Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Jón Jónsson í Austurbæ

 

Ég skellti mér á Jón Jónsson í Austurbæ á föstudaginn. Þeir eru nýbúnir að gefa út nýja plötu, Heim. Ég var ekki búin að hlusta á plötuna fyrir tónleikana en hafði heyrt nokkur lög af henni. Áður en lengra er haldið þarf ég að segja að svona rólyndis popp tónlist er ekki uppáhaldið mitt. Ég kann samt að meta vel flutta tónlist af öllu tagi og í þessari hljómsveit eru mjög færir hljóðfæraleikarar í hverju horni og bandið gífurlega þétt. 

 

Ég hef farið á nokkra tónleika með þeim og það er alltaf jafn ótrúlega skemmtilegt. Jón er stórkostlegur front maður og skelfilega fyndinn. Nær salnum mjög vel. Maður fær tónleika og uppistand í sama pakkanum. Hljóðið í Austurbæ var mjög gott. Ég hef stundum pirrað mig yfir því að það sé of lágt í hljómborðinu en það var mjög fint level á því þetta kvöld. Það er nauðsynlegt að heyrist vel í hljómborðsleikaranum því hann er gríðarlega góður. 

 

Fyrsta lagið sem þeir fluttu var að ég held titillag plötunnar, Heim. Mér fannst það lengi vel flottasta lagið og líka best flutta lagið á tónleikunum. Ég var mjög ánægð með að heyra nýtt rafmagnsgítarsánd í þessu lagi. Í flestum gítarsólóum er sama sándið sem er sossum allt í lagi en það verður stundum þreytt þetta John Mayer sánd. Tónleikarnir voru voða rólegir til að byrja með, kósý stemning og rómó fýlingur. Maður hefði þurft að vera þarna með kærastanum en þar sem minn var upptekinn knúsaði ég bara múttuna mína. 

 

Fyrsta lagið sem vakti athygli hjá mér var lagið Heltekur minn hug. Þið sem hafið lesið þetta blogg vita að þegar ég heyri eitthvað flott þá kemur ósjálfrátt mjög skrítinn svipur á mig. Það gerðist við þetta lag. Mér finnst þetta lag og annað á plötunni vera á dálítið öðru plani en hin lögin hans. Ég get ekki útskýrt það en það er bara ekki jafn "týpískt" og mörg önnur lög frá honum og ég fýla það. Hitt lagið sem vakti athygli var lagið Engin eftirsjá. Bara allt öðruvísi en hin lögin hans og systir mín sem var líka á tónleikunum fannst þetta flottasta lagið. Við mæðgur virðumst hafa sama smekk, því mamma komst líka í stuð við þessi tvö lög og byrjaði að smella fingrum og alles. 

 

Annað rosa fallegt lag er lagið Sátt. Ofsalega falleg melódía og hugljúft lag. Það eina sem pirraði mig við þetta lag er að orðið kærleikur kemur örugglega fyrir 15 sinnum. Aðeins of mikill kærleikur fyrir minn smekk. Uppáhaldið mitt í tónlist eru "rödduð" gítarsóló. Ég fékk svoleiðis í laginu Gefðu allt sem þú átt, og þar með var þessi kvöldstund orðin næstum fullkomin. Það sem hefði fullkomnað kvöldið væri ef þeir hefðu tekið lagið Ocean Girl sem er að mínu mati lang besta lagið þeirra. Ég hef bara einu sinni heyrt þá taka það á tónleikum og ég væri gríðarlega mikið til í að heyra það aftur. 

 

Ég er búin að renna plötunni í gegn nokkrum sinnum núna og hún er vel gerð, vönduð og að mínu mati mun betri en fyrri platan. Mæli með henni klárlega ef ykkur vantar eitthvað kósý sem rennur ljúflega í gegn. Ég missi nokkur rokk prik fyrir að segja þetta en mér er sama. Takk kærlega fyrir mig. 

Góðar stundir og gleðileg jól :)


Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband