Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Airwavesklúður

Þetta var mesta klúður kvöld lífs míns. 

 

Við vorum komnar í Hörpu um rétt að verða 9. Mig langaði að sjá Júníus Meyvant, var búin að heyra að tónleikrnir hans í Gamla bíó hefðu verið mjög flottir. Síðan var aðalatriðið auðvitað að sjá Hozier sem okkur langaði öllum mikið að sjá. Þegar við komum í Hörpu var engin röð þannig að við röltum bara beint upp. Eftir smá spjall fyrir framan salinn ákváðum við að fara á klósettið en af því að það var smá röð uppi ákváðum við að fara í kjallarann því þar eru aldrei raðir. Þegar við höfðum lokið okkur af í kjallaranum fórum við upp aftur en þá blasti við þessi gríðarlega röð sem náði næstum því út úr Hörpu. Við bjuggumst nú við að hún myndi ganga hratt þannig að við vorum bara ekkert að stressa okkur. Blessuð röðin gekk hins vegar bara ekki rassgat. Til að gera langa sögu stutta þá misstum við bara af öllu. 

 

Við vorum gríðarlega sára en þar sem ég er nýbúin að fara á tvo jákvæðninámskeið á stuttum tíma brosti ég bara í gegnum tárin. Ég átti ennþá eftir að sjá átrúnaðargoðin mín í Brain Police. Við röltum beint yfir á Gaukinn þar sem Grísalappalísa var að ljúka sér af. Tónlistin höfðar ekkert gríðarlega mikið til mín en þetta var ágætt. Síðan steig á svið band sem heitir Perfect Pussy sem var í raun alveg skelfilegt band, hef ekkert meira um það að segja. 

 

EIn í hópnum vill meina að næsta band sem steig á svið sé besta íslenska hljómsveitin síðan Trúbrot. Ég er ekki alveg viss um að ég vilji ganga svo langt og segja það en the Vintage caravan er gríðarlega öflugt band. Pjúra rokk og ról eins og það gerist best, ég hef séð þá nokkrum sinnum og þeir hafa alltaf verið í fantaformi. 

 

Brain Police lokuðu kvöldinu. Ég var í jákvæðniskasti, þökk sé Siggu Kling, og hef sjalda skemmt mér jafn vel á tónleikum með þeim. Þeir voru hins vegar langt frá sínu besta og ekki var hljóðið að bæta neitt. Ég sé hins vegar ekki sólina fyrir þessum drengjum og hef ekki gert síðan ég var 17 ára. Fyndið hvað maður getur verið ótrúlega krítískur á margt en samt leitt svona hjá sér og bara notið, kannski smá hræsni, en mér er sama. 

 

Band kvöldsins: Brain Police

 

Lag kvöldsins: Taste the flower (spurning hvort þetta sé ekki bara besta þungarokkslag íslandssögunnar, og kannski líka Coed Fever, og, og, og…)

 

Svekkelsi kvöldsins: Gettu!


Airwaves dagur 3

Airwaves dagur 3

 

Þeir sem sáu Dusty Miller fyrir aftan Bæjarins bestu í gærkvöldi hljóta að teljast aðdáendur númer 1. Í skítakulda og roki byrjuðum við kvöldið þar og eyðilögðum þar með hárgreiðslurnar, en það var allt þess virði því þetta band er náttúrulega stórkostleg, líka í litlum gám fyrir utan pylsusjoppu. Með ískalda fingur spiluðu þeir bæði nýtt efni og eldra fyrir viðstadda. Ég get ekki beðið eftir nýrri plötu frá þeim því nýja efnið er hrikalega gott. 

 

Eftir meistara Dusty fórum við á Fredriksen þar sem við sáum endann á Gretu Svabo Bech. Fredriksen hentar mun betur fyrir svona acoustic set. Hún er með voða fína rödd en ekkert sem greip mig neitt þannig. Hún tók í lokinn Drunk in Love með Beyoncé sem var ansi athyglisverður flutningur. Ein úr hópnum sá alla tónleikana og sagist hafa fengið gæsahúð nokkrum sinnum þannig að það er kannski þess virði að athuga málið betur.

 

Þaðan var förinni heitið á Listasafnið þar sem þýska rafgrúbban Ballet School spiluðu. Mér fannst fyrsta lagið sem þau tóku alveg gæsahúðar gott, en annars var þetta ekki minn tebolli. Þetta er svona 80's popp, ég hugsaði bara um Dirty dancing og Footloose, ætlið það sé ekki aðalega sneriltromman sem kemur með þetta 80's sánd. Það var líka mikil, The Cure fýlingur í þessu og ég hef aldrei verið aðdáandi.  Söngkonan var mjög góð og með gríðarlegt raddsvið og hitti í langflestum tilfellum á réttu tónana. Í sumum hæstu tónunum minnti hún mig á Röggu Gísla sem er nú ekki leiðum að líkjast.

 

Moses Hightower voru næstir á svið. Ég held því miður að ég hafi bara séð þá einu sinni áður sem er algjör skandall því þetta er yndislegt band. Vel spilandi, syngjandi, flottir textar og bara allt gott um þá að segja. Svo eru þeir líka bara svo sexý, alltso tónlistin. Ég var næstum farin að káfa á Möggu vinkonu en ákvað að setja hendurnar bara í vasana svo ég færi mér ekki að voða. Þeir eru algjört nammi.

 

Eftir sexítæm fórum við í Hörpu að sjá tónlistarkonuna Zhala frá Svíþjóð. Ein í hópnum var æst að sjá hana. Ég hef bara aldrei séð aðra eins sýru. Fyrst labbar kall og kona inn á sviðið, kallin næstum nakin en konan bara gjörsamlega allsber…ha!? Kallinn sest niður hjá einhverri plöntu á sviðinu og byrjar að dansa einhvern jógadans. Á meðan situr sú nakta á einhverju rúmi aftast á sviðinu að borða vínber eða hnetur eða eitthvað. Síðan kemur Zhala á sviðið og byrjar að syngja. Fólk virtist vera að fýla þetta en ég stóð bara frosin og vissi ekkert hvað ég ætti að gera, er greinilega ekki nógu þroskuð fyrir svona gjörning. Tónlistin var örugglega ágæt en maður tók ekki eftir henni því maður var bara að glápa á konuna með vínberin og að vona að kallinn færi líka úr fötunum. Ég kenni Moses Hightower um það. Við löbbuðum út eftir  3 lög. 

 

Við vissum ekkert hvað við áttum að gera af okkur þannig að við ákváðum að labba á Húrra til að sjá Skvab eins og ég kýs að kalla hann. Eftir að hafa staðið í röð í 15 mínútur ákváðum við að gefa skít í þetta og beint inn á Nonna í hlýjuna. Þar með var kvöldið búið.

 

 

Band kvöldsins: Dusty og Moses verða að vera jafnir, get ekki gert upp á milli þeirra.

 

Lag kvöldsins: Háa c með Moses og lagið með Dusty sem er með skrítnum takti og ég veit ekki hvað heitir.

 


Airwaves dagur 2

Við byrjuðum kvöldið í Hörpu til að sjá sænsku söngkonuna Alice Boman. Voða hugljúf og róleg tónlist, heldur of rólegt fyrir minn smekk og lítið að gerast. Hún er voða krútt og með fallega rödd en við þraukuðum bara inni í nokkur lög. 

 

Næsta sem við ætluðum að sjá var hljómsveitin Ylja, en á milli var eitt band sem við vissum ekkert um og sem betur fer ákváðum við að hlusta á það. Það var söngkonan Emilie Nicolas og ég hef bara aldrei vitað annað eins. Ég á erfitt með að tjá mig um þetta því þetta var svo rosalegt. Einir bestu tónleikar sem ég hef séð. Það var allt fullkomið, hljóðið, stemningin, tónlistin, ljósin…bara vávává. Ég held ég kunni ekki nógu flott orð til að koma þessu til skila.  En annars er þetta eitthvað svona elektrópop með smá soul og RnB fýling, pung og attitude. Í fyrra missti ég mig yfir Eivöru Páls og valdinu sem hún hefur á sinni rödd en Emilie Nicolas er enginn eftirbátur. Rosalegt raddsvið sem hún hefur og hvergi feilnóta. Ég fékk gæsahúð í mörgum lögum og í síðasta laginu sem var í rauninni bara eitt build upp þá komu tárin, ég elska það þegar tónlist nær að snerta mann þannig. Besta tilfinning í heimi.

 

Eftir þessa drottningu steig Ylja á svið. Frá því ég sá þær fyrst hef ég verið rosalega skotin í þeim, tvær stelpur með ofsalega fallegar raddir sem hljóma svo vel saman. Nú hefur hljómsveitin breyst mikið og ég hef ekki séð þær í þessari nýju útgáfu. Það er kominn trommari, hljóðborðsleikari, gítarleikari og bassaleikari með þeim og fyrir eru þær báðar á gítar. Ég var búin að hlakka mikið til að sjá þær. Mér þykir skelfilega erfitt og sárt að segja þetta en ég varð fyrir vonbrigðum. Þær tvær eru góðar saman og bandið er hörkuflott en mér finnst blandan ekki góð. Það sem mér hefur alltaf fundist flottast við Ylju eru raddirnar þeirra og þær eiginlega týndust í öllu, ég veit ekki hvort það hafi verið mixið eða að ég hafi staðið á vitlausum stað í salnum. Tónlistin hefur líka breyst úr því að vera pjúra folk í eitthvað sem ég veit ekki hvernig á að skilgreina. Besta við þessa tónleika var þegar þær fóru af sviðinu og bandið tók instrumental kafla. Þá fyrst kom smá bros á mína, það var virkilega flottur kafli. 

 

Þá var förinni heitið á Gaukinn þar sem Dimma var að spila. Mér finnst Dimma alltaf vera mjög solid band og hef aldrei heyrt þá lélega, pjúra þungarokk. Hef lítið um tónleikana að segja annað en að ég hefði verið til í að heyra fleiri gömul lög, þeir tók eiginlega bara nýtt efni. En svo enduðu þeir auðvitað á Þungu krossi, við hötum það ekki. 

 

Eftir Dimmu fórum við hinu megin við götuna að sjá hljómsveit sem heitir Himbrimi á Fredriksen. Það var eiginlega frekar erfitt fyrir eyrun. Staðurinn er ekki gerður fyrir trommusett held ég. Bara steypa og stórir gluggar þannig að hljóðið frá simbölun var alveg skelfilegt. Nú hef ég aldrei starfað sem hljóðmaður og hef bara lært grunninn í hljóðblöndun en það fyrsta sem ég hefði gert væri að draga fyrir gluggana. Það er skelfilegt endurkast frá svona stórum gluggum og ég er nokkuð viss að það hefði dempast smá við það að draga fyrir. Það gæti vel verið að ég sé að tala út um rassgatið á mér, ef svo er þá bara sorrí. Tónlistin greip mig ekkert rosalega nema kannski þriðja lagið sem þau tóku sem var með fáránlegum takti. En ég ætla klárlega að gefa þeim annan séns og sjá þau aftur, en ekki á þessum stað. 

 

 

Band kvöldsins: Emilie Nicolas

 

Lag kvöldsins: Þar sem ég veit ekki hvað síðasta lagið sem hún tók heitir ætla ég að velja lagið Fail með Emilie Nicolas

 

Airwaves dagur 1

 

Kvöldið byrjaði í Gamla bíó þar sem við ætluðum að sjá hljómsveitina Vök. Ég man hvar ég var þegar ég heyrði fyrst lag með þeim. Ég var ég að labba úr vinnunni til að taka strætó heim, hlustandi á xið og heyrði þá lagið Ég bíð þín sem er alveg yndislegt lag. Þrátt fyrir elektrónísk element sem ég er almennt ekki mikið fyrir greip laglínan og söngkonan mig strax. Það er alltaf jafn magnað að muna eftir stað og stund þegar maður heyrir lög fyrst og ég held að þegar það gerist nái maður einhverri sérstakri tengingu. En hvað um það. Tónleikarnir voru sem áður sagði í Gamla bíó þar sem nýbúið er að taka allt í gegn. Ég hef aldrei séð Vök spila áður og var dálítið hrædd um að söngkonan væri kannski ekki jafn góð live og hún er á lögunum þeirra en ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum. Það var líka skemmtilgt að sjá hvað saxafónninn spilaði stórt hlutverk, ekki bara sóló hér og þar. Hljóðið var mjög gott, ég hefði samt viljað hafa örlítið hærra í söngkonunni á stöku stað. Hvað tónlistina varðar greip hún mig ekkert rosalega nema kannski síðustu tvö lögin. Ég var búin að bíða spennt eftir laginu mínu, var alveg viss um að þau myndu enda á því en það kom aldrei. Ég var pínu svekkt í sannleika sagt, en það kemur dagur eftir þennan dag.

 

Eftir Vök var ferðinni heitið á Gaukinn. Ein í hópnum var æst í að sjá dj flugvél og geimskip en röðin inn á Húrra þar sem hún var að spila náði næstum því á Bæjarins bestu þannig að við ákváðum að fara harðkjarna leiðina og beint inn á Gaukinn þar sem var engin röð. Þegar inn var komið voru Endless Dark að gera sig klára til að stíga á svið. Í fyrra spiluðu Endless Dark í Hörpu í allt of stórum sal sem var eiginlega frekar vandræðalegt en hljóðið var allavega gott. Nú er búið að snúa öllu við á Gauknum þannig að helmingurinn af áhorfendum þurfa að standa undir lofti sem er alltof lágt og drepur þar af leiðandi allt hljóð. Hljóðið þar sem við stóðum fyrst var alveg skelfilegt, fyrir utan að vera allt of hátt, en því nær sem við fórum batnaði það, enda hækkar loftið nær sviðinu. Hljómsveitin er rosalega öflug og mikill kraftur í þeim, mér fannst þeir samt betri í fyrra, held að þeir þurfi meira pláss enda 7 manna band. 

 

Ophidian I voru næstir á svið. Ég hef bara einu sinni séð þá áður sem var á Eistnaflugi fyrir tveimur árum. Ég er voða lítið inn í teknísku dauðametalsenunni og bjóst ekkert endilega við að staldra við alla tónleikana en þeir gripu mig strax. Maður er alltaf á tánum því það er alltaf eitthvað nýtt að gerast, taktbreytingar, stopp hér og þar, kaflaskil og rödduð gítarsóló. Og ég spyr hvað er betra en raddað gítarsóló? Þetta heitir pottþétt ekki raddað gítarsóló, en þið vitið hvað ég meina. Þeir gefa frá sér gífurlega orku, eru þéttir og vel spilandi. Bassaleikarinn var með einhvern monster bassa, hálsinn jafn sver og lærið á mér, eða svo gott sem. Mér sýndist þeir vera komnir með nýjan trommuleikara sem átti ekki í neinum vandræðum með þetta, allt til fyrirmyndar. Skelfilega gott band og komu mér á óvart og ég kom sjálfri mér líka dálítið á óvart að fýla þá jafn vel og ég gerði. Þegar ég heyri eitthvað gott kemur ósjálfrátt einhver fáránlegur svipur á mig sem er blanda af brosi og grettu og þið getið séð á mynd hérna til hliðar. Þessi svipur lét sjá sig nokkrum sinnum yfir þessari hljómsveit.

 

Næst var ferðinni heitið í Hörpu en þar ætlaði ég að sjá Leaves og var búin að hlakka mikið til. Því miður var Ásgeir Trausti að byrja á sama tíma þannig að röðin var svakaleg. Það sá ekki fyrir endann á henni, reyndar var ég ekki með gleraugun þannig að ég býst við að hún hafi endað einhversstaðar en við allavega nenntum ekki að bíða. Við fórum því aftur á Gaukinn þar sem Svartidauði var að spila. Þetta fannst mér ekki skemmtilegt, hreint ekki skammtilegt bara. Ég sat í fýlu út í horni alvarlega að íhuga að draga upp prjónana sem ég var með í veskinu. Vinkona mín sagðist vera alveg dolfallin og að þetta hafi verið algjör hápunktur kvöldsins. Er ekki frábært hvað við erum öll misjöfn. 

 

Ég ákvað að hætta í fýlu og stóð upp til að sjá næsta band sem var Momentum. Ég labbaði út af tónleikum með þeim á Eistnaflugi einhvertíman, en ég gef alltaf nokkra sénsa þannig að þeir eiga alveg inni hjá mér. Mikið skelfilega var ég ánægð með að hafa gefið þeim annan séns. Þeir komu mér á óvart. Á feisbúkk síðunni sinni kalla þeir sig psychedelic - progressive - doom, þannig að ég fýla þá 2/3. Er ekki mikil doom kona. En ég heyrði mikla prógressív í tónlistinni sem er alltaf jákvætt. Spila mikið í 7/8 ef ég hef verið að telja rétt sem er pjúra prog og þeir fá gríðarlegt hrós fyrir að ná að radda í öllum þessum látum. Síðan var líka hljómborð þarna sem setti skemmtilegan blæ á tónlistina, þó svo að mér hafi það ekki alltaf fundist passa. Flottur söngur og flott growl. Ég fékk á tímabili smá Pain of salvation fýling, sem er fjandi fínt. Gaman líka að sjá hvað Mac úr It's always sunny þáttunum er góður á gítar

 

Síðastir á svið voru Koninuum sem hafa verið mikið spilaðir í útvarpinu upp á síðkastið, allvega eitt lag með þeim, Í Huldusal. Þeir náðu ekki að heilla mig neitt gríðarlega, nema þegar þeir tóku einmitt þetta lag. Þetta er hryllilega gott lag og þá sérstaklega instrumental parturinn sem byrjar um mitt lagið, algjört nammi. Ég mun gefa þeim annan séns, alveg hiklaust. 

 

Það er augljóst að Airwaves 2014 byrjar af krafti og ég get ekki beðið eftir meiru. Þar sem gærkvöldið einkenndist af hinum ýmsum metal tegundum ætla ég að pósta hérna eina ferðina enn lokaverkefninu mínu sem ég gerði í HÍ, sem var stuttmynd um dauðarokk.

 

Band kvöldsins: Ophidian I

Lag kvöldsins: þriðja síðasta lagið hjá Momentum, veit ekkert hvað það heitir

Pirringur kvöldsins: Að missa af Leaves

 

 


Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband