Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

50% ástarbréf til Emilíönu Torrini


Emilíana Torrini er lengi búin að vera uppáhalds íslenska tónlistarkonan mín. Allt sem þessi kona gerir þykir mér vera gull. Platan Fisherman's woman frá árinu 2004 er næstum gufuð upp því ég hlustaði svo mikið á hana þegar hún kom út. Ég man einmitt hvar ég var þegar ég heyrði fyrst lag af þeirri plötu. Þá var ég að vinna á gistiheimili og eyrun spertust upp eins og á hundi þegar ég heyrði lag af henni í útvarpinu. Lögin á þeirri plötu þykja mér vera hvert öðru fallegra en undirtónninn er mjög sorglegur. Síðan kom platan Me and Armini sem mér þykir líka mjög góð en hún hafði ekki alveg sömu áhrif á mig. Ég hef bara einu sinni séð drottninguna spila en er svo þakklát fyrir að hafa séð hana þar sem ég sá hana. Það er á flottasta tónleikastað sem ég hef farið á. Það er gömul kirkja í Amsterdam sem heitir núna Paradiso. Þar sá ég líka Tuin brakes, og Elbow og ég mæli eindregið með að fara á tónleika þar ef þið eigið ferð til Amsterdam. En hvað um það. Undirtónninn á þeirri plötu (me and Armini) er hressari og meira upbeat og mun meira að gerast í lögunum flestum en á plötunni á undan. Síðan er það Tookah. 


Mér leist nú ekkert á blikuna þegar fyrsta lagið af plötunni fór að hljóma, mér fannst það of elektrónískt og ég er ekki mikill talsmaður þess. En ég ákvað nú samt að gefa henni séns. Því auðvitað þróa tónlistarmenn smekkinn sinn með árunum og ég verð víst bara að taka því. 


1. Tookah: Þetta lag bara virkar. Flottur taktur, flottur gítar, skemmtileg pródúsering á röddinni hennar. Flott byrjunarlag. 


2. Caterpillar: Þetta lag byrjar líka á einhverjum syntha. Síðan koma undurfagrir gítarhljómar og flottur bassi inn. Þetta lag gæti vel átt heima Fisherman's Woman. Voðalega falleg melódía og tært gítarsánd með allskonar flottu á bakvið. 


3. Autumn sun: Þetta er annað ofsalega hugljúft lag. Manni finnst maður bara sitja fyrir framan gítarleikarann og Emilíönu meðan þau spila þetta því þetta er svo tært og gítarinn er næstum jafn framarlega í mixinu og söngurinn sem er skemmtilegt. Lítið reverb á söngnum og í staðinn er hann tvöfaldaður undir lokinn sem mýkir hann upp og bara ég á ekki til orð. Þetta er frábært. Mér þykir þetta líka frábærlega vel pródúserað lag. Ég er dálítill raddana fýkill og hefði helst viljað radda allt þetta lag. En það er á pinku litlum kafla sem söngurinn er raddaður sem gerir það miklu flottara fyrir vikið, ,,..couldn't do us any harm…..‘‘ tékkið á því þegar röddin kemur inn, algjört nammi. Mér finnst líka alltaf gaman við mörg lögin hennar þegar það heyrist þrusk inn á milli erinda eða einhversstaðar sem gerir tónlistina mannlegri og svona meira rustic eða hvað maður á að kalla þetta. 


4. Home: Byrjar hressilega, mikið að gerast. Voða repetetive lag fyrir utan smá breik sem dettur inn í einhvern rólegan mystic kafla. Hef lítið meira um lagið að segja, lala. 


5. Elisabet: Fallegt lag. Kannski aðeins og dramatískt fyrir minn smekk. Flott melódía. Það skemmtilegast við þetta lag fannst mér að syntharnir minntu mig í augnablik á þættina Nonna og Manna ef einhver man eftir þeim. Já ég var sko mikið Nonna og Manna nörd og horfði á þættina aftur og aftur og spilaði upphafslagið endalaust á þverflautuna. En þetta stef minnir mig ekki á upphafslagið í Nonna og Manna (eins og það lag var frábært), en það minnir mig á kaflann þegar Nonni datt í snjóholuna með hestinn sinn. 


6. Animal Games: Of mikið af elektrónískum hljóðum í byrjun…en síðan kemur bassi og gítar inn og þá fyrst verður þetta lag ágætt. Mikið að gerast allt lagið og síðan emur smá krúttlegur lokakafli með gítar. Lala segi ég.


7. Speed of dark: Þetta lag var það fyrsta sem var spilað í útvarpinu er ég nokkuð viss um. Eins og ég sagði þá leist mér ekkert á þetta lag fyrst, en þetta verður bara betra og betra með hverri hlustun og nú finnst mér þetta lag alveg stórgott. Þó að þetta sé voða elektrónískt…svona er maður skrítinn. Þetta lag bara virkar. 


8. Blood red: Æðislegt lag. Minnir mig á Fishermsan's woman. Voðalega rólegt og pjúr. Síðan veit maður ekki alveg hvort hún sé að syngja eða muldra erindið sem gerir þetta ennþá athyglisverðara. Síðan dettur inn þetta undurfagra viðlag þar sem fallega röddin hennar fær að njóta sín. Síðan kemur úúúú kafli sem er frábær. ÞAr sem tónlistin hækkar og hækkar og verður meiri og meiri og röddin fellur aftar og aftar og síðan bara búið. Nammi.


9. When fever breaks: Æjji nei takk. Væri ef til vill fínasta lag ef fyrri helmingurinn af laginu væri bara klipptur í burtu. 



Áhugaverð plata. 50% frábær og 50% lala. Dálítið mix af fyrri tveimur plötunum hennar sem er jákvætt. Að mínu mati mætti hún vera minna elektrónísk þó það virki vel á pörtum. En ég elska Emilíönu alveg jafn heitt. Hef ekki verið mikið að tjá ást mína á konum, en maður verður að byrja einhversstaðar :)



Airwaves - Dagur 4

 
Laugardagskvöldið var pakkað og sérstaklega af tónlist sem ég þekkti lítið sem ekkert. Fyrst var ferðinni heitið á Iðnó.

15. Þar var drottningin Eivör Pálsdóttir að spila með hljómsveit. Ég hef aldrei séð hana áður, en vissi alveg að hún væri góð en ekki svona góð! Lögin voru líka hressari en ég bjóst við. En mesta sjokkið var einfaldlega hversu gott vald hún hefur á röddinni. Ég er mjög krítísk á það þegar fólk syngur falskt, jafnvel þó það sé ekki nema ogguponsulítið og ég beið eftir því alla tónleikana að hún myndi klúðra einhverju. Ég stóð mig að því tvisvar að hrissta hausinn einfaldlega því ég trúði ekki að þetta væri að gerast. Konan syngur lengst upp á háa c eða væntanlega miklu hærra en það (er ekki nógu vel að mér í tónfræðinni) og heldur einhverjum hátíðnitón áður hún droppar fullkomleqa niður í einhvern lágan tón. Ég held hreinlega að ég hafi aldrei séð svona áður. Ef ég hefði verið með hatt hefði ég tekið að ofan fyrir drottningunni og hef ég ákveðið að kalla hana drottningu hér eftir. Við vorum fimm stelpur sem fórum saman á Eivöru og vorum allar nánast með tárin í augunum yfir því hversu stórkostlegir tónleikar þetta voru, mig langaði nú reyndar helst til að grenja af því tónleikarnir voru alltof stuttir.

16. Því næst röltum við á Gaukinn þar sem við horfðum á þrjú bönd. Fyrst var það Fears. Ég hafði aldrei heyrt um þessa hljómsveit áður né heyrt í henni, en þetta er stórflott band. Flottur söngvari og fín mússík, en það er bara alltaf sama helvítis sagan með Gaukinn, það er svo alltof fokking hátt þarna inni. Við vinkonurnar ákváðum að sitja á hliðarlínunni og sáum því hljómsveitina ekki. Eru allir löngu orðnir heyrnalausir sem vinna þarna? Ég bara skil þetta ekki andaskotinn hafi það, já ég er frekar pirruð yfir því að geta ekki farið á tónleika og notið þeirra. En ég mun klárlega skoða þetta band betur.

17. Sign voru næstir á svið sem ég var mjög spennt fyrir, enda ekki séð þá í mörg ár. Þeir voru mjög þéttir og góðir en aftur ákváðum við að sitja fyrir aftan vegg til að hlífa eyrunum aðeins.

18. Þá var komið að hljómsveitinni sem ég  hlakkaði mest til að sjá þetta kvöld, enda var okkur sagt að við hefðum misst af tónleikum ársins eftir að við misstum af Legend á Eistnaflugi. Ég hefði betur átt að gera mér örlítið minni væntingar því þá hefði ég farið glaðari út. Í fyrsta lagi var tónlistin súper há og bassinn svo mikill að ég hélt að lungun myndu falla saman eða augun skjótast úr höfuðkúpunni þegar þeir byrjuðu fyrst.  Ég færði mig svo aftar og aftar þangað til ég fór bara út og hlustaði þar. Síðan þegar frægasta lagið þeirra byrjaði fór ég aftur inn en hefði betur átt að vera bara úti. Hann var bara falskur allan tímann og bara blehh, aðeins of artí fyrir minn smekk. Ég væri samt til í að gefa þeim annan séns

19. Af Gauknum var rölt yfir í Þjóðleikhúskjallarann þar sem færeyska hljómsveitin/tónlistarmaðurinn Byrta sá um tónlistina. Ég held nú að tónlistin hafi ekki verið svo slæm en hljóðið var alls ekki gott. Reyndar stóðum við frekar aftarlega, má vel vera að hljóðið hafi verið betra framar. Ég er líka til í að gefa þeim annan séns. 

 20.-21.Við enduðum kvöldið svo í Hörpu þar sem við sáum Young Dreams og Jon Hopkins. Young Dreams er eitthvað sem vert er að fylgjast með, ansi hressandi popparar. Jon Hopkins hef ég ekki áhuga á að fylgjast með, enda verð ég seint talin áhugamanneskja um elktró danstónlist. 


Airwaves - Dagur 3

Jájá ég held bara áfram að bomba hér inn Airwaves færslum og nú er komið að kvöldi 3. Að mínu mati var dagskráin þetta kvöld minnst spennandi af öllum kvöldunum, aðeins tvö bönd sem ég hlakkaði mikið til að sjá.


11. Samuel Jon Samuelsson big band. Að mínu mati er bara hreinlega allt sem hann Samúel kemur nálægt hreinasta gull og er þessi hljómsveit engin undantekning. Risa band og rosa kraftur sem skilaði sér út í sal. Ótrúlega skemmtileg tónlist og mikið dillað sér á þessum tónleikum. En hvað er að frétta af Jagúar? Það er að mín mati eitt besta band sem við höfum átt. En þetta band var reyndar stórgott og ég hlakka strax til að sjá þau aftur.


12. Næstur á svið var John Grant. Hann er heldur of rólegur fyrir minn smekk en ég var búin að hlakka til að heyra GMF og nýjasta lagið sem er í spilun í útvarpinu núna sem mér finnst stórgott. Einnig þykir mér lagið Marz ofsalega fallegt lag sem hann flutti ofsalega fallega. Hann er súper söngvari með djúpa og silkimjúka rödd sem hrífur mann og er með flotta spilara með sér. 


13. Eftir það var það Sýrlendingurinn Omar Souleyman. Ég var frekar svartsýn fyrir tónleikana og bjóst ekki við miklu en ég hefði betur átt að vera aðeins jákvæðari því stemningin á þessum tónleikum var sú besta af öllum tónleikunum sem ég sótti. Það var líka mjög súrrealísk stemning á sviðinu. Á sviðinu voru tveir gaurar. Dj-inn og svo Yasser Arafat…ég reyndar var ekki með gleraugun þannig að það gæti hafa verið einhver annar. En Arafat gerði fátt annað en að labba fram og til baka og líta á klukkuna, hann var greinilega að skemmta sér konunglega. En þrátt fyrir að hann virtist vera í tímaþröng þá virtust áhorfendur ekki kippa sér upp við það og dilluðu sér og hoppuðu. Að mínu mati var hvorki tónlistin né söngurinn upp á marga fiska, en maðurinn fær hrós fyrir að kunna að klappa. Allir voru að fýla hann nema ég, ég er greinilega ekki með nógu þróaðan tónlistarsmekk.   


14. Mestu vonbrigði kvöldsins var svo Aluna George. Ég var reyndar alveg pínu spennt (mínus rokk stig) fyrir laginu Attracting Flies sem var eina lagið sem ég hafði heyrt með henni. En æjji þetta var bara asnalegt, hún labbar út á svið í bleyju (eins og áður kom fram var ég ekki með gleraugun svo þetta gæti hafa verið eitthvað annað) og byrjar svo eitthvað að gaula. Hund leiðinleg lög og bara blehh, ég hafði ekki þolinmæði til að bíða eftir laginu mínu enda ekkert meistaraverk svo sem. Ég ætla ekki að kenna óþróuðum tónlistarsmekk um það að ég hafi ekki fýlað hana. Hún var bara leiðinleg. Punktur.

 

Ekki var það nú meira sem ég sá þetta kvöld. En á morgun blogga ég um kvöld 4 þar sem ég sá meðal annars drottninguna Eivöru Páls, Sign og Byrtu.  


Airwaves - Dagur 2 - Sóltíðir og Endless Hjaltalín

Kvöld númer 2 á Airwaves hátíðinni var bæði há punktur hátíðarinnar og lág punktur þegar á innan við 10 mínútum varð ég bæði fyrir stórkostlegustu tónleikaupplifun lífs míns sem og vandræðalegustu. Við byrjum kvöldið í Gamla Bíó.

 7. Árstíðir. Ég var að koma inn í Gamla Bíó í fyrsta skipti og varð alls ekki fyrir vonbriðum. Hljómburðurinn er frábær, meira að segja þó svo að ég hafi setið aftast á svölunum með lágt til lofts. Reyndar voru engar trommur í hljómsveitinni þannig að það gæti hafa haft einhver áhrif. Ég hef aldrei hlustað á þessa hljómsveit neitt að ráði jafnvel þó að ég eigi plötu með þeim. Ég bjóst við einhverjum nokkrum gítarleikurum og litlu öðru. En þarna voru þrír gítarleikarar (einn á baritón gítar var mér sagt eftir á) hljómborð, fiðla og uppáhaldshljóðfærið mitt, selló. Það sem þettar var fallegt! Leið og ég labbaði þarna inn hugsaði að kannski ætti ég að slökkva á símanum. En hugsaði svo, neinei það hringir hvort eð er aldrei neinn í mig. Síðan lögðu drengirnir hljóðfærin frá sér og sungu Heyr himna smiður eins og í vídjóinu sem allir voru að deila hérna fyrir ekki svo löngu. Ró og spekt færðist yfir áhorfendur og þeir byrja að syngja accapella. Byrjar þá ekki síminn minn að HRINGJA!!! Og það sem verra var, þá fann ekki helvítis símann. Það sem ég skammaðist mín og í biðst innilegrar afsökunar á þessu. 

Eftir að ég var búin að jafna mig á þessu símadrama þá náði ég aðeins að einbeyta mér aftur að tónleikunum og sem betur fer því á meðan þeir spiluðu lokalagið varð ég fyrir rosalegustu tónleikaupplifun sem ég hef lent í. Lagið sem þeir spiluðu heitir Shades. Krafturinn í laginu var svo mikill, allt var svo stórkostlegt og mikilfenglegt,  gæsahúðin mín var svo rosaleg og á tímabili hélt ég hreinlega að ég myndi fá fullnæginu. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef þeir hefðu spilað í nokkrar sekúndur lengur….vávávíva. Ég hef allavega aldrei lent í þessu áður og efast um að það muni gerast aftur..en það yrði samt gaman. 

8. Endless Dark.  Eftir Árstíðir lölluðum við í Hörpu og sáum Endless Dark. Ég mundi eftir að hafa séð þá áður á Keflavík Music Festival, en finnst ekki rétt að dæma þá út frá einhverju litlu tjaldi þar sem þeir voru að spila. Það sem ég tók frá tónleikunum þeirra í Hörpu er einfaldlega það hvort þeir séu ekki bara með vanmetnustu böndum á landinu. Þeir eru ólýsanlega góðir. Allur hljóðfæraleikur til fyrirmyndar, söngvarinn alveg pitch perfect, og hann var mest allan tímann að syngja upp á háa c, hinir söngvararnir/growlararnir voru líka mjög góðir og allur krafturinn á sviðinu var rosalegur! Salurinn var kannski eilítið of stór fyrir þá því hann var ekki einu sinni hálf fullur sem skapaði frekar sérkennilega stemningu. En ég var allavega dolfallin fyrir þessari hljómsveit. Tónlistin sem þeir spila er ekki mín uppáhalds, en hörkuflott hljómsveit. 

9. Hjaltalín. Ég tel mig hafa verið heppna því kynni mín af vasaþjófum eru lítil sem engin, en tvennu hefur verið stolið af mér og koma báðir þessir hlutir við sögu í þessari Airwaves bloggi mínu. Ég bjó í Amsterdam í 4 ár og var alltaf skítblankur námsmaður. Eftir skólann þegar ég fór að vinna á MTV og átti smá pening ætlaði ég sko aldeilis að gera vel við mig og vinkonu mína. Málið var það að Hjaltalín áttu að spila þar í borg og ég keypti tvo miða fyrir okkur. Við röltum svo á Paradiso þar sem tónleikarnir voru haldnir og við stóðum þó nokkuð lengi í röð. Þegar við fórum að nálgast innganginn ætlaði ég að ná í miðana til að hafa þá tilbúna. En viti menn! Engir voru miðarnir þar. Þannig að við röltum heim með skottið á milli lappanna. Peningaveskið mitt var á sínum stað, en miðarnir sem ég hafði látið í sérstakt hólf voru horfnir. Hversu súrrealískt er það? En hvað um það, þetta var smá útúrdúr. 

Ég er enginn úber Hjalatín aðdáandi en mig hefur alltaf langað til að sjá þau live eftir þetta bull þarna í Amsterdam. Mér varð að ósk minni og var bara þó nokkuð sátt. Tónlistin er oft á tíðum aðeins of arty fyrir minn smekk, en flott er hún. Síðan tóku þau Halo sem ég veit að eru skiptar skoðanir um, en það mátti allavega sjá tár á hvarmi hjá gömlu. Það sem hún Sigríður getur sungið, hún er algjört gotterí. 

 10. Sólstafir. Jæja þá er komið að úrslitaviðureigninni við Sólstafi. Ég var fyrir tónleikana ekki búin að gera það upp við mig hvort ég fýlaði þá eða ekki, þó svo að hafa séð þá oftar en fjórum sinnum held ég. Ég held að ég hafi aldrei gefið hljómsveit jafn marga sénsa. Ég ákvað því í eitt skipti fyrir öll að horfa á tónleikana frá upphafi til enda og taka þessa miklu ákvörðun. Ég held svei mér þá að Sólstafir hafi tapað. Mér bara finnst þetta ekki skemmtilegt, ég viðurkenni þó að það eru mjög flottir kaflar í lögunum og nokkur mjög góð lög eins og til dæmis Ljós í stormi. En mér finnst það ekki skila sér live. Mér verður örugglega bannað að fara á Eistnaflug næst, en ég smygla mér bara samt.  

Á morgun mun ég blogga um kvöd 3 þar sem ég sá meðal annars John Grant og Samuel Jon Samuelsson big band.  


Airwaves - Dagur 1


Já ég skal sko segja ykkur það. Nú er konan búin að prófa Airwaves. Elsku besta systir mín gaf mér miða á Airwaves í útskriftargjöf. Ég hafði aldrei farið áður, enda bjó ég í Amsterdam áður og var svo fátækur námsmaður. En það sem þetta er flott hátíð! Ég á bara ekki til orð, stórkostlegt alveg hreint. Næstu daga ætla ég að blogga um hátíðina og mína upplifun af þessari snilld. Þar sem ég er að skrifa þetta eftir á vona ég að ég sé ekki að gleyma neinu. Ég nenni ekki að henda þessu öllu inn í einu enda yrði það súper löng færsla og ég tek bara einn dag í einu eins og maðurinn sagði. 

 

1. Ylja. Ég var að sjá Ylju flokkinn í 3. eða 4. skipti og ég hata þau alltaf jafn mikið, eða réttara sagt hata að elska þau. Þetta eru tvær ótrúlega hæfileikaríkar stelpur sem spila á gítar og syngja eins og englar. Smá öfundsýki í gangi hérna megin. Síðan er slædari, bassi og slagverk. Það eru nú liðnir nokkrir mánuðir síðan ég sá þau síðast og það er ekkert lítið sem þeim fer fram og þá sérstaklega söngvurunum. Einnig eru þau farin að spreyta sig á enskunni og þá kveður við nýjan tón í tónlistinni. Tónlistin fer úr því að vera þjóðlagaskotin yfir í aðeins poppaðri stemningu á enskunni. Ágætis tilbreyting. 

  

2. 1860. Eftir Ylju steig hljómsveitin 1860 á svið. Ég var að sjá þá í fyrsta skipti live, fyrit utan nokkur lög á Októberfest HÍ einhvertímann. Þeir eru stórkostlegir og hvergi falskan tón að finna. Einnig eru þeir mjög hressir og fyndnir á sviði. 


3. Agent Fresco. Við færðum okkur svo um set og fórum í Listasafnið þar sem Agent Fresco voru að spila. Mig minnir að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem ég fer á tónleika í þessu húsi og ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Agent Fresco voru stórkostlegir eins og þeirra er von og vísa en hljómburðurinn í húsinu er alveg skelfilegur. Þetta er náttúrulega bara steyptur geymir og hann hlómar nákvæmlega þannig. Hljóðið skánaði þó aðeins því nær sem við fikruðum okkur enda ekki jafn mikið pláss fyrir hljóðið að skoppa af veggjunum áður en það kom til okkar. Hljóðið eyðilagði eiginlega mína upplifun af tónleikunum, en það er ekki við hljómsveitarmeðlimi að sakast því þeir eru alltaf flottir. Voða fínt að það eigi að rífa Nasa, enda heill hellingur af flottum tónleikastöðum í borginni okkar. Fokk off. 


4. Valdimar tóku við af Fresco og voru mjög góð. Það sem maðurinn getur sungið. Ég átti bágt með mig í laginu Um Stund. Það er bara eitthvað við þetta lag, hljómagangurinn eða eitthvað. Viðlagið dettur inn í tón sem maður býst ekki við (eða allavega ekki ég) og það er það sem fær mín hár til að rísa, þetta óvænta. Alveg undursamlegt lag. 


5. Mammút. Næst röltum við í Hörpu og hlustuðum á Mammút. Ég hef reyndar aldrei verið mikill aðdáandi, en finnst þessi tvö nýju lög sem eru  í spilun í útvarpinu stórgóð, Blóðberg og lagið Salt. ,,Stráðu á mig salti‘‘  eða eins og vinkona mín hélt að textinn væri ,,Klýndu á mig salti.‘‘ Flutningurinn var fullkomin en mér fannst eins og hljómsveitin týndist aðeins því salurinn er mjög stór og krafturinn var bara ekki nógu mikill. Það hefði bara held ég mátt hækka í græjunum (og það þarf mikið að gerast til að ég kvarti yfir því að eitthvað sé of lágt). 


6. Retro Stefson Við fórum svo yfir í næsta sal og dilluðum okkur aðeins við Retro Stefson eins og gengur og gerist. Þau voru ótrúlega flott og kraftmikil eins og þau eru vön. 


Sú ákvörðun að fara heim eftir Retro Stefson var ein af þeim erfiðari sem ég hef þurft að gera í lífinu (já þetta líf hefur kannski verið svolítill dans á rósum). En það var ákvörðunin að fara ekki á Emilíönu Torrini (ég er btw byrjuð að skrifa blogg um nýju plötuna hennar sem ég pósta eftir þetta Airwaves blogg fíaskó). En Emilíana Torrini hefur eiginlega alltaf verið ein af mínum allra uppáhalds íslensku tónlistarmönnum. En hverjum dettur í hug að hafa hennar tónleika eftir miðnætti á miðvikudagskvöldi! Sá maður eða kona hefur greinilega fengið eitthvað í hausinn því ég bara skil þetta ekki. Ég er vinnandi kona og þarf að mæta í vinnu á fimmtudegi! Andodinn! eins og hún amma mín myndi segja. En reyndar var þreyta farin að segja til sín og almennur bakverkur þannig að ég hugsaði að ég hefði ekki notið tónleikana að fullu hvort sem er og fyrst hún er flutt til landsins hlýtur konan að fara að spila eitthvað að ráði. Ég verð allavega fyrst til að kaupa miða á þá tónleika. 


En ég verð að segja að þetta fyrsta kvöld var eiginlega bara besta kvöldið í heildina á litið. Öll böndin ofsalega flott og ekkert leiðinlegt inn á milli. Enda allt íslensk bönd sem ég hef séð áður og þekki vel og mikið djöfulli eigum við mikið af flottu tónlistarfólki. Takk fyrir mig. 

 

Á morgun verður það kvöld 2 þar sem við sáum meðal annars Árstíðir, Endless Dark og Hjaltalín.  

 

 

 


Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband