Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016

Eistnaflug dagur 4

Síðast dagur hátíðarinnar hófst á uppistandi í Egilsbúð með Andra Ívars. Mér finnst þetta frábær pæling hjá Eistnaflugmönnum að bjóða upp á þetta. Setur skemmtilegan svip á hátíðina. Það er líka mjög gott svona á fjórða degi þegar gestir eru kannski dálítið sjúskaðir og útkeyrðir að byrja daginn á hláturdetoxi. Andri er ágætis kunningi minn en aldrei hefur mér tekist að sjá uppistand með honum, ég þurfti að keyra landið þvert til að sjá hann. Hann er skelfileg fyndinn, gerir óspart grín að sjálfum sér og sínum kvennamálum og tókst að láta mig grenja úr hlátri oftar en einu sinni.

Eftir hrikalega fína pizzu á Pizzafirði sáum við Mammút í Egilsbúð. Ég myndi ekki endilega kaupa mér plötu með Mammút, en mér finnst nokkur lög með þeim mjög flott en síðan finnst mér lítið í hin spunnið. Ég hef séð þau ansi oft og þetta voru hreinlega með leiðinlegri tónleikum sem ég hef farið á með þeim. Ekki það að þau hafi verið léleg, mér fannst bara lagavalið skrítið. Ég kannaðist ekki við neitt af lögunum og þau tóku ekkert af vinsælustu lögunum. Aðeins of artí fyrir minn smekk.

Ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja að skrifa um Opeth. Fyrsta lagið sem ég heyrði með þeim var lagið Face of Melinda. Ég man nákvæmlega hvar ég var þegar ég heyrði það fyrst. Félagi minn sendi mér það í gegnum msn held ég alveg örugglega og ég sat inn í stofu í gráu Fujitsu tölvunni sem ég fékk í fermingargjöf. Efir það var hreinlega ekki aftur snúið. Þó svo að einhver lögin þeirra séu aðeins of hörð fyrir minn smekk fýla ég megnið af dótinu þeirra. Ég tók ástfóstri við lagið Face of Melinda og skrifaði meðal annars ritgerð um lagið til að komast í BA nám. Það er auðveldlega eitt af topp 10 lögum allra tíma hjá mér. Ég vonaði þess vegna heitt og innilega að þeir tækju það á tónleikunum. Ég byrjaði að tárast um leið og þeir komu fram á sviðið, ég trúði hreinlega ekki að þetta væri að gerast, held líka að ég hafi ekki áttað mig á því hvað ég væri raunverulega mikill aðdáandi.

Þar sem ég er skelfileg að muna nöfn á lögum þá var mér bent á þessa síðu sem er algjör snilld, ég hefði þurft að vita af henni fyrr. Þarna getur maður fundið set lista eftir tónleika, þetta er víst eitthvað eldgamalt, en splunkunýtt fyrir mér, setlist.fm

Þetta eru lögin sem þeir tóku ef einhver er að velta því fyrir sér.

  1. Cusp of Eternity
  2. The Devil‘s Orchard
  3. The Grand Conjuration
  4. To Rid the Disease
  5. Demon of the Fal
  6. The Drapery Falls
  7. Deliverance

Mér tókst að vera tiltölulega venjuleg í fyrstu tveimur lögunum. Þegar intróið í lagi 3 byrjaði þá byrjar gamla bara að grenja, og það var ekkert lítið. Þetta voru ekki bara nokkur tár, heldur var þetta bara alvöru ugly cry. Sem betur fer tóku þeir ekki Face of Melinda, þá hefði ég legið á gólfinu í fósturstellingunni með ekkasog. Þessir tónleikar voru allavega með þeim betri sem ég hef séð, þvílíkur söngvari og hljóðfæraleikarar. Ég veit ekkert hvernig sándið var, ég var bara í einhverjum trans og var ekkert að pæla í því. Hógværðin lak af þeim og þeir virtust skemmta sér mjög vel. Töluðu um að koma aftur sem fyrst, sem verður því miður ekki alveg strax. Ég er búin að kíkja á næsta túr hjá þeim og Ísland er ekki þar inni, en það kemur túr eftir þennan (pun intended).

Eftir Opeth kíkti ég niður í Egilsbúð til að sjá Ophidian I. Ég sá þá á Gauknum fyrir einhverju síðan og fannst þeir alveg magnaðir þá. Mér fannst þeir ekki jafn skemmtilegir núna og fór eftir nokkur lög. Það gæti alveg hafa spilað inn í að ég var nýbúin að sjá Opeth..

Páll Óskar kláraði síðan kvöldið. Ég man þegar ég sá fyrst að Páll Óskar væri að spila á Eistnaflugi þá fannst mér það frekar skrítið. En jiminn góður, þetta var bilað. Það er eitthvað frekar súrrealískt að sjá síðahærða svartmálaða rokkara dansandi við Pál Óskar. Það sýnir bara stemninguna á þessari mögnuðu hátíð. Og ef Opeth voru hógværir þá veit ég hreinlega ekki hvað Páll Óskar var. Hann trúði ekki að þetta væri að gerast og að hann hafi fyllt íþróttahús af dauðarokkurum. Retro Stefson tóku við af honum og voru skemmtileg eins og alltaf. Síðan endaði partýið með dj setti sem var mikill 90‘s fýlingur í. Ferlega skemmtilegt.

Þið sem hafið ekki farið á Eistnaflug viljið þið vinsamlegast drulla ykkur, þetta er svo skemmtileg! Takk fyrir mig enn og aftur, og milljón þakkir til Bergþóru og Gunnars. Betri gestgjafa er ekki hægt að finna. One love í fallega fjörðinn.


Eistnaflug dagur 3

Ég verð nú að klára að blogga um Eistnaflug. Það hefur aðeins dregist sökum veikinda en hérna kemur dagur 3.

Föstudagskvöldið hófst á Kontinuum. Flottir tónleikar og gjörsamlega epískt trommusánd, ég fæ gæsahúð við tilhugsunina eina. Ég get nú ekki sagt að ég fýli öll lögin þeirra, en ég vil meina að lagið Í huldusal sé gjörsamlega (mig langar að segja aftur epískt, en ætla að sleppa því) magnað. Í instrumental partinum fékk ég svo mikla gæsahúð að ég þurfti að standa grafkyrr til að hindra tárin í að leka niður.

Næstir voru drengirnir í Dimmu. Það er alltaf mjög skemmtilegt að sjá þá á sviði. Þetta stefndi í að vera bestu tónleikar sem ég hef séð með þeim eftir fyrsta lag, ég hugsaði með mér að ég hefði aldrei séð þá jafn flotta. Í lagi númer tvö klikkaði eitthvað í gítarnum, skipt var um snúru og síðan magnara og ekkert virkaði. Mér skilst að gítarinn hafi að lokum verið tekinn beint í magnara án effecta. Þannig að þeir tóku ansi langan tíma að komast í gang. Þessi pása fannst mér dálítið drepa stemninguna á sviðinu og það tók þá nokkur lög að komast aftur í fýling (eða kannski tók það nokkur lög að koma mér sjálfri í fýling). Þeir voru með annan bassaleikara en venjulega og ekki gat ég heyrt að það hefði áhrif á spilamennskuna, alveg jafn góðir og venjulega.

Amorphis er finnsk hetjumetal sveit sem við sáum næst. Ég skemmti mér konunglega á tónleikunum, skemmtileg sviðsframkoma og ágætis mússík alveg hreint. Lítið meira um það að segja.

Sólstafir kláruðu kvöldið og kláruðu á sama tíma sénsana sem ég hef gefið þeim í gegnum tíðina. Ég hef séð þá ansi oft en aldrei náð að klára heila tónleika. Ástæðan fyrir því að ég gef þeim alltaf fleiri sénsa er sú að mig langar svo að skilja þessa tónlist. Einhver hlýtur ástæðan að vera fyrir þessum gríðarlegu vinsældum og ég bara þoli ekki að skilja ekki hlutina. En til að gera langa sögu stutta entist ég í hálft lag og ákveð hér með að fara ekki á fleiri Sólstafa tónleika. Einhver spurði mig hvort að ég fýlaði Sigur Rós. Þegar ég sagði nei við því sagði hann að þá myndi ég ekki fýla Sólstafi. Ágætis pæling. En mikið væri lífið nú leiðinlegt ef við hlustuðum öll á sömu tónlistina.


Eistnaflug dagur 2

Dagur tvö byrjaði á hljómsveitinni Brot sem spiluðu í Egilsbúð. Áhugavert band og ágætlega þétt en að mínu mati var söngvarinn ekki alveg með á nótunum. Mér fannst röddin hans reyndar skemmtilega lík rödd Björns Jörundar á köflum, gaman að því. Einnig fannst mér hljóðið hafa mátt vera ögn lægra, en það er ef til vill bara aldurinn…

Eftir það sáum við hljómsveitina Nykur. Þetta er mússík að mínu skapi þó svo að sum lögin séu dálítið keimlík. Í fyrstu fjórum lögunum var reyndar leiðinleg tíðni sem hékk yfir öllu, væntanlega eitthvað úr snerlinum, sem gerði upplifunina ekki alveg jafn góða. En sem betur fer eru ekki allir jafn smámunasamir og ég. Ég væri allavega til að fara aftur á tónleika með þessari hlómsveit.

Gleðisveitin Kolrassa krókríðandi voru næst á svið. Rosalega gaman að þeim, mikið stuð og taumlaus spilagleði. Ég er bara ekki alveg nógu pönkuð til að geta tjáð  mig eitthvað að viti um tónleikana. 

Ísraelsku rokkararnir í Melechesh tóku við af þeim og þar kvað við örlítið annar tónn, þó bara örlítið. Á feisbúkk síðu þeirra segjast þeir hafa fundið upp "mesapotamian metal." Ágætis sviðsframkoma, en ég hefði alveg sofið jafn vel þó að þeir hefðu sleppt því að finna upp á þessari tónlistartegund.

Kvöldið okkar endaði á Ensími sem maður hefur séð 20 sinnum áður. En það er ástæða fyrir því að maður fer aftur og aftur á tónleika. Þeir eru bara með þeim bestu á landinu. Það sem ég kann líka að meta við Ensími er lagavalið þeirra. Sama hversu oft maður sér þá, þá getur maður alltaf gert ráð fyrir að heyra gömlu góðu uppáhalds lögin sín.


Eistnaflug dagur 1

Nú er ég stödd á mínu fjórða Eistnaflugi. Ég fór þrjú ár í röð, en fór svo í fýlu í fyrra því ég bjóst ekki við að flutningur úr Egilsbúð í íþróttahúsið myndi takast vel. Um leið og Eistnaflugsliðar tikynntu að Opeth kæmu í ár kyngdi ég fýlunni og keypti miða, enda hefur Opeth verið ein af mínum uppáhalds í um áratug. 

 

Mikið var ég ánægð að hafa drullað mér, því íþróttahúsið lítur svo vel út og sándar mjög vel. Maður er reyndar með smá samviskubit að drekka bjór þar sem maður er vanur að vera heilsusamlegur og spila blak, en það hlýtur að lagast.

 

Í gærkvöldi byrjuðum við á því að sjá nokkur lög með Muck en vorum aðalega að setja okkur í stellingar til þess að sjá Magna, enda við mjög harðar gellur. Muck er ekki alveg mín tónlist og bara ekkert meira um það að segja, við fýlum bara ekki öll það sama.

 

Ef ég væri forseti myndi Magni fá fálkaorðuna og Guðni Finns helst líka, jafnvel hljóðmaðurinn. Ég er enn sár yfir því að Magni hafi ekki komist í Eurovision hérna um árið því hann er bara hreinlega einn af bestu söngvurum landsins. Þeir tóku cover gigg og voru lögin mér að skapi. Þeir tóku lög með Stone temple pilots, Nirvana, Bowie, Live, Metallica, Radiohead, Pearl Jam og fleirum. Þetta band er alveg skelfilega þétt, enda valinn maður í hverju horni og jidúdda hvað bassinn sándaði vel, fæ án djóks smá tár í augun bara að hugsa um það (ég er mjög emotional þegar kemur að góðu bassasándi). Helst hefði ég viljað allavega þriggja tíma tónleika. Öll lögin voru svo gott sem alveg fullkomlega spiluð en að öðrum ólöstuðum þá átti For whom the bell tolls þetta kvöld, gæsahúð dauðans. Dolphins cry með Live er mikið guilty pleasure hjá mér og hefði ég viljað fá bandið með í því, ekki bara Magna þó að hann sé frábær…það er það eina sem ég hef út á þetta frábæra gigg að setja.

 

Eftir Magna spiluðu Marduk sem er sænsk black metal sveit. Þar sem ég skil ekki black metal staldraði ég stutt við á þeim tónleikum. Eftir þeim spiluðu Agent Fresco, sem eru búnir að vera í uppáhaldi í kringum áratug…nei getur það verið? Vá! Ég tók nú strax eftir því að það var ekki allt með feldu hjá söngvaranum, enda tilkynnti hann áhorfendum það eftir tvö lög að hann væri með lungnabólgu, en tók jafnframt fram að maður sleppti því ekkert að spila á Eistnaflugi þrátt fyrir smá veikindi. Þumlar upp til ykkar! Þeir vou alveg geggjaðir eins og venjulega. Ég verð að hrósa Jóa hljóðmanni líka fyrir gott sánd og þarf að fá uppskriftina af sneril sándinu í þriðja laginu sem mig minnir að hafi verið Wait for me. Ég brosti bara hringinn, algjört nammi.

 

Ég fór nú að hlægja þegar ég sá að Úlfur Úlfur væru að spila á hátíðinni, enda ein af þeim sem skilur ekki hippedí hopp (ég virðist hafa lítinn skilning á ansi mörgum tónlistarstefnum). Ég varð nú samt að sjá nokkur lög. Byrjaði standandi út í horni með krosslagðar hendur (klassísk varnarstaða), en fikraði mig svo alltaf nær og nær. Þetta kom skemmtilega á óvart. Það sem var náttúrulega alveg magnað við þetta var að Agent Fresco bandið varð eftir á sviðinu og spilaði með þeim. Ég er ekki viss um að ég hefði nennt að hluta á mörg lög á þeirra.

 

Annars er ég bara hrikalega sátt með fyrsta kvöld fjórðu Eistnaflugshatíðarinnar. Mikið verður þetta gaman! Rokk og ról


Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband