síðan fyrir vonbrigðum með þau eftir tónleika með þeim á Airwaves í fyrra og hef lítið hlustað á þau síðan. Þessir tónleikar í Fríkirkjunni voru yfirnáttúrulegir, get ekki orðað það öðruvísi. Raddir söngkvennanna eru út úr þessum heimi. Þær hafa algjört vald yfir röddunum og raddanirnar eru stórkostlegar. Ég fékk gæsahúð í hverju einasta lagi og oft tár í augun. Eitt lagið samdi önnur söngkonan til ömmu sinnar heitinnar. Mig langaði helst til að leggjast á gólfið í fósturstellingunni og grenja því það var svo fallegt.

 

Eftir að hafa þurrkað mestu tárin í burtu og lagað maskarann var Hjaltalín næst á dagskrá. Það voru aðrir gæsahúðartónleikar eins og við var að búast. Ég hef reyndar ekki hlustað mikið á hljómsveitina nema aðalega plötuna Terminal sem ég hlustaði mikið á, á sínum tíma. Í þessari hljómsveit er annað gott dæmi um raddir sem passa skemmtilega saman. Drottningin Sigríður Thorlacius með sína fullkomnu klassísku rödd og síðan Högni með röddina sína sem er troðfull af alls konar karakter. Ólíkar raddir sem bara virka. Lagið sem stendur upp úr var lokalagið sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað heitir. En rúllandi í gegnum lögin þeirra á Spotify þá hlýtur það að hafa verið lagið We, af plötunni Enter 4. TROMMURNAR MAÐUR! Vávávává! Endirinn var rosalegur. Eitt massíft build up og TROMMURNAR! Hvað er að gerast! Sorrý það er ekki mjög pro að skrifa í caps lock en ég get ekki lýst þessu betur. Ég man ekki eftir því að hafa orðið leið þegar að eitthvað lag klárast áður. En ég var bara mjög pirruð, ég vildi meira. En það er allavega ljóst að ég ætla að fara að hlusta meira á Hjaltalín.

 

Það var erfitt að komast niður á jörðina eftir tvenna stórkostlega tónleika, enda var ekki mikið varið næstu hljómsveit sem við sáum sem var Perfume Genius. Lítið um þetta að segja nema bara að þetta höfðaði alls ekki til mín. Eftir nokkur lög kíktum við í Kaldalón, aðalega til að geta sest aðeins niður, verandi með ónýt bök og hné. Þar var hljómsveitin When 'airy met fairy. Skemmtilegt nafn en það var í raun eina við þetta sem mér fannst skemmtilegt. Söngkonan er reyndar með fína rödd og trommarinn fínn.

 

Systir mín dró mig svo á Grísalappalísu í lok kvölds. Og það var nú meiri gleðin. Þeir byrjuðu mjög skemmtilega þegar annar gítarleikarinn og saxafónleikarinn byrjuðu að spila Tears in Heaven. Restin af hljómsveitinni kom svo á sviðið og ballið byrjaði. Mér leist ekkert alltof vel á blikuna fyrst og vissi ekki alveg hvað ég var komin út í, en ekki leið á löngu þar til gamla var farin að dilla sér með. Það kom mér á óvart hvað þetta er góð hljómsveit, ég bjóst við einhverjum gaurum glamrandi á hljóðfærin sín, en þetta er þétt og drullufínt band. Frábær sviðsframkoma og alls konar skemmtilegir karakterar sem halda manni við efnið.

 

 

Hljómsveit kvöldsins: Ylja

Lag kvöldsins: We (held ég) með Hjaltalín

Vonbrigði kvöldsins: Þegar We var búið

 


Airwaves dagur 2

 

Airwaves dagur 2

 

Annað kvöld hátíðarinnar hófst off venue á Hressó þar sem hljómsveitin Shady tróð upp. Að skrifa um þessa sveit verður æfing í hlutleysi þar sem söngkonan er vinkona mín. Shady er tiltölulega nýtt band sem er skemmtileg viðbót í íslenska tónlistarflóru. Alvöru rokk og ról með flottri söngkonu í fararbroddi. Ég hef séð nokkra tónleika með þeim og þau verða betri og betri því oftar sem þau spila. Það voru hnökrar hér og þar en allt innan velsæmismarka. Sum lögin eru dálítið keimlík, en sömu sögu er að segja um lög Brain Police og það er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum. Í nokkrum lögum vantaði meiri röddun að mínu mati til að fá aðeins meiri fyllingu. Þessi hljómsveit er komin til að vera og ég get ekki beðið eftir plötu frá þeim sem vonandi styttist í. 

 

Eftir rokk og ról á Hressó var ferðinni heitið í Hörpu. Systir mín dró mig svo gott sem á tónleika með Low Roar sem ég nennti nú ekki á. Ég hef aldrei hlustað á þessa hljómsveit en var búin að búa til í huganum einhver rólegheit og leiðindi. Þegar við komum inn í salinn var selló það fyrsta sem ég sá á sviðinu og vel þess virði að stoppa bara út af því. Ég vonandi læri núna að dæma ekki hljómsveitir fyrirfram, því þetta voru rosalega góðir tónleikar. Ég var í sjokki yfir því hvað söngvarinn var góður, algjör fagmaður sem söng ekki feilnótu. Uppáhalds live söngvarinn minn er Guy Garvey úr Elbow, en þessi söngvari var ekki langt frá því að stela sætinu hans. Það var rosa kraftur á sviðinu sem skilaði sér út í salinn. Mikil upplifun að sjá þetta band og ég hlakka strax til að sjá þá aftur.

 

Samúel Jón Samúelsson big band er hljómsveit sem er alveg bannað að missa af en þeir spiluðu í Norðurljósum í Hörpu. Það er alltaf jafn skemmtilegt að fara á tónleika með þessari hljómsveit og ekki hægt að horfa á þá nema dilla sér. Samúel hefur gott vald á bandinu og gaman að horfa á hann stjórna þeim. Þarna eru topp hljóðfæraleikarar í hverju horni og allir eru á tánum þegar Samúel bendir á þá til að fá þá til að koma fram á sviðið í sóló. Ég veit ekki hvort það sé æft eða ekki, en það er skemmtilegt að hugsa til þess að allir séu tilbúnir í sóló hvenær sem er. Ef þið hafið ekki séð þessa hljómsveit mæli ég með að þið gerið það hið snarasta. Þeir reyndar tóku ekki uppáhalds lagið mitt Jógúrt, ég þarf þá bara að sjá þá aftur sem fyrst.

 

Við enduðum kvöldið á Listasafninu þar sem norska hljómsveitin Aurora spilaði. Ég vissi ekkert út í hvað við vorum að fara en varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Söngkonan var gríðarlega hógvær og þakkaði áhorfendum oft fyrir að koma, því hún bjóst ekki við að svona margir myndu mæta. Ég hef ekki oft heyrt svona gjörsamlega gallalausan söng í jafn erfiðum lögum. Það pirraði mig samt dálítið hvað tónlistin og söngurinn var keimlíkur norksu söngkonunni Emilie Nicolas sem spilaði á Airwaves í fyrra.

 

Hljómsveit kvöldsins: Low Roar

Lag kvöldsins: Öll með SJS big band

Klúður kvöldsins: Bara fólk almennt sem talar svo hátt á tónleikum að maður nær ekki að einbeita sér.

 


Næsta síða »

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband