Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Nammigóð frumraun Dusty Miller

 

Það var mikið að þessi blessaða plata kom út. Ég er búin að fylgjast með þessari hljómsveit í þó nokkurn tíma. Sá þau fyrst í kjallaranum á 11unni og varð strax ástfangin. Þetta er eitthvað nýtt, en samt svo gamalt með mikla sál. Fyrir nokkru bloggaði ég um það að Endless Dark væri trúlega vanmetnasta band landsins. Ég held ég verði að taka það til baka og segja að Dusty Miller sé vanmetnasta bandið. Síðast sá ég hljómsveitina á Rósenberg og það voru kannski 5 í salnum, það er skandall. Ég er búin að bíða eftir plötunni síðan 2012 þegar hún var tilbúin. Síðan var mér sagt að hún væri komin í búðir í nóvember og ég arka inn í allar plötubúðir oftar en einu sinni og spyr eftir plötunni. En nei hún var ekki komin (þá hafði verið einhver seinkun). Ég var reyndar spurð í Skífunni hvort ég væri að tala um Dusty Springfield… Þið getið því rétt svo ýmindað ykkur hamingjuna að fá loksins gripinn í hendurnar einhverri viku seinna. En leggjum við hlustir:

 

 

1. Itch my scratch.  Lagið byrjar á alltof löngu feid inni. Hálf helvítis mínúta sem er algjörlega óþarfi og maður þarf alltaf kíkja og athuga hvort maður hafi ekki örugglega ýtt á play. Bara byrja stuðið strax, það hef ég alltaf sagt. Ég er nú ekki mikil textakona en ég staldraði aðeins við þessa skemmtilegu línu: ,,What I want is just to see what you've got, dressed the way you came into this world" pinku sexý. Frábærar raddanir í viðlaginu og flott brú sem dettur inn alveg óvænt og fær mann til að brosa. Brúin minnir um margt á Steely Dan og ég held að hrósin verði ekki stærri en það. Gjörsamlega áreynslulaust rennur svo brúin út og lagið byrjar aftur. Svo verður tempóið hraðara þangað til að það dettur niður í einhvern mjúkan fýling með bongó og tilheyrandi kósýheitum þangað til það deyr út.  

 

2. I'm bad news. Byrjar á sælgætisbassa og svo læðast með ýmis skemmtileg synthahljóð og flottur gítar. Síðan kemur söngurinn inn og ég hef haldrei heyrt neitt jafn smooth og þegar hann syngur ,,the whole day through…" Það verður að segjast eins og er að ég held að synthinn sé dálítið stjarnan í þessu lagi. Öll aukahljóðin og synthinn á bakvið viðlagið gera mjög mikið fyrir lagið og fylla vel upp í það. Nammi rim shot (veit ekki hvað það heitir þegar það er slegið á kantinn á snerlinum)  og þétt og snörp sneriltromma. Flottur bassi og gítar og gaman að bongó.

 

3. What a life it's been. Voðalega hugljúft lag. Frábært sánd í því sem ég hélt fyrst að væri gítar en svo hélt ég að þetta væri banjó. Fróðir menn segja mér hins vegar að þetta sé hljóðfæri sem heitir dobro. Hljómar allavega eins og ef að gítar og banjó myndu eignast barn. Brakið í strengjunum er yndislegt. Síðan koma trommurnar inn með þéttri og flottri sneriltrommu. Smooth gítarsóló.  

 

4. Shake! Þarna kemur feid inn sem á rétt á sér og virkar vel. Mér finnst dálítið skrítið við þetta lag að mér finnst það byrja á endakafla, get ekki útskýrt hvað það er. Mikið stuð og ef maður nær ekki að dilla sér við þetta lag þá er eitthvað mikið að. Frábært brass og yndislegt hljómborðs/hammond sóló. Eftir mesta hamaganginn dettur lagið svo niðrí einhvern mjúkan blús, frábær lagskipting og flottur endir. 

 

5. Do it yourself. Mér fannst þetta lag hundleiðinlegt fyrst, og fannst það eiga heima í einhverri svart/hvítri drakúla mynd. En síðan fór ég að reyna að einblýna á það sem mér líkaði í laginu og þá batnar lagið til muna. Til dæmis þegar þau syngja ,,time you know" ekkert slor röddun í gangi þar, enda engar slor bakraddasöngkonur. Að mínu mati mættu bakraddirnar fá meira svæði og bara hækka í þeim. Hammond línan í endanum pirrar mig smá vegna þess að ég hugsa alltaf um July Morning með Uriah heep þegar ég hlusta þannig að það hlýtur að svipa eitthvað til þeirrar línu. Útsetningin á þessum endakafla er góð en línan mætti vera önnur. Þetta lag stingur í stúf við hin lögin og hljómsveitin tekur smá áhættu á að stinga þessu lagi þarna.

 

6. Only love remains.  Indælt. Hvað er betra en bursta trommur. Fínasta brass og almenn kósíheit í þessu lagi. Rennur ljúflega niður, lítið meira hægt að segja. 

 

7. Don't let your song go to waste. Gott intro. Flottur gítar, skemmtileg blæbrigði í röddinni. Flottur texti ,,don't let your song go to waist.‘‘ Ótrúlega flott og ruglandi sóló. Fyrst var ég á því að þetta væri hljómborðssóló en síðan hlustaði ég á þetta betur og held að þetta sé gítar með einhverju mixi af fínum effectum, en flott er það sama hvað það er. Stórkostlegar raddanir í ,,..did it hurt….‘‘. Spes en skemmtilegt fade out. 

 

8.  Give'em Love. Nammi hljómborðssóló. Flott stuttu pásurnar á milli erinda og viðlagsins. Flottur bassi. 

 

9. For a while. Þetta er drullusexý lag. Það er eitthvað við svona rim shot með flottu reverbi sem ég fæ bara gæsahúð af. Reyndar er textinn líka mjög flottur og það er eitthvað skemmtilegt ryð í röddinni hans í þessu lagi.  Alls konar flott aukahljóð sem fylla upp í og virka vel. Skemmtilegt syntha sóló undir lokinn. Hallærislegt sánd en það virkar samt og verður bara flott. 

 

10. X. Stórkostlegt instrumental lag. Lagið er eitt magnað build up. Lagið er einföld en gífurlaga falleg lína spiluð aftur aftur. Alltaf bætast svo fleiri og fleiri hljóðfæri við…ég er mikill sökker fyrir flottu build uppi og táraðist alltaf þegar ég hlustaði á þetta lag fyrst, en nú er ég orðin svakalega hard core og get hlustað á þetta án þess að fara að grenja. Dugleg.   

 

 

Þetta er alveg glæsileg plata og flott frumraum hjá þessum snillingum. Ég hef fylgst með Ella söngvara frá því 2006, þegar hann söng í prog rokk/metal bandinu Perlu sem var og hét ( ég held reyndar enn í vonina að þeir gefi út plötu). En hvað um það, þá hefur Elli þroskast gríðarlega sem söngvari. Hann hefur meira vald á röddinni, er með skemmtilegan tón sem sker sig úr og hikar ekki við að nota ýmis blæbrigði. Hann syngur líka með mikilli innlifun og tilfinningu sem skilar sér á plötunni,

 

Allur hljóðfæraleikur sem og bakraddir á plötunni er til fyrirmyndar og á háum standard. Mér skildist á meðlimum að það væri erfitt að koma lögum af plötunni í spilun í útvarpi og ég hef aldrei heyrt aðra eins þvælu. Þetta er svo yfirgengilega áheyrileg tónlist og ég get ekki ímyndað mér marga sem myndu ekki fýla þetta. 

  

Við fyrstu hlustun var ég staðráðin í að gefa plötunni 5 stjörnur. En því oftar sem ég hlustaði fannst mér nokkur lög sem eru í rólegri kantinum vera dálítið keimlík. Einnig finnst mér drakúla lagið ekki neitt ofsalega skemmtilegt. Það sem hafði líka áhrif á að ég ákvað að lækka stjörnugjöfina var það að ég er búin að heyra nokkur ný lög frá þeim og þau eru hreinlega á öðrum standard og ég hef ákveðið að geyma þessa hálfa stjörnu þangað til að næsta plata kemur út, engin pressa samt :)

 

4,5 stjörnur

 

 

 

Dusty Miller verður með útgáfutónleika í Tjarnarbíó núna á laugardaginn klukkan 21 og mæli ég með að allir tónlistarunnendur kíki á þessa stórgóðu hljómsveit. Ég kemst ekki vegna fáránlegrar íþróttaiðkunar norður á landi og er jafn vonsvikin yfir því og ég var yfir því að hafa setið á kamrinum þegar Metallica byrjuðu á Nothing else matters á Werchter hér um árið. En í guðanna bænum ekki missa af þessum tónleikum og ég mæli með að þið gerið þarfir ykkar áður en þið farið því þið viljið ekki missa af neinu. 

 

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband