Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Eistnaflug!!!

 Jahh maður veit hreinlega ekki hvar skal byrja. Andskotinn! Þetta var hrikalega flott festival og ekki er ég mikið í dauðarokkinu eða black/trash/brutal (og hvað þessi metall heitir nú allur). Ég fer helst ekki mikið harðar en Pantera, Opeth, Slipknot... 

 En hér kemur smá Eistnaflugs færsla.

 Dagur 1

Þar sem við vorum komnar frekar seint í bæinn misstum við af helling af hljómsveitum og var fyrsta sveitin sem við sáum Wistaria. En því miður náðum við bara síðasta laginu sem ég sé mikið eftir. Hefði viljað sjá meira af þeim. En það býður betri tíma.

 Næsta band sem við sáum var hljómsveitin Momentum, en reyndar sáum við bara einhvern part af þeim. Mér fannst nú ekkert varið við tónlistina sem slíka en skrifaði niður á minnisblað hjá mér "flottur trommari" og "skemmtilegt reverb á vocal". Ekki mikið meira um það að segja.

Innvortis stigu á svið eftir Momentum. Æjji sorry er ekki mikill pönkari í mér fyrir utan að hafa hlustað mikið á the Clash hérna í denn. En mér semsagt fannst þetta ekkert voða skemmtilegt. Þeir náðu áhorfendum samt með sér og voru skemmtilegir á sviði. Dálítið kaldur húmor þegar farið var að ræða um Litháena í höfninni. ... :/

Sólstafir lokuðu kvöldinu. Ég var ennþá í fýlu út í þá þar sem ég hafði hlakkað mikið til að sjá þá á Wacken undankeppninn (minnir mig að það hafi verið frekar en eitthvað annað fyrr í vor) þar sem þeir áttu að loka kvöldinu. Þér létu hins vegar  bíða eftir sér í rúmar 40 mínútur og ég býð ekki svona lengi eftir neinum. Nei takk. Ég semsagt hafði aldrei séð þá og ekki heyrt neitt nema Fjöru í útvarpinu og hreinlega hef aldrei fýlað það lag, ef til vill því það var ofspilað í tætlur á sínum tíma. Plús þá pirrar það mig sjúklega í laginu þegar hann talar um að hjartað pumpi tárum. Róum okkur á dramanu...get ekki svona. En hvort sem hjartað pumpi tárum eða dæli blóði eins og hjá flestum þá voru þeir það band sem stendur upp úr að mínu mati hvað flutning og gæði tónlistarinnar varðar. Þeir voru alveg hreint magnaðir. Ég fékk allavega gæsahúð og tár í augun þegar þeir byrjuðu. Er búin að vera að kynna mér þetta band aðeins betur og ef einhver hefur ekki kynnt sér þetta band, mæli ég með því að sú/sá hin/hinn sama/sami geri það tafarlaust. Besta lag: Ljós í stormi (dauði og djöfull hvað það er gott lag!)

 

Dagur 2

Eitthvað vorum við að missa okkur í sólinni og vorum ekki komnar niður í Egilsbúð fyrr en um 18:30 til að sjá Vicky. Þau voru betri en síðast þegar ég sá þau sem var á HÍ festivali sem ég man ekki hvað heitir. Mikill fýlingur í sumum þeirra en minni í öðrum. Frábær söngkona, það fer ekki á milli mála. 

 Þar á eftir sáum við eina af meisturum hátíðarinnar sem voru pollarnir í the Vintage Caravan. Ofsalega vel spilandi drengir miðað við aldur (heyrði að þeir væru 18) og þó svo að þeir væru þrítugir. Finnst þó gítarleikarinn standa uppúr (eða kannski var þetta bara þetta yndislega old school gítarsánd). Spilagleðin sást langar leiðir og það skiptir miklu máli að mínu mati að maður sjái að spilarar séu að njóta þess sem þeir eru að gera. Þeir voru víst líka með nýjann bassaleikara sem sást ekki því þeir voru bara frábærir. Síðan gerðu þeir eitt sem mér finnst næstum eins gaman og að heyra "raddað" gítarsóló (veit ekkert hvað þetta heitir). En ég myndi kalla þetta einhversskonar battl, þegar gítarleikarinn spilar eitthvað og svo hermir bassaleikarinn eftir, alltaf jafn gaman að því. Tékkið á þessu bandi!

Skálmöld var hljómsveitin sem við sáum næst og var sú hljómsveit sem átti þennan dag að mínu mati. Ég er ekki viss hvort það hafi endilega verið gæði tónlistarinnar eða stemningin sem myndaðist í salnum. Ég allavega fékk gæsahúð þegar þeir stigu á svið. Ég var líka að sjá þá í fyrsta skiptið þarna og það gerðist eitthvað innra með mér (allavega tímabundið). Þetta var svo þjóðlegt og flott og eftir tónleikana labbaði ég út og hef einhvernveginn aldrei verið jafn stolt af því að vera Íslendingur komin af víkingum... eins fáránlega og það hljómar. En þetta voru allavega fyrstu áhrifin. Besta lagið: Kvaðning

Severed Crotch spiluðu þar á eftir og fannst mér ekki mikið til þeirra koma. Eflaust voðalega gott band. Bara ekki minn smekkur. 

Dagurinn hafði verið uppfullur af eftirvæntingu fyrir Dr. Spock. Ég hreinlega varð fyrir smá vonbrigðum. Eða nei ég varð bara fyrir miklum vonbrigðum. Þeir voru bara lélegir. Auðvitað tóku þeir Fálkann og rústuðu honum eins og alltaf og síðan tóku þeir ábreiðu af Viktori hennar Líonsí sem var líka skemmtilegt. Fyrir utan það var ekki mikið gott. Við löbbuðum út snemma.

 

Dagur 3

Ég vil kenna sundlaug Neskaupstaðar um að við misstum af meirihlutanum af Dimmu. Það bara var svo næs að liggja í henni í sólinni. En ein mestu vonbrigði hátíðarinnar er að hafa ekki séð þá frá upphafi til enda. Við náðum bara síðustu tveimur lögunum eða svo. Frábært band, góð mússík og glæsilegur söngvari.

 Eftir Dimmu spiluðu svo Atrum sem ég hef séð nokkrum sinnum áður. Ekki beint mín mússík en ég hef samt heyrt þá betri. Eftir voðalega vont gítarsóló löbbuðum við út. Lífið er of stutt fyrir vond gítarsóló.

Botnleðja áttu þetta kvöld og voru alveg frábærir. Ég hef reyndar aldrei verið mikill aðdáandi en þeir voru alveg magnaðir og náðu upp magnaðri stemningu. Best þótti mér þó þegar trommarinn sagðist vilja fá að sjá berar túttur. Hann fékk það en eftir lagið sagði hann svo: ,,Ég var bara að djóka sko" :)

FAIL hátíðarinnar var næsta band sem var cover bandið Börner. Þetta var það alversta cover band sem ég hef séð. Við reyndar sáum ekki alla tónleikana og ég er eiginlega bara þakklát fyrir það. Við sáum 3 síðustu lögin. Það fyrsta sem við sáum var for whom the bell tolls. Ég fæ eiginlega bara hroll við tilhugsunina, þetta var vandræðalegt. Seek and destroy var þó aðeins betra en aðalega vegna þess að söngvarinn lét mækinn í crowdið til að syngja ,,Seek and destroy" partinn sem var mjög fróðlegt og fékk maður að heyra það í hinum ýmsu útfærslum og flestar bara nokkuð góðar. Svo tóku þeir Breaking the law sem var ekki gott heldur en kannski ekki beint vont. 

 

Allt í allt var þetta alveg mögnuð hátíð. Ég veit að ég sagði oft að þessi tónlist sem við sáum og heyrðum hefði ekki verið mér að skapi en það þýðir ekki að ég hafi ekki skemmt mér konunglega. Þessi bönd voru eflaust flest mjög góð en ég ætla ekki að dæma eitthvað sem ég "skil" ekki.

Gallar:

- Ég furða mig á uppröðun hljómsveita á föstudeginum og laugardeginum. Föstudagurinn var Skálmöld - Severed Crotch - Dr. Spock. Hefði að mínu mati og maður sá það líka bara á stemningunni að það hefði mun frekar átt að vera Severed Crotch - Dr. Spock - Skálmöld. Laugardagurinn var Botnleðja - Börner. Í staðinn fyrir að mínu mati klárlega Börner - Botnleðja (eða bara sleppa þessu Börner. Þó að hugmyndin af svona rokk cover bandi hafi verið góð).

- Hávaði. Ég er alltaf með eyrnatappa. Og mæli með að fólk geri það alltaf (ef það vill þ.e.a.s. halda í heyrnina lengur en til fertugs).  Því miður týndi ég tímabundið öðrum eyrnatappanum mínum rétt fyrir Dimmu. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þetta var svo hátt. Og þrátt fyrir að hafa bara verið án eyrnatappa þarna í 3 lög, var ég með suð í eyrunum þegar ég fór að sofa um nóttina. Skamm. Hvað er þetta með rokktónleika! Maður nær ekkert að njóta tónlistarinnar ef hún er það há að manni finnst einhver vera að saxa á sér hljóðhimnurnar. 

 

Kostir

 Tjahh hvar á maður að byrja?

- Flottasta staðsetning í heiminum (ég er algjörlega hlutlaus verandi fædd og uppalin í Neskaupstað:))

- Frábær stemning

- Ekkert rugl og ekkert kjaftæði. Skipuleggjendur sem og hljómsveitarmeðlimir brýndu fyrir fólki að allir ættu að vera vinir og vera góð hvert við annað. Það gekk.

- Heimilisleg stemning. Ég fór inn á bað eitt kvöldið til að setja í mig augndropa vegna linsuvandræða. Þá kom ein upp að mér sem var einmitt í þessum hópi skipuleggjenda og spurði hvort ég þyrfti einhverja hjálp. Hún ætti sko stelpu sem notaði linsur og gerði þetta oft :)

- Ég tók aldrei eftir neinum sem virtist vera á einhverjum hörðum efnum. Það er alltaf jafn sorglegt að sjá ungt fólk (já eða bara fólk yfir höfuð) uppdópað, en tók ekki eftir því þarna. 

- Fjölbreytt fólk. Fyrir hátíðina var okkur sko sagt að það væri bara skrítið fólk þarna og að við myndum aldrei "fitta" þarna inn. Sú var nú heldur betur ekki raunin. Þarna var alls konar fólk á öllum aldri í alls konar fötum, mjótt - feitt, þurrt - sveit, skítugt - hreint.

- Veðrið! Eruð þið ekki að grínast hvað það var ljúft.

- Auk þess að kynnast svona mörgum nýjum islenskum hljómsveitum það uppgötvaði ég líka eina útlenska, sem var reyndar ekki að spila, en heitir Adrenaline Mob og ekki með minni mönnum en Mike Portnoy og söngvaranum úr Symphony X sem ég man ekki hvað heitir. 

- Á milli hljómsveita var spilað diskó. Það var alveg yndislega fyndið og súrrealískt að sjá dauðarokkara málaða í framan taka diskó múvin við Daddy cool svo eitthvað sé nefnt.

- Allt á áætlun. Það voru rúm 40 bönd að spila á hátíðinni og öll þeirra spiluðu á réttum tíma. Með svona stórt line-up er hætta á mikilli seinkun, en þarna var ekkert svoleiðis.

 

Þetta geri ég aftur að ári það er engin spurning :)

 

Takk fyrir mig Eistnaflug :)

 


Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband