Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Börn Loka

 

Ég er ekki fyrst með fréttirnar frekar en fyrri daginn. Ég þarf bara minn tíma til að hlusta á mússík og þessi plata kom út í fyrra. Hvað um það þá hef ég séð þá tvisvar á sviði að mig minnir og finnst þeir alveg stórgóðir. Mikill kraftur í þeim og það myndast alltaf fáránleg stemning á tónleikum með þeim. Ég hlakka mjög mikið til að heyra í þeim í vetur með Sinfó í Hörpu, það verður eitthvað. En þetta er það sem mér fannst um plötuna. 

 

 

1. Óðinn


Mikil dramatík með flottum kór. Óbó alveg æðislegt. Af einhverjum ástæðum finnst mér þetta lag hljóma eins og lokalag frekar en upphafslag, hef reyndar engin rök fyrir því. Finnst það bara.


2. Sleipnir


Rúllar beint inn í rokk og ról út frá óbóinu sem lokaði byrjunarlaginu. Takturinn í laginu er aveg frábær. Maður sér Sleipni fyrir sér og mig langar alltaf að fara á bak þegar ég heyri þetta lag, og ekki er ég nú mikil hestakona. Síðan dettur lagið niður í hægari og þyngri takt og við fáum að heyra fínasta gítarsóló með töff sándi.  En halló halló hvað er þetta. Allt í einu heyrir maður hest hneggja sem mér finnst ofsalega pirrandi. Maður er löngu búin að sjá hestinn fyrir sér áður en þetta hnegg kemur, algjörlega óþarft og að gerir þetta lag að mínu mati að einhverju svona leikskóla þungarokki. ,,Svona segir hesturinn, íhíííhííhíi.‘‘ Að mínu mati mætti vera hærra í hljómborðinu í þessu lagi, það er alltof aftarlega í mixinu. Það sem mér finnst mest aðdáunarvert við þetta lag er það hvernig þeir muna textann í millikaflanum: ríða, rokka, róta, reiða, líða, lokka, ljóta leiða, bíða, brokka, blóta breiða, skríða, skokka, skjóta skeiða - skeiða, skjóta, skokka, skríða, breiða blóta, brokka, bíða, leiða ljóta, lokka, líða, reiða, róta rokka, ríða. Flott gítarlína í lokinn. 


Gleipnir


Þetta lag er ágætt, aðeins of grípandi fyrir minn smekk. Og þarna erum við aftur komin í leikskóla fýling. Þar sem við fáum að heyra í fjötrunum..hljómar eins og einhver járnkeðja. Það besta í laginu finnst mér þegar gítarsólóið fær að halda sér inn í viðlagið.


Fenrisúlfur


Byrjunin á þessu lagi þykir mér sú flottasta á plötunni. Mjög töff líka að fenrisúlfur fái aðra rödd til að aðskilja karekterana. Röddin er líka vel unnin svo hún hljómar mjög grimmilega. Ég veit fátt fallegra en flotta karlakóra og þess vegna þykir mér kaflinn þegar hann kemur inn í frábær og sérstaklega með bassatrommuna undir: taggataggataggatagga! Síðan verða algjör kaflaskipti í laginu, og takturinn verður hraðari með einhverjum gítar sem er bara brjálaður um allar trissur. 


Himinhrjóður


Þetta lag brýtur upp plötuna en mér finnst þetta eiginlega óþarft. Þetta er orðið aðeins of mikið leikhús þarna. Þarna er í raun verið að drepa naut og við heyrum í því og þegar nautið er stungið aftur og aftur. 


Miðgarðsormur


Skemmtileg byrjun þar sem gítarar eru panaðir í drasl. Ótrúlega skemmtilegur taktur og flottur söngur. Mikið rokk og ról og allt í einu kemur smá Metallica fýlingur, ekkert að því sossum. 


Narfi


Ofsalega falleg melódía og grípandi í intróinu, spurningin er kannski hvort hún sé of grípandi? Verður kannski smá poppuð fyrir vikið, æjji veit ekki. Fínasta gítarsóló þarna í miðjunni. En það sem mér finnst flottast er þegar trommurnar eru feidaðar inn í annan millikafla, alveg stórkostlegt. Einkennilegt hvað litlu hlutirnir geta heillað mann. 


Hel


Jæja þá er það lagið Hel sem ég á bara mjög erfitt með að hlusta á, er alltaf við það að fara að grenja. Fjandin hafi það ég veit ekki hvað það er við þetta lag, það er bara svo sjúklega áhrifaríkt að það nær engum áttum. Ég hef nú bloggað um það áður þegar ég heyrði þetta lag í fyrsta skipti í drasl heyrnatólunum mínum í útvarpinu á drasl símanum mínum þegar ég var úti að labba með hundinn. Byrjaði bara að grenja út á götu, eða þið vitið ekki grenja grenja, en það láku allavega nokkur tár, en hvað um það. Þegar maður hlustar á þetta lag í góðum heyrnatólum heyrist eitthvað einkennilegt rattl (skruðningar?, ég er svo ofboðslega útlensk, veit ekki hvað það er á íslensku) sem ég er mjög forvitin að vita hvað er. Hljómborðið setur tóninn fyrir þetta lag og maður fær íshallar tilfinningu, þetta er allavega mjög kalt lag, sem ég býst við að hafi verið planið. Tónlistinn verður frábær þegar hann segir ,,minnist litlu systur minnar,‘‘ gæsahúðar móment. Svo dettur lagið niður með frábæru óbói og inn í lagið kemur Hel. Ég er að hlusta á þetta lag í þessum skrifuðu orðum og um leið og hún byrjar að kalla á Hilmar fæ ég rosalega gæsahúð og tár í augun. Þetta er algjört nammi, tilfinningin í röddinni er rosaleg. 


Váli


Eftir rosalegan endakafla í Hel byrjar þetta lag á aðeins rólegri nótum, en alls ekki of rólegum. Ég fæ alltaf einhvern smá Tool fýling, sem er sossum ekkert slæmt, en hann fer fljótt. Eftir að hafa lesið textann fæ ég alltaf gæsahúð við þetta lag. Af hverju þarf þessi plata að vera svona sorgleg, af hverju getur þessi plata ekki verið um fiðrildi, regnboga og súkkulaði? Það yrði mjög flott plata. Maður lifir sig svo inn í þetta lag, sérstaklega ef maður á litla systur eins og ég. Mér þætti frekar pirrandi að horfa upp á litlu systur mína rifna á hol svo innyflin héngu út og geta ekki gert neitt til að stoppa það. Línan ,,Bróður sinn grátandi síðastan sér, systir mín litla hvað gerði ég þér,?‘‘ kallar alltaf fram tár….spurning um að tala við einhvern sérfræðing varðandi þessi tár alltaf.. en það er önnur saga. 


Loki


Stórgóð byrjun á þessu lagi. En þetta lag er ofsalega mikið lag, alltaf mikið að gerast og brjálæði. Jaðrar við gítarrúnki á köflum. En síðan dettur það sem betur fer aðeins niður um mitt lag í aðeins rólegri kafla, og aftur koma trommur inn sem eru feidaðar inn, omnomnom. Hver þarf súkkulaði ef maður fær svona fínt trommufeid. Þetta lokalag er líka mikið leikhúslag því hér má heyra í þrumum og eldingum. Lagið endar á flottum kór.   


   

Þannig að:

 

Sagan á bak við plötuna er stórkostleg og textarnir frábærir svo maður veit að mikið hefur verið lagt í þá. Alltaf þegar ég hlusta á plötuna ímynda ég mér hvernig væri að sjá þetta í leikhúsi, því sagan gæti komið mjög vel út. Þess vegna fannst mér frekar fyndið þegar ég sá í Borgarleikhúsblaðinu (eða var það Þjóðleikhúsið?) að þeir væri að setja síðustu plötuna á svið. Ég vona að þeir geri slíkti hið sama með þessa plötu. 

 

Það er lítið hægt að setja út á plötuna fyrir utan þetta sem ég hef talað um áður varðandi helvítis hestinn. Hljómborðið mætti líka vera hærra í flestum lögunum. Gítarsoundið er flott og trommusoundið er einnig til fyrirmyndar. Mikið hefur verið lagt í artworkið á umslaginu sem er með því betra sem ég man eftir. Mjög vel gert.  

 

Verandi mikil kórunnandi og hafa leikið mér lengi við að breyta lögum í kórútsetningar fannst mér stundum að vantaði nokkrar raddir inn í þessa karlakóra sem oft á tíðum syngja bara eina rödd.

 

 Ég er á báðum áttum hvort ég eigi að gefa plötunni 3.5/5 eða 4/5 þannig að ég held ég detti bara í 3.75/5. 

  


Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband