Eistnaflug dagur 4

Síðast dagur hátíðarinnar hófst á uppistandi í Egilsbúð með Andra Ívars. Mér finnst þetta frábær pæling hjá Eistnaflugmönnum að bjóða upp á þetta. Setur skemmtilegan svip á hátíðina. Það er líka mjög gott svona á fjórða degi þegar gestir eru kannski dálítið sjúskaðir og útkeyrðir að byrja daginn á hláturdetoxi. Andri er ágætis kunningi minn en aldrei hefur mér tekist að sjá uppistand með honum, ég þurfti að keyra landið þvert til að sjá hann. Hann er skelfileg fyndinn, gerir óspart grín að sjálfum sér og sínum kvennamálum og tókst að láta mig grenja úr hlátri oftar en einu sinni.

Eftir hrikalega fína pizzu á Pizzafirði sáum við Mammút í Egilsbúð. Ég myndi ekki endilega kaupa mér plötu með Mammút, en mér finnst nokkur lög með þeim mjög flott en síðan finnst mér lítið í hin spunnið. Ég hef séð þau ansi oft og þetta voru hreinlega með leiðinlegri tónleikum sem ég hef farið á með þeim. Ekki það að þau hafi verið léleg, mér fannst bara lagavalið skrítið. Ég kannaðist ekki við neitt af lögunum og þau tóku ekkert af vinsælustu lögunum. Aðeins of artí fyrir minn smekk.

Ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja að skrifa um Opeth. Fyrsta lagið sem ég heyrði með þeim var lagið Face of Melinda. Ég man nákvæmlega hvar ég var þegar ég heyrði það fyrst. Félagi minn sendi mér það í gegnum msn held ég alveg örugglega og ég sat inn í stofu í gráu Fujitsu tölvunni sem ég fékk í fermingargjöf. Efir það var hreinlega ekki aftur snúið. Þó svo að einhver lögin þeirra séu aðeins of hörð fyrir minn smekk fýla ég megnið af dótinu þeirra. Ég tók ástfóstri við lagið Face of Melinda og skrifaði meðal annars ritgerð um lagið til að komast í BA nám. Það er auðveldlega eitt af topp 10 lögum allra tíma hjá mér. Ég vonaði þess vegna heitt og innilega að þeir tækju það á tónleikunum. Ég byrjaði að tárast um leið og þeir komu fram á sviðið, ég trúði hreinlega ekki að þetta væri að gerast, held líka að ég hafi ekki áttað mig á því hvað ég væri raunverulega mikill aðdáandi.

Þar sem ég er skelfileg að muna nöfn á lögum þá var mér bent á þessa síðu sem er algjör snilld, ég hefði þurft að vita af henni fyrr. Þarna getur maður fundið set lista eftir tónleika, þetta er víst eitthvað eldgamalt, en splunkunýtt fyrir mér, setlist.fm

Þetta eru lögin sem þeir tóku ef einhver er að velta því fyrir sér.

  1. Cusp of Eternity
  2. The Devil‘s Orchard
  3. The Grand Conjuration
  4. To Rid the Disease
  5. Demon of the Fal
  6. The Drapery Falls
  7. Deliverance

Mér tókst að vera tiltölulega venjuleg í fyrstu tveimur lögunum. Þegar intróið í lagi 3 byrjaði þá byrjar gamla bara að grenja, og það var ekkert lítið. Þetta voru ekki bara nokkur tár, heldur var þetta bara alvöru ugly cry. Sem betur fer tóku þeir ekki Face of Melinda, þá hefði ég legið á gólfinu í fósturstellingunni með ekkasog. Þessir tónleikar voru allavega með þeim betri sem ég hef séð, þvílíkur söngvari og hljóðfæraleikarar. Ég veit ekkert hvernig sándið var, ég var bara í einhverjum trans og var ekkert að pæla í því. Hógværðin lak af þeim og þeir virtust skemmta sér mjög vel. Töluðu um að koma aftur sem fyrst, sem verður því miður ekki alveg strax. Ég er búin að kíkja á næsta túr hjá þeim og Ísland er ekki þar inni, en það kemur túr eftir þennan (pun intended).

Eftir Opeth kíkti ég niður í Egilsbúð til að sjá Ophidian I. Ég sá þá á Gauknum fyrir einhverju síðan og fannst þeir alveg magnaðir þá. Mér fannst þeir ekki jafn skemmtilegir núna og fór eftir nokkur lög. Það gæti alveg hafa spilað inn í að ég var nýbúin að sjá Opeth..

Páll Óskar kláraði síðan kvöldið. Ég man þegar ég sá fyrst að Páll Óskar væri að spila á Eistnaflugi þá fannst mér það frekar skrítið. En jiminn góður, þetta var bilað. Það er eitthvað frekar súrrealískt að sjá síðahærða svartmálaða rokkara dansandi við Pál Óskar. Það sýnir bara stemninguna á þessari mögnuðu hátíð. Og ef Opeth voru hógværir þá veit ég hreinlega ekki hvað Páll Óskar var. Hann trúði ekki að þetta væri að gerast og að hann hafi fyllt íþróttahús af dauðarokkurum. Retro Stefson tóku við af honum og voru skemmtileg eins og alltaf. Síðan endaði partýið með dj setti sem var mikill 90‘s fýlingur í. Ferlega skemmtilegt.

Þið sem hafið ekki farið á Eistnaflug viljið þið vinsamlegast drulla ykkur, þetta er svo skemmtileg! Takk fyrir mig enn og aftur, og milljón þakkir til Bergþóru og Gunnars. Betri gestgjafa er ekki hægt að finna. One love í fallega fjörðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband