Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

Airwaves - laugardagur

Iðnó var fyrsta stopp laugardagskvöldsins á Airwaves. Þar var blús/rokk hljómsveitin Beebee and the bluebirds að spila. Ég hef aldrei verið mikil blús kona en það var nóg af rokki í þessu til að staldra við. Ég hef heyrt söngkonuna syngja áður með Baggabandinu og vissi að hún væri hörku söngkona. Ég vissi líka að hún spilaði á gítar en ég bjóst við öðrum lead gítarleikara. Ég hef greinilega ekki verið nógu dugleg að lesa Veru blöðin hennar mömmu hérna í denn. Eða þá að maður er hreinlega ekki vanur að sjá söngkonu sem er líka lead gítarleikari sólóandi út um allt. Á milli laga sagði systir mín að þessi kona hlyti að vera mest cool kona sögunnar og ég held að hún sé ekki fjarri lagi þar. Við allavega stóðum alveg dolfallnar, með gæsahúð og ég með tár í augun í einhverjum lögum. Lögin eru hvert öðru betra og bandið er skipað topp hljóðfæraleikurum. Mér fannst líka æðislegt hvað þau voru hógvær. Hún þakkaði áhorfendum oft fyrir komuna og ég segi nú bara nei, þakka ykkur fyrir.

 

Við röltum þá í Hörpu í raun ekki með neitt ákveðið plan. Kíktum fyrst á Kiasmos sem er techno tvíeyki. Stöldruðum við í nokkur lög, þetta var örugglega rosa flott en ég skil ekki techno það er ósköp einfalt. Þaðan fórum við í næsta sal og sáum nokkur lög með írsku hljómsveitinni Soak sem var svona allt í lagi, rokk popp eitthvað, ekkert sem heillaði mig upp úr skónum. Sóley spilaði eftir þeim. Hún var ágæt, ekki mín uppáhalds tónlist, kannski aðeins of rólegt og of miklar endurtekningar fyrir minn smekk. En hún er með fallega rödd og skemmtileg á sviði, spjallar við áhorfendur mér finnst það alltaf skemmtilegt, eitthvað svo mannlegt.

 

Við skoðuðum dagskránna og ákváðum að sjá smá af Battles, kíkja síðan í næsta sal og fá smá soul í kroppinn frá Saun og Starr og fara svo á Nao á Nasa. Battles er nú meiri sýran. Samt þannig að maður getur eiginlega eki slitið sig frá, því maður er svo forvitin hvað í ósköpunum skildi eiginlega gerast næst. Gítarleikarinn minnti mig á sjálfa mig þegar ég fékk fyrst rafmagnsgítar og magnara með innbyggðum effectum. Þið vitið þegar maður situr bara og prófar alla effectana sína. Síðan var hann líka með hljómborð sem hann ýtti bara á einhverjar nótur hér og þar, allavega hljómaði það þannig í mínum eyrum, þau eru kannski ekki nógu þroskuð fyrir þetta.

 

Við ætluðum bara að sjá eitt, tvö lög með Saun & Starr og fara svo á Nao. Til að gera langa sögu stutta fórum við ekki á Nao. Mikið er gaman að uppgötva nýja tónlist. Við erum að tala um sax, trompet, bassa, trommur, gítar og tvær fimmtugar alvöru gospel söngkonur. Getur maður beðið um eitthvað betra!? Bandið byrjaði að spila áður en söngkonurnar komu inn á sviðið og það hefði verið alveg nóg fyrir mig því þetta er með betri böndum sem ég hef séð. Bassinn maður, bassinn. Í einu laginu sendu þær bandið af sviðinu og stigu frá míkrafónunum og sungu gospel. Namminamm. Við stóðum með stjörnur í augunum alla tónleikana. Ég held að það sé skilda að athuga þetta band betur.

 


Airwaves - föstudagur

Þriðja kvöld Airwaves hátíðarinnar byrjaði rennandi blautt. Förinni var heitið í Fríkirkjuna til að hlusta á hljómsveitina Ylju. Við stóðum fyrir utan í grenjandi rigningu í stundarfjórðung áður en við komumst inn. Verandi jafn miklar pæjur og við erum datt okkur ekki í hug að klæða okkur eftir veðri. Aldrei skildi maður læra. Ég varð ástfangin af Ylju þegar ég sá þau í fyrsta skipti sem var í kjallaranum á 11unni fyrir nokkrum árum. Ég varð síðan fyrir vonbrigðum með þau eftir tónleika með þeim á Airwaves í fyrra og hef lítið hlustað á þau síðan. Þessir tónleikar í Fríkirkjunni voru yfirnáttúrulegir, get ekki orðað það öðruvísi. Raddir söngkvennanna eru út úr þessum heimi. Þær hafa algjört vald yfir röddunum og raddanirnar eru stórkostlegar. Ég fékk gæsahúð í hverju einasta lagi og oft tár í augun. Eitt lagið samdi önnur söngkonan til ömmu sinnar heitinnar. Mig langaði helst til að leggjast á gólfið í fósturstellingunni og grenja því það var svo fallegt.

 

Eftir að hafa þurrkað mestu tárin í burtu og lagað maskarann var Hjaltalín næst á dagskrá. Það voru aðrir gæsahúðartónleikar eins og við var að búast. Ég hef reyndar ekki hlustað mikið á hljómsveitina nema aðalega plötuna Terminal sem ég hlustaði mikið á, á sínum tíma. Í þessari hljómsveit er annað gott dæmi um raddir sem passa skemmtilega saman. Drottningin Sigríður Thorlacius með sína fullkomnu klassísku rödd og síðan Högni með röddina sína sem er troðfull af alls konar karakter. Ólíkar raddir sem bara virka. Lagið sem stendur upp úr var lokalagið sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað heitir. En rúllandi í gegnum lögin þeirra á Spotify þá hlýtur það að hafa verið lagið We, af plötunni Enter 4. TROMMURNAR MAÐUR! Vávávává! Endirinn var rosalegur. Eitt massíft build up og TROMMURNAR! Hvað er að gerast! Sorrý það er ekki mjög pro að skrifa í caps lock en ég get ekki lýst þessu betur. Ég man ekki eftir því að hafa orðið leið þegar að eitthvað lag klárast áður. En ég var bara mjög pirruð, ég vildi meira. En það er allavega ljóst að ég ætla að fara að hlusta meira á Hjaltalín.

 

Það var erfitt að komast niður á jörðina eftir tvenna stórkostlega tónleika, enda var ekki mikið varið næstu hljómsveit sem við sáum sem var Perfume Genius. Lítið um þetta að segja nema bara að þetta höfðaði alls ekki til mín. Eftir nokkur lög kíktum við í Kaldalón, aðalega til að geta sest aðeins niður, verandi með ónýt bök og hné. Þar var hljómsveitin When 'airy met fairy. Skemmtilegt nafn en það var í raun eina við þetta sem mér fannst skemmtilegt. Söngkonan er reyndar með fína rödd og trommarinn fínn.

 

Systir mín dró mig svo á Grísalappalísu í lok kvölds. Og það var nú meiri gleðin. Þeir byrjuðu mjög skemmtilega þegar annar gítarleikarinn og saxafónleikarinn byrjuðu að spila Tears in Heaven. Restin af hljómsveitinni kom svo á sviðið og ballið byrjaði. Mér leist ekkert alltof vel á blikuna fyrst og vissi ekki alveg hvað ég var komin út í, en ekki leið á löngu þar til gamla var farin að dilla sér með. Það kom mér á óvart hvað þetta er góð hljómsveit, ég bjóst við einhverjum gaurum glamrandi á hljóðfærin sín, en þetta er þétt og drullufínt band. Frábær sviðsframkoma og alls konar skemmtilegir karakterar sem halda manni við efnið.

 

 

Hljómsveit kvöldsins: Ylja

Lag kvöldsins: We (held ég) með Hjaltalín

Vonbrigði kvöldsins: Þegar We var búið

 


Airwaves dagur 2

 

Airwaves dagur 2

 

Annað kvöld hátíðarinnar hófst off venue á Hressó þar sem hljómsveitin Shady tróð upp. Að skrifa um þessa sveit verður æfing í hlutleysi þar sem söngkonan er vinkona mín. Shady er tiltölulega nýtt band sem er skemmtileg viðbót í íslenska tónlistarflóru. Alvöru rokk og ról með flottri söngkonu í fararbroddi. Ég hef séð nokkra tónleika með þeim og þau verða betri og betri því oftar sem þau spila. Það voru hnökrar hér og þar en allt innan velsæmismarka. Sum lögin eru dálítið keimlík, en sömu sögu er að segja um lög Brain Police og það er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum. Í nokkrum lögum vantaði meiri röddun að mínu mati til að fá aðeins meiri fyllingu. Þessi hljómsveit er komin til að vera og ég get ekki beðið eftir plötu frá þeim sem vonandi styttist í. 

 

Eftir rokk og ról á Hressó var ferðinni heitið í Hörpu. Systir mín dró mig svo gott sem á tónleika með Low Roar sem ég nennti nú ekki á. Ég hef aldrei hlustað á þessa hljómsveit en var búin að búa til í huganum einhver rólegheit og leiðindi. Þegar við komum inn í salinn var selló það fyrsta sem ég sá á sviðinu og vel þess virði að stoppa bara út af því. Ég vonandi læri núna að dæma ekki hljómsveitir fyrirfram, því þetta voru rosalega góðir tónleikar. Ég var í sjokki yfir því hvað söngvarinn var góður, algjör fagmaður sem söng ekki feilnótu. Uppáhalds live söngvarinn minn er Guy Garvey úr Elbow, en þessi söngvari var ekki langt frá því að stela sætinu hans. Það var rosa kraftur á sviðinu sem skilaði sér út í salinn. Mikil upplifun að sjá þetta band og ég hlakka strax til að sjá þá aftur.

 

Samúel Jón Samúelsson big band er hljómsveit sem er alveg bannað að missa af en þeir spiluðu í Norðurljósum í Hörpu. Það er alltaf jafn skemmtilegt að fara á tónleika með þessari hljómsveit og ekki hægt að horfa á þá nema dilla sér. Samúel hefur gott vald á bandinu og gaman að horfa á hann stjórna þeim. Þarna eru topp hljóðfæraleikarar í hverju horni og allir eru á tánum þegar Samúel bendir á þá til að fá þá til að koma fram á sviðið í sóló. Ég veit ekki hvort það sé æft eða ekki, en það er skemmtilegt að hugsa til þess að allir séu tilbúnir í sóló hvenær sem er. Ef þið hafið ekki séð þessa hljómsveit mæli ég með að þið gerið það hið snarasta. Þeir reyndar tóku ekki uppáhalds lagið mitt Jógúrt, ég þarf þá bara að sjá þá aftur sem fyrst.

 

Við enduðum kvöldið á Listasafninu þar sem norska hljómsveitin Aurora spilaði. Ég vissi ekkert út í hvað við vorum að fara en varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Söngkonan var gríðarlega hógvær og þakkaði áhorfendum oft fyrir að koma, því hún bjóst ekki við að svona margir myndu mæta. Ég hef ekki oft heyrt svona gjörsamlega gallalausan söng í jafn erfiðum lögum. Það pirraði mig samt dálítið hvað tónlistin og söngurinn var keimlíkur norksu söngkonunni Emilie Nicolas sem spilaði á Airwaves í fyrra.

 

Hljómsveit kvöldsins: Low Roar

Lag kvöldsins: Öll með SJS big band

Klúður kvöldsins: Bara fólk almennt sem talar svo hátt á tónleikum að maður nær ekki að einbeita sér.

 


Airwaves dagur 1

Airwaves dagur 1

Fyrsta kvöld Airwaves hátíðarinnar hófst í Iðnó hjá okkur systrum. Þar sáum við hina bráðskemmtilegu sveit Caterpillarmen. Þrátt fyrir að vera orðin 6 ára hljómsveit hefur mér ekki tekist að sjá þá fyrr en nú. Fyrstu lögin gerðu lítið fyrir mig. En um leið og bassinn fór í „réttar hendur“ og nýr maður tók við míkrafóninum fóru hlutirnir að gerast. Að mínu mati fúnkerar bandið best þannig og þá fyrst kom stemning í mannskapinn. Söngvarinn er alveg stórkostlegur performer með danssporin á hreinu. Maður gat ekki annað en brosað út að eyrum og dillað sér, sérstaklega í laginu sem mér heyrðist vera eitthvað á þessa leið.,, burnt toast, rubber bullets,“ þarf að segja meira?

Næsta stopp var á Gauknum þar sem við sáum In the company of men. Samkvæmt facebook síðu sveitarinnar skilgreina þeir sig sem hardcore/mathcore/jazzcore. Ég held að ég sé bara orðin of gömul fyrir allt þetta core, allavega gerði þetta lítið fyrir mig. Það var reyndar ein mjög flott bassalína sem ég heyrði í á milli growla sem fangaði athygli mína.

Við enduðum kvöldið í Hörpu þar sem við hlustuðum á Júníus Meyvant. Ég hafði heldur aldrei heyrt í honum, rétt missti af honum á Airwaves í fyrra og sá mikið eftir því. Tónleikarnir voru frábærir í alla staði. Hljóðfæraleikur til fyrirmyndar sem og Júníus sjálfur (eða Júventus eins og systir mín kallaði hann) og sándið hefði ekki getað verið betra að mínu mati. Þriðja lagið sem þeir tóku heillaði mig upp úr skónum, veit því miður ekki hvað það heitir. Þegar maður stendur í mannþvögu með nokkur hundruð manns, en nær gjörsamlega að kúppla sig úr öllu og líður eins og maður sé einn í heiminum, þá verður sú hljómsveit að fá eitt stórt klapp. Kella fékk meira að segja smá ryk í augað og það er alltaf jákvætt og frábær tilfinning þegar tónlist nær að sópa ryki í augun á manni. Mig fannst samt vanta alvöru brass fyrir aftan, það hefði kórónað tónleikana. Eftir tónleikana sagði ég að ég gæti alveg sleppt því að fara á fleiri tónleika því það væri ekkert að fara að toppa þetta. En sjáum til hvað komandi dagar bera í skauti sér. Gleðilega Airwaves. 

 

Hljómsveit kvöldsins: Júníus Meyvant

Lag kvöldsins: 3. lag sem Júníus Meyvant tók (veit ekki hvað það heitir)

Klúður kvöldsins: Var reyndar ekki tónlistartengt. En við systur fórum að borða á Tapas barnum á milli tónleika. Þegar við vorum búnar að borða fórum við á snyrtinguna og þegar við komum til baka var konan sem hafði setið á borðinu við hliðin á okkur að fá sér bita af súkkulaðikökunni sem við höfðum ekki kárað. Má það bara? Pæling.


Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband