Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Keflavík music mess


Ég veit nú bara hreinlega ekki hvar ég á að byrja. Ég veit ekki hvort ég ber meiri virðingu fyrir þeim böndum sem afboðuð komu sína eða þeim böndum sem komu á hátíðina og gáfu allt í flutninginn þrátt fyrir að aðeins nokkrar hræður hefðu mætt til að hlusta. Ætli ég skilji ekki báðar afstöður bara. 


Ef við byrjum á byrjuninni er Reykjaneshöllin allt of stór fyrir svona viðburði. Ég reyndar sá ekki stærstu böndin sem tróðu upp þar en það var ekkert annað en vandræðalegt að sjá Hjálma og Jón Jónsson troða upp fyrir nokkur hundruð manns í höll sem rúmar örugglega 10 þúsund manns. Þrátt fyrir fámenni stóðu bæði böndin sig mjög vel. Það var hellingur sem mig langaði að sjá um kvöldið. Til dæmis Samúel Jón Samúlesson Big Band, Jónas Sig og ritvélar framtíðarinnar og Kiriyama Family sem að mínu mati áttu eina bestu plötu síðasta árs. Ekkert af þessum böndum létu sjá sig. 


Dimma var einnig hljómsveit sem ég hlakkaði mikið til að sjá því einhvernveginn hefur mér einhvernveginn alltaf tekist að missa af tónleikum með þeim. Síðan vorum við að labba um bæinn og heyrðum æðislega mússík í fjarskanum. Ég hugsaði…Vintage Caravan? …nei, Brain Police?…nei, Skálmöld? .. nei það getur ekki verið, þeir spiluðu hér í gærkvöldi fyrir 10 manns. Þegar við komum að tjaldinu heyrðist betur að þetta var Dimma og eftir að við komum inn í tjaldið var ekki aftur snúið. Þessi fáránlegi kraftur, þungi, þéttleiki og öll orð sem til eru um gott þungarokksband. Og krafturinn upp á sviði var líka stórkostlegur, þrátt fyrir að vera að spila fyrir 30 manns (jebb ég taldi), gáfu þeir sig allir í flutninginn sem skilaði frábærri skemmtun og ég stóð þarna og gjörsamlega gat ekki hætt að brosa, reyndar var ég næstum farin að grenja í einu lagi því það var svo flott. Ég get ekki beðið eftir að sjá þessa hljómsveit aftur, algjört nammigott. 


Eftir Dimmu tóku Endless Dark við sem ég hlakkaði líka mikið til að sjá. Hef heyrt mikið um þá en aldrei séð þá live. Það eina sem ég get sagt um þá hljómsveit er að þetta eru flottir straákar, vel spilandi og mikill kraftur í þeim upp á sviði, en þetta er ekki endilega minn tebolli. Ég saknaði þungans frá Dimmu. 


Þá var förinni heitið upp í Kaffi Duus, þar sem ég var búin að hlakka mikið til að sjá Ophidian I. Ég er nýbúin að gera stuttmynd um dauðarokk á Íslandi og þeir hjálpuðu mér helling. Eftir að hafa hlustað á mikið af efninu þeirra af plötunni Solvet Saeclum var ég orðin mjög spennt að sjá hvort allur þessi hraði og tekníski hljóðfæraleikur myndi skila sér live. Þegar við vorum búin að labba í ca. 10 mín í roki og rigningu komum við að luktum dyrum. Þá kíktum við á FB síðunna þeirra þar sem við sáum að þeir hefðu hætt við. Ég þarf þá greinilega bara að bíða þangað til á Eistnaflugi til að sjá þá live. 


Á laugardeginum var eina bandið sem ég sá Fjallabræður. Ég hef einu sinni séð þá áður en það var í Háskólabíói einhvertímann um jól að mig minnir. Reykjaneshöllin var staðurinn og aftur var vandræðalega fátt í salnum. Ég taldi nú ekki en ég ætla að giska á 50 manns sem síðan kannski fjölgaði upp í max 200 þegar á leið. En guð minn almáttugur hvað þetta er flott band. Ef þið hafið ekki séð fjallabræður þá mæli ég með að þið drífið í því hið snarasta. Þeir reyndar tóku mjög rokkað prógram sem ég græt ekki yfir. Þessi kór er alveg stórkostlegur sem og Halldór kórstjóri (sem lét það ekki á sig fá að spila fyrir 50 manns í 10 þús manna höll) og Unnur var stórkostleg á fiðlunni. Ekki spillir fyrir að vera með tvo trommara sem er ekkert nema rokk og ról og síðan var þarna líka annar gítarleikari sem var voða mikið krútt. Ég fór tvisvar að grenja, eða sko tárin láku ekki en það munaði litlu. Þeir tóku nýtt lag sem var yndislegt þar sem ég fór eiginlega þrisvar að grenja í sama laginu, alltaf þegar viðlagið kom sem var eitthvað varðandi völustein held ég. Ég hef hér með ákveðið að ég fái extra rokk prik fyror hvert grenj sem ég tek og einnig þau bönd sem ég fer næstum að grenja yfir. Þannig fær Dimma 1 rokk prik og Fjallabræður 4. En ég stend upp sem sigurvegari með 5 rokk prik. 


Annars gæti ég nú drullað eitthvað yfir þessa hátíð, en ég hreinlega nenni því ekki. Ég fór þarna á nokkra frábæra tónleika og maður kvartar ekki yfir því. Takk fyrir mig.


btw. ef einhver vill kíkja á stuttmynd um dauðarokk er hún hér :)

 

 


Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband