Einn hljómur

Tónlist er mögnuð. Það er ósköp einfalt. Mig hefur lengi langað til að skrifa um áhrifamátt tónlistar og loksins er komið að því. Þetta er auðvitað frekar sjálfhverft, því ég get ekki lýst nema minni eigin reynslu.

Auðvitað skynjum við tónlist hvert á okkar hátt. Áhrifin eru mismikil fyrir hlustandann, en ég hef alltaf verið ein af þeim sem tónlist hefur gríðarleg tilfinningaleg áhrif á. Auðvitað eru þeir til sem hafa engan áhuga á tónlist og pæla lítið í henni, því við getum jú sem betur fer ekki öll verið eins.

Tónlist hefur alltaf haft mikil áhrif á mig, síðan ég man eftir mér. Hver ástæðan er, veit ég ekki. Ég man ekki eftir því að hafa fengið eitthvað gríðarlegt tónlistarlegt uppeldi eins og sumir, þó svo að pabbi hafi verið gítarkennari og tónlistarmaður, enda ólumst við systur aðalega upp hjá mömmu. Það var alveg tónlist á heimilinu, þó svo að elsku mamma sé kannski ekki sú lagvissasta. Einhvertíman sagði hún mér sögu af því þegar hún var syngja fyrir mig vögguvísu, þá segi ég: ,,Uss ekki þú.“

Ég var reyndar send í blokkflautunám, síðan altflautu á meðan við biðum eftir að þverflauta yrði laus í Tónlistarskólanum í Neskaupstað. Loks var það eitt eða tvö ár á þverflautu. Þetta voru þó samanlagt ekki nema nokkur ár og ég hætti í tónlistarnámi þegar ég var 10 ára.

Eitthvað hefur þetta þó gert fyrir lítinn óþroskaðan heila, sem hefur ekki beðið þess bætur.

Eitt sem mér finnst alltaf jafn merkilegt er það þegar maður man stað og stund  þegar maður heyrir lag í fyrsta skipti, eða jafnvel part úr lagi sem maður hafði ekki tekið eftir áður. Hversu gríðarleg áhrif getur eitt helvítis lag haft? Maður man hvar maður var þegar risa viðburðir í mannkynssögunni gerðust, eins og tvíburaturnarnir og Díana. En hvað gerist í heilanum? Túlkar heilinn þessi lög jafn mikilvæg og fall tvíburaturnanna? Það hafa eflaust einhverjar rannsóknir verið gerðar á þessu, en ég hef enga þolinmæði til að fletta í gegnum einhverjar fræðigreinar. En hér eru dæmi um það hvað heilinn á mér túlkar sem gríðarlega merkilega hluti:

  • Þegar ég heyrði fyrst lagið Cemetery Gates með Pantera vorum við Dóri Stóri upp á Ártúnshöfða á rúntinum.
  • Þegar ég tók fyrst eftir einkennilegri bassatrommu í Black Dog með Zeppelin. Þá sat ég í aftursætinu á Cryslernum sem pabbi hans Dóra Stóra átti. Bassinn var mjög góður þarna aftur í. Ég man tilfinninguna þegar ég tók eftir því að það var eins og hægðist á bassatrommunni á einhverjum tímapunkti og hún er við það að detta úr takti, en gerir það ekki. Dásamlega mannlegt.
  • Þegar ég heyrði fyrst lagið, Ég bíð þín, með Vök þá var ég að labba heim úr vinnunni að taka strætó. Á þeim tíma var ég mikill talsmaður þess að öll raftónlist væri drasl. Þess vegna finnst mér alltaf jafn fyndið að þetta lag hafi setið svona í mér.
  • Þegar ég heyrði fyrst lagið Unconditional Love með Röggu Gröndal. Þá var ég að keyra niður Laugaveginn og heyrði það í útvarpinu. Snarstoppaði, hlóp inn í Skífu og keypti plötuna.
  • Þegar ég áttaði mig á því að gítarsólóið í Domination með Pantera væri væntanlega eitt það besta í sögunni, var ég stödd á Albert Cuypmarkt í Amsterdam á leiðinni heim.

 

Ég hef farið í marga tilfinningarússíbana hlustandi á tónlist. Legið í fósturstellingunni og grenjað, dansað eins og fábjáni, hlegið, skjálfað og titrað og fengið það gríðarlega mikla gæsahúð að jaðraði við fullnægingu.

Einhverjir myndu eflaust skammast sín að fara að grenja á almannafæri á tónleikum, en ég ákvað sem unglingur að njóta þess bara, enda væri ekkert annað hægt. Nærtækasta dæmið er þegar ég sá Opeth á Eistnaflugi 2016. Opeth hefur lengi verið í uppáhaldi en ekki ein af mínum allra uppáhalds, en það kom ekki að sök. Þegar þeir byrjuðu tónleikana þá lak ekki bara tár, heldur mættu ekkasog á svæðið líka. Þannig að ef þið rekist á mig grenjandi á tónleikum þá er allt í lagi með mig.  

Útgangspunkturinn ef einhver er, er held ég þessi: Ef að manni (mér) líður vel og hlustar á hressandi tónlist líður manni enn betur. Ef manni líður hins vegar illa og hlustar á sorglega tónlist er eins og heimurinn sé að farast.

Um daginn var ég að labba heim úr vinnunni og leið ekkert alltof vel í sálartetrinu. Á leiðinni hlustaði ég á uppáhalds hljómsveitina mína, Turin Brakes, sem eiga það til að vera svolítið melankólískir á köflum. Það komu tvö frekar þung lög í röð og ég var með tárinu í augunum af því að allt var ómögulegt, svo mikið myrkur úti, ég ekki komin í jólaskap, ný hætt með kærastanum og í ljótri úlpu. Semsagt allt ómögulegt. Þriðja lagið byrjaði hins vegar með upplífgandi hljóm og það birti strax til. Myrkrið varð ekki jafn þrúgandi, ég andaði léttar, naut allra fallegu jólaljósanna, hugsaði að lífið væri kannski ekki búið þó að maður væri einhleypur að detta í 31. árið og að þessi úlpa væri bara alveg ágæt eftir allt saman.

Hlustum á tónlist!


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Sunna

Takk fyrir greinina. Fyrir mig er tónlist andlegt fóður.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 5.12.2017 kl. 13:39

2 identicon

Mikil ósköo þarft að minna okkur á.

Takk.

Fæddur á vinyl tímabilinu.

Á dögum þar sem það var virkileg athöfn að skella tónlist á fóninn.

Þetta breyttist með geisladisknum og þar með virtist tónlistin breytast með, þar sem ekki var hægt að njóta hennar með sama hætti.

Ógrynni af hæfileika ríku tónlistarfólki drukknar í því rusli sem þvingað er upp á okkur.

Því miður.

L. (IP-tala skráð) 6.12.2017 kl. 01:36

3 identicon

Takk fyrir mig!

Fyrir þitt framlag.

L. (IP-tala skráð) 6.12.2017 kl. 01:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband