Jahh maður veit hreinlega ekki hvar skal byrja. Andskotinn! Þetta var hrikalega flott festival og ekki er ég mikið í dauðarokkinu eða black/trash/brutal (og hvað þessi metall heitir nú allur). Ég fer helst ekki mikið harðar en Pantera, Opeth, Slipknot...
En hér kemur smá Eistnaflugs færsla.
Dagur 1
Þar sem við vorum komnar frekar seint í bæinn misstum við af helling af hljómsveitum og var fyrsta sveitin sem við sáum Wistaria. En því miður náðum við bara síðasta laginu sem ég sé mikið eftir. Hefði viljað sjá meira af þeim. En það býður betri tíma.
Næsta band sem við sáum var hljómsveitin Momentum, en reyndar sáum við bara einhvern part af þeim. Mér fannst nú ekkert varið við tónlistina sem slíka en skrifaði niður á minnisblað hjá mér "flottur trommari" og "skemmtilegt reverb á vocal". Ekki mikið meira um það að segja.
Innvortis stigu á svið eftir Momentum. Æjji sorry er ekki mikill pönkari í mér fyrir utan að hafa hlustað mikið á the Clash hérna í denn. En mér semsagt fannst þetta ekkert voða skemmtilegt. Þeir náðu áhorfendum samt með sér og voru skemmtilegir á sviði. Dálítið kaldur húmor þegar farið var að ræða um Litháena í höfninni. ... :/
Sólstafir lokuðu kvöldinu. Ég var ennþá í fýlu út í þá þar sem ég hafði hlakkað mikið til að sjá þá á Wacken undankeppninn (minnir mig að það hafi verið frekar en eitthvað annað fyrr í vor) þar sem þeir áttu að loka kvöldinu. Þér létu hins vegar bíða eftir sér í rúmar 40 mínútur og ég býð ekki svona lengi eftir neinum. Nei takk. Ég semsagt hafði aldrei séð þá og ekki heyrt neitt nema Fjöru í útvarpinu og hreinlega hef aldrei fýlað það lag, ef til vill því það var ofspilað í tætlur á sínum tíma. Plús þá pirrar það mig sjúklega í laginu þegar hann talar um að hjartað pumpi tárum. Róum okkur á dramanu...get ekki svona. En hvort sem hjartað pumpi tárum eða dæli blóði eins og hjá flestum þá voru þeir það band sem stendur upp úr að mínu mati hvað flutning og gæði tónlistarinnar varðar. Þeir voru alveg hreint magnaðir. Ég fékk allavega gæsahúð og tár í augun þegar þeir byrjuðu. Er búin að vera að kynna mér þetta band aðeins betur og ef einhver hefur ekki kynnt sér þetta band, mæli ég með því að sú/sá hin/hinn sama/sami geri það tafarlaust. Besta lag: Ljós í stormi (dauði og djöfull hvað það er gott lag!)
Dagur 2
Eitthvað vorum við að missa okkur í sólinni og vorum ekki komnar niður í Egilsbúð fyrr en um 18:30 til að sjá Vicky. Þau voru betri en síðast þegar ég sá þau sem var á HÍ festivali sem ég man ekki hvað heitir. Mikill fýlingur í sumum þeirra en minni í öðrum. Frábær söngkona, það fer ekki á milli mála.
Þar á eftir sáum við eina af meisturum hátíðarinnar sem voru pollarnir í the Vintage Caravan. Ofsalega vel spilandi drengir miðað við aldur (heyrði að þeir væru 18) og þó svo að þeir væru þrítugir. Finnst þó gítarleikarinn standa uppúr (eða kannski var þetta bara þetta yndislega old school gítarsánd). Spilagleðin sást langar leiðir og það skiptir miklu máli að mínu mati að maður sjái að spilarar séu að njóta þess sem þeir eru að gera. Þeir voru víst líka með nýjann bassaleikara sem sást ekki því þeir voru bara frábærir. Síðan gerðu þeir eitt sem mér finnst næstum eins gaman og að heyra "raddað" gítarsóló (veit ekkert hvað þetta heitir). En ég myndi kalla þetta einhversskonar battl, þegar gítarleikarinn spilar eitthvað og svo hermir bassaleikarinn eftir, alltaf jafn gaman að því. Tékkið á þessu bandi!
Skálmöld var hljómsveitin sem við sáum næst og var sú hljómsveit sem átti þennan dag að mínu mati. Ég er ekki viss hvort það hafi endilega verið gæði tónlistarinnar eða stemningin sem myndaðist í salnum. Ég allavega fékk gæsahúð þegar þeir stigu á svið. Ég var líka að sjá þá í fyrsta skiptið þarna og það gerðist eitthvað innra með mér (allavega tímabundið). Þetta var svo þjóðlegt og flott og eftir tónleikana labbaði ég út og hef einhvernveginn aldrei verið jafn stolt af því að vera Íslendingur komin af víkingum... eins fáránlega og það hljómar. En þetta voru allavega fyrstu áhrifin. Besta lagið: Kvaðning
Severed Crotch spiluðu þar á eftir og fannst mér ekki mikið til þeirra koma. Eflaust voðalega gott band. Bara ekki minn smekkur.
Dagurinn hafði verið uppfullur af eftirvæntingu fyrir Dr. Spock. Ég hreinlega varð fyrir smá vonbrigðum. Eða nei ég varð bara fyrir miklum vonbrigðum. Þeir voru bara lélegir. Auðvitað tóku þeir Fálkann og rústuðu honum eins og alltaf og síðan tóku þeir ábreiðu af Viktori hennar Líonsí sem var líka skemmtilegt. Fyrir utan það var ekki mikið gott. Við löbbuðum út snemma.
Dagur 3
Ég vil kenna sundlaug Neskaupstaðar um að við misstum af meirihlutanum af Dimmu. Það bara var svo næs að liggja í henni í sólinni. En ein mestu vonbrigði hátíðarinnar er að hafa ekki séð þá frá upphafi til enda. Við náðum bara síðustu tveimur lögunum eða svo. Frábært band, góð mússík og glæsilegur söngvari.
Eftir Dimmu spiluðu svo Atrum sem ég hef séð nokkrum sinnum áður. Ekki beint mín mússík en ég hef samt heyrt þá betri. Eftir voðalega vont gítarsóló löbbuðum við út. Lífið er of stutt fyrir vond gítarsóló.
Botnleðja áttu þetta kvöld og voru alveg frábærir. Ég hef reyndar aldrei verið mikill aðdáandi en þeir voru alveg magnaðir og náðu upp magnaðri stemningu. Best þótti mér þó þegar trommarinn sagðist vilja fá að sjá berar túttur. Hann fékk það en eftir lagið sagði hann svo: ,,Ég var bara að djóka sko" :)
FAIL hátíðarinnar var næsta band sem var cover bandið Börner. Þetta var það alversta cover band sem ég hef séð. Við reyndar sáum ekki alla tónleikana og ég er eiginlega bara þakklát fyrir það. Við sáum 3 síðustu lögin. Það fyrsta sem við sáum var for whom the bell tolls. Ég fæ eiginlega bara hroll við tilhugsunina, þetta var vandræðalegt. Seek and destroy var þó aðeins betra en aðalega vegna þess að söngvarinn lét mækinn í crowdið til að syngja ,,Seek and destroy" partinn sem var mjög fróðlegt og fékk maður að heyra það í hinum ýmsu útfærslum og flestar bara nokkuð góðar. Svo tóku þeir Breaking the law sem var ekki gott heldur en kannski ekki beint vont.
Allt í allt var þetta alveg mögnuð hátíð. Ég veit að ég sagði oft að þessi tónlist sem við sáum og heyrðum hefði ekki verið mér að skapi en það þýðir ekki að ég hafi ekki skemmt mér konunglega. Þessi bönd voru eflaust flest mjög góð en ég ætla ekki að dæma eitthvað sem ég "skil" ekki.
Gallar:
- Ég furða mig á uppröðun hljómsveita á föstudeginum og laugardeginum. Föstudagurinn var Skálmöld - Severed Crotch - Dr. Spock. Hefði að mínu mati og maður sá það líka bara á stemningunni að það hefði mun frekar átt að vera Severed Crotch - Dr. Spock - Skálmöld. Laugardagurinn var Botnleðja - Börner. Í staðinn fyrir að mínu mati klárlega Börner - Botnleðja (eða bara sleppa þessu Börner. Þó að hugmyndin af svona rokk cover bandi hafi verið góð).
- Hávaði. Ég er alltaf með eyrnatappa. Og mæli með að fólk geri það alltaf (ef það vill þ.e.a.s. halda í heyrnina lengur en til fertugs). Því miður týndi ég tímabundið öðrum eyrnatappanum mínum rétt fyrir Dimmu. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þetta var svo hátt. Og þrátt fyrir að hafa bara verið án eyrnatappa þarna í 3 lög, var ég með suð í eyrunum þegar ég fór að sofa um nóttina. Skamm. Hvað er þetta með rokktónleika! Maður nær ekkert að njóta tónlistarinnar ef hún er það há að manni finnst einhver vera að saxa á sér hljóðhimnurnar.
Kostir
Tjahh hvar á maður að byrja?
- Flottasta staðsetning í heiminum (ég er algjörlega hlutlaus verandi fædd og uppalin í Neskaupstað:))
- Frábær stemning
- Ekkert rugl og ekkert kjaftæði. Skipuleggjendur sem og hljómsveitarmeðlimir brýndu fyrir fólki að allir ættu að vera vinir og vera góð hvert við annað. Það gekk.
- Heimilisleg stemning. Ég fór inn á bað eitt kvöldið til að setja í mig augndropa vegna linsuvandræða. Þá kom ein upp að mér sem var einmitt í þessum hópi skipuleggjenda og spurði hvort ég þyrfti einhverja hjálp. Hún ætti sko stelpu sem notaði linsur og gerði þetta oft :)
- Ég tók aldrei eftir neinum sem virtist vera á einhverjum hörðum efnum. Það er alltaf jafn sorglegt að sjá ungt fólk (já eða bara fólk yfir höfuð) uppdópað, en tók ekki eftir því þarna.
- Fjölbreytt fólk. Fyrir hátíðina var okkur sko sagt að það væri bara skrítið fólk þarna og að við myndum aldrei "fitta" þarna inn. Sú var nú heldur betur ekki raunin. Þarna var alls konar fólk á öllum aldri í alls konar fötum, mjótt - feitt, þurrt - sveit, skítugt - hreint.
- Veðrið! Eruð þið ekki að grínast hvað það var ljúft.
- Auk þess að kynnast svona mörgum nýjum islenskum hljómsveitum það uppgötvaði ég líka eina útlenska, sem var reyndar ekki að spila, en heitir Adrenaline Mob og ekki með minni mönnum en Mike Portnoy og söngvaranum úr Symphony X sem ég man ekki hvað heitir.
- Á milli hljómsveita var spilað diskó. Það var alveg yndislega fyndið og súrrealískt að sjá dauðarokkara málaða í framan taka diskó múvin við Daddy cool svo eitthvað sé nefnt.
- Allt á áætlun. Það voru rúm 40 bönd að spila á hátíðinni og öll þeirra spiluðu á réttum tíma. Með svona stórt line-up er hætta á mikilli seinkun, en þarna var ekkert svoleiðis.
Þetta geri ég aftur að ári það er engin spurning :)
Takk fyrir mig Eistnaflug :)
Bloggar | 17.7.2012 | 23:11 (breytt kl. 23:32) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eins og kemur fram í dálknum sem er kallaður svo mjög sjálfhverflega ,,Um mig,, þá náði ég mér í diplomu í hljóðblöndun fyrir einhverjum árum og svo BA gráðu í recording arts, hvað sem það nú þýðir. Í dag stunda ég meistaranám í HÍ í blaða- og fréttamennsku og áætla að klára það næsta vor. Ég þykist þess vegna vita eitthvað um bæði tónlist og hljóðgæði. Ég þekki ekki alla tónlistarmenn með nafni og kýs í þessu bloggi að tala um bassaleikara, gítarleikara, trommara, söngvara, hljómborðs-/synthaleikara o.s.frv.
Mig hefur lengi langað til að skrifa um íslenska tónlist en aldrei komið mér í það af einhverjum ástæðum. Ég hef gælt við þá hugmynd að fjalla um íslenska tónlistarfréttamennsku í meistaraverkefninu mínu og tel þetta vera ágætis æfingu fyrir það. Ég hef sterkar skoðanir á tónlist og ætla mér ekkert að sitja á þeim. Ég er búin að vera á Íslandi í ár eftir 4 ár erlendis og er hægt og rólega að koma mér aftur inn í íslenska mússík, svo það eru helling af böndum sem ég hef ekki séð en sé vonandi í sumar.
Reykjavík Live tónlistarhátíðin var haldin dagana 16.-20. maí á hinum ýmsu stöðum í Reykjavík. Verandi meiri rokkunnandi en hvað annað hélt ég mig einungis á Gauknum. Ég var frekar pirruð yfir því þegar ég sá að maður hafði skrifað grein þar sem hann mælti með því að fólk sniðgengi hátíðina vegna þess að hann hafi ekki verið sáttur við auglýsingaherferðina, en Jón stóri á víst að hafa verið með í henni. Ég hef ekki séð þetta og hef ekki áhuga á því. Fyrir mig var nóg að sjá plaggat með nöfnum listamannanna sem spiluðu á hátíðinni og þá var strax farið í það að safna fólki á hátíðina. Mér finnst það ofsalega slæmt þegar fólk talar um að sniðganga íslenska tónlist út af einhverjum svona smámunum. En nú að tónleikagagnrýninni.
Miðvikudagur:
Hátíðin hófst á miðvikudegi og stóð fram á rauða nótt enda frí daginn eftir. Þær hljómsveitir sem ég sá það kvöld voru Valdimar, Legend og Retro Stefson. Ég hafði ekki séð neitt af þeim böndum fyrr. Hljómsveitin Valdimar er alveg magnað band og þétt og Valdimar frábær söngvari og básúnuleikari. Ég hef ekkert slæmt að segja um þessa tónleika. Bandið náði áhorfendum með sér og allir dilluðu sér við þessa poppuðu reggí tóna eða hvað sem maður á að kalla þetta.
Að mínu mati áttu hins vegar næsta hljómsveit kvöldið, Legend. Ég hafði ekki heyrt um þetta band fyrr (sem sýnir kannski hversu illa ég er inn í þessu nýlega stöffi) en hafði heyrt út undan mér að Krummi úr Mínus væri í því. Ég vissi því ekkert við hverju var að búast. Þegar ég heyri flotta mússík brosi ég alltaf ósjálfrátt út að eyrum og það gerðist í þessu fyrsta lagi. Það var bara sjúkt. Þvílíkt power og þéttleiki og ég er nú venjulega ekki mikið fyrir raftónlist, en þetta band þarf ég að sjá aftur og aftur. Krummi var svartmálaður í framann og með einhvern svartan trefil um hausinn sem ég veit að fór í taugarnar á einhverjum, en þegar fólk getur búið til svona magnaða tónlist kemst það upp með nánast hvað sem er í mínum augum.
Retro Stefson lokuðu svo kvöldinu og voru frábærir. Eins og áður sagði hafði ég ekki séð hljómsveitina áður, ekki því ég hafði ekki fengið mörg tækifæri til þess heldur vegna þrjósku og almennrar andúðar á syntha poppi/rokki eða hvað sem á að kalla þetta. En núna þegar sólin er farin að láta sjá sig þá kemst maður í smá svona fýling. Þetta band er ofsalega vel spilandi og hressir og náðu áhorfendunum með sér.
Fimmtudagur:
Ákvað að taka mér frí þetta kvöld því ég þurfti að vinna daginn eftir. Fannst það í lagi því Agent Fresco var hljómsveitin sem ég hefði mest viljað sjá en er búin að sjá þá nokkuð oft.
Föstudagur:
Hljómsveitirnar sem mig langaði mest að sjá þetta kvöld voru síðustu þrjár, Reykjavík, Kimono og Ensími. Ég var mætt á Gaukinn aðeins of seint og missti því af Reykjavík! þannig að það bíður betri tíma. Kimono er hljómsveit sem ég man að var mikið á milli tannanna á fólki fyrir nokkrum árum og minnti mig að þetta ætti að vera rosalega gott band. Ég hefði betur átt að mæta klukkan 2 til að sjá Ensími því þetta var örugglega ein af verri klukkustundum lífs míns. Það byrjaði á því að hljómsveitin tók örugglega rúmann hálftíma að koma sér fyrir og eftir að þeir voru komnir á svið voru örugglega aðrar rúmar 10 mínútur að tjúna sig eða hvað sem þeir voru að gera. Svo þegar þeir voru byrjaðir að spila voru þeir svo drepleiðinlegir að ég hélt ég yrði ekki eldri. Þetta hljómaði eins og eitthvað bílskúrsband sem voru búnir að æfa í 2 mánuði. Drepleiðinlegur söngur og illa spilandi oft á tíðum…nema þetta hafi átt að vera svona út af einhverjum artistic reasons sem eru of artí fyrir minn smekk. Trommarinn átti hins vegar ágætis spretti á köflum. Ekki var hljómsveitin bara léleg heldur var tónlistin óhemju leiðinleg. Þegar söngvarinn tilkynnti svo að þeir ættu tvö lög eftir þá heyrðist úr salnum: ,,drullið ykkur af sviðinu,“ og ég hreinlega hefði ekki getað orðað það betur sjálf.
Ensími kláruðu svo kvöldið eins og þeim einum er lagið. Þeir spiluðu mikið af efni sem ég hafði ekki heyrt áður sem er þá væntanlega af nýjustu plötunni sem hljómaði mjög vel. Þeir byrjuðu ofsalega vel en eftir það fór söngvarinn að hitta sjaldnar og sjaldnar á réttu tónana. Ég fyrirgef svoleiðis upp að vissu marki, en ekki þegar það er farið að pirra mig. Ég tel mig vera með nokkuð gott tóneyra þannig að þetta pirraði kannski ekki alla. Þegar hljómsveitin tók svo Atari tók hann sig aldeilis saman í andlitinu. Við þetta lag brosti ég út að eyrum, sem þýðir eins og áður sagði að eitthvað magnað var að gerast að mínu mati. Allt var fullkomið. Þetta var svo fullkomlega flutt að ég hugsaði á einum tímapunkti að þetta væri besti flutningur á íslensku lagi sem ég hafði séð live. Að öðrum hljóðfæraleikurum í bandinu ólöstuðum átti trommarinn þetta, sem er stundum kallaður Trommari Íslands, enda hefur hann trommað með mörgum af bestu böndum á landinu. Hann er náttúrulega bara fáránlegur ef svo má að orði komast, ekkert meira um það að segja. Þeir enduðu svo kvöldið á Arpeggiator eins og við var að búast og það var aftur flutt alveg fullkomlega. Bassinn var svo rosalegur að ég hélt á tímabili að lungum myndu falla saman, eða springa.. er ekki viss hvað myndi gerast við bassa overdós.
Laugardagur:
Ég var búin að bíða eftir lokakvöldinu alla vikuna því Brain Police hefur lengi verið ein af mínum uppáhalds íslensku sveitum og ég var ekki búin að sjá þá í alltof mörg ár. Sama dag keypti ég plötuna þeirra Electric fungus í annað skipti því ég fann ekki mína heima og var orðin pirruð á að leita. Ég taldi mig þá eiga allar plöturnar en var alveg búin að gleyma Beyond the wasteland sem kom út árið 2006 og vantar enn í safnið. Hún verður keypt á næstu dögum.
Ég var mætt á Gaukinn um 1 leytið því mig langaði mikið að sjá hljómsveitina Plastic Gods sem margir vinir mínir eru að æla á sig af spenningi yfir. Þegra við vorum rétt komin upp stigann á Gauknum tók við þessi rosalegi hávaði. Ég hafði semsagt ekki sett eyrnatappana í. Ég geng alltaf inn á tónleika án tappa til að meta hvort ég virkilega þurfi þá því ég held enn í vonina að hljóðmenn fari að mixa tónleika undir leyfilegum hávaðamörkum. Ég veit sossum ekki hver þau eru en ég er allavega hætt að koma heim af tónleikum með suð í eyrunum vegna hávaða. Fólk heldur að það að vera með suð í eyrunum eftir tónleika sé í lagi en það er það bara ekki rassgat, afsakið orðbragðið en þetta liggur mér þungt á hjarta. Í hvert skipti sem maður kemur heim með suð í eyrunum hefur maður lamað eða jafnvel "drepið" hárfrumur í eyrunum sem getur valdið tímabundnum eða jafnvel varanlegum skaða á heyrn. Ég myndi aldrei nota venjulega eyrnatappa á tónleikum því eins og þeir vita sem það hafa prófað köttar það mikið af háu tíðnunum út og þar af leiðandi verður allt sem maður heyrir muddy og leiðinlegt. Ég er með sérhannaða eyrnatappa sem passa bara í mín eyru og kostuðu reyndar handlegg. En ég mæli eindregið með því að fólk sem er mikið á rokktónleikum reddi sér svona eða einhverju svipuðu ef það vill halda í heyrnina lengur en til fimmtugs. Auðvitað er maður ekki að fá alveg 100% "clean sound" því þó þeir eigi að hleypa öllum tíðnum í gegn en bara í minna mæli kötta þeir nú eitthvað af háu tíðnunum, en það er það lítið að ég samþykki það. Sorry með þetta væl, ekkert mjög mikið rokk og ról en ég held að það mætti alveg tala meira um þetta.
En þetta var svona smá útúrdúr, aftur að tónleikunum. Varðandi Plastic Gods þá voru þeir góðir en ekki alveg fyrir minn smekk. Það komu reyndar partar inn á milli sem voru frekar leiðinlegir. Þessir partar voru rosalega rólegir og lítið að gerast. Ég nenni ekki of mikið af svoleiðis.
Síðan rann stóra stundin upp. Brain Police spiluðu eitthvað af efni sem ég þekkti ekki sem er þá væntanlega af Beyond the Wasteland sem var fínt. Mér fannst að Jenni söngvari hefði mátt hitta oftar á réttu tónana í byrjun tónleikanna en það lagaðist þegar á leið, hann hefur væntanlega fengið meira af sér í monitor. Ég varð hins vegar fyrir miklum vonbrigðum með tónleikagesti á tónleikunum, því það myndaðist pittur sem fer óstjórnlega í taugarnar á mér þegar það á ekki endilega við tónlistina. Sú var tíðin að maður var fremst á BP tónleikum með hendur upp í loft og hoppaði bara eins og brjálæðingur og slammaði með öllum hinum vitleysingunum, það voru the good old times. Þegar myndast pittur reyni ég bara að standa fyrir utan hann og hlusta en maður er aldrei með alla athyglina við mússíkina því maður fær alltaf annað slagið einhvern 100 kílóa gaur í fésið og þá fer maður frekar að fylgjast með pittinum því að ekki vill maður fá annan gaur í fésið. Ég missi eflaust ennþá fleiri rokkstig fyrir þetta sem bætast ofan á þau sem ég missti við vælið mitt um hávaða hérna áðan, en mér er drullusama. Ég skil alveg að það myndist pittir við ákveðna tónlist, en mér bara finnst það ekki passa við BP og hvað þá við Ensími en þar myndaðist einmitt líka pittur á tímabili þó að hljómsveitameðlimir sjálfir séu alltf ákaflega ánægðir með þetta.
Í seinustu lögunum var svo söngvarinn í Sólstöfum dreginn upp á svið sem ég skildi ekki alveg tilganginn með en heppnaðist alveg ágætlega held ég bara. Þeir voru þéttir út í gegn eins og þeir eru vanir að vera og enduði svo á Taste the flower sem var frábær endir og frábærri hátíð og ég segi bara takk fyrir mig til skipuleggjenda hátíðarinnar.
Ég biðst afsökunar á löngu bloggi með ef til vill leiðinlegum útúrdúrum og reyni að hafa þetta styttra næst. Svo biðst ég líka afsökunar ef mikið var um stafsetningavillur, ég er ekki lesblind, n og nn reglan var bara eitthvað sem síaðist ekki inn í hausinn á mér, og einstaka i/y regla :)
Lifið heil
Tónlist | 21.5.2012 | 15:55 (breytt kl. 15:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)