Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Eistnaflug númer 2

 

Eftir síðustu Eistnaflugshátíð vorum við vinkonurnar staðráðnar í að fara aftur. Þessi hátíð er bara engri annari hátíð lík. Ég var síðan svo heppin að vinna 2 miða á hátíðina í sérstökum Eistnaflugsþætti á X-inu sem kom sér mjög vel fyrir atvinnulausann aumingja eins og mig.

 

Við vinkonurnar rúntuðum af stað á miðvikudeginum suðurleiðina í hundleiðinlegu veðri og gistum eina nótt í hjólhýsinu í landinu hennar ömmu á Hornafirði. Á fimmtudaginn eftir yndælis sundferð í sundlauginni á Höfn rúlluðum við svo firðina til Neskaupstaðar. Planið var að gista í tjaldi í garðinum hjá Pálínu vinkonu en, svo fengum við bara heilt herbergi út af fyrir okkur og þurftum bara ekkert að tjalda sem var alveg yndislegt. En hvað um það. 

 

Við vorum ekkert að flýta okkur í Egilsbúð fyrsta kvöldið. Helstu hljómsveitirnar sem okkur langaði að sjá voru síðustu þrjár, Momentum, Dimma og Plastic Gods. Ég var að sjá Momentum í fyrsta skiptið og var mjög hrifin. Fáránlega þétt og þungt band, en ég entist ekki í mörg lög enda er þetta ekki uppáhalds tónlistin mín þó svo að ég átti mig á hæfileikunum. Dimma er hins vegar meira ég og ég var búin að hlakka hrikalega mikið til eftir að hafa séð þá á Keflavík Music festival með 20 öðrum áhorfendum eða svo. Ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum, ég stóð bara agndofa alla tónleikana. Eftir tónleikana voru ýmsir sem töluðu um að söngvarinn hafi verið falskur hér og þar. Ég er yfirleitt sú fyrsta að pirra mig á svoleiðis hlutum, en ég hef greinilega verið undir einhverjum álögum því ég tók ekkert eftir því. 

 

Plastic Gods kláruðu svo kvöldið og voru mjög góðir en það var sömu sögu að segja og með Momentum, hreinilega of þungt fyrir mig. Mínus rokkprik á mig fyrir það. Mér fannst þeir líka byrja á lögum með mjög rólega og þunga kafla sem ég hreinlega nennti ekki. 

 

Á föstudeginum var planið að sjá Ophidian I, Legend, Angist, Agent Fresco og Skálmöld.

Við vorum komnar í bæinn snemma og sáum Klikk sem byrjuðu daginn og eru ungir og efnilegir. Síðan var tekin smá pása og beðið eftir Ophidian I, sem ég var búin að hlakka mikiðmikiðmikið til að sjá. Þeir hjálpuðu mér helling í lokaverkefninu mínu og ég hafði hlustað á slatta af efninu þeirra en aldrei séð þá live, því þeir beiluðu á Keflavík Music festival eins og svo margir aðrir. Þó svo að Ophidian I séu mjög þungir þá hef ég samt meiri þolinmæði fyrir þeim en öðrum svona þungum böndum. Ég held að ástæðan sé sú að það er alltaf mikið að gerast í tónlistinni. Þegar ég hlusta á venjulegt dauðarokk finnst mér eins og einhver haldi mér undir vatni og ég sé alveg að kafna. En með Ophidin I er mér alltaf hleypt upp að anda öðru hvoru, það er mikið um taktbreytingar og það eru miklar kaflaskiptingar. Síðan var náttúrulega alveg frábært að heyra lögin sem ég notaði fyrir myndina mína sem má finna neðar á síðunni. Giggið var mjög fínt, ég held það sé aldrei hægt að spila fullkomið gigg með svona flókna tónlist. En ég varð allavega ekki fyrir vonbrigðum og hlakka til að sjá þá aftur. 

 

Eftir þá tónleika fórum við bara heim og grilluðum og sötruðum smá út á palli. En því miður fór svo voðalega vel um okkur á pallinum að við fórum allt of seint í bæinn og misstum af Legend sem við vorum allar mjög spenntar að sjá. Það eru eiginlega mestu vonbrigði hátíðarinnar því allir sem við hittum sögðu að giggið hefði verið rosalegt! Andskotans vesen. En jæja hvað um það. Við komum meira að segja það seint að við rétt náðum síðustu tveimur lögunum með Angist. En við vorum allar búnar að sjá þau oftar en einu sinni þannig að það var ekki jafn sárt. En ég fékk einnig mikla hjálp frá hljómsveitarmeðlimum úr Angist og það var mjög gaman að heyra lög sem ég fékk að nota í myndina mína. 

 

Agent Fresco stigu næstir á svið og jidúdda mía. Ég hef nú séð þá nokkrum sinnum áður en aldrei jafn góða. Ef einhver þekkir ekki Agent Fresco þá er þetta ofsalega flókin tónlist á köflum sem ég veit ekki hvernig er best að skilgreina, þetta er ekki prog rokk þó að þetta sé bæði prog og rokk. Ég læt aðra um að skilgreina þá. En hvað um það. Í þau skipti sem ég hef séð þá hef ég aldrei farið út fullkomlega sátt, því ég er fullkomnunar sinni þegar kemur að tónlist sem ég virkilega elska, og ég elska Agent Fresco. En þessir tónleikar voru bara bestu tónleikar hátíðarinnar þegar gæði tónlistarinnar eru skoðuð. Fullkonunarsinninn ég brosti út að eyrum allan tímann. Alveg stórkostlegt!

 

Við vinkonurnar vorum mjög spenntar fyrir Skálmöld, sérstaklega eftir að hafa hlustað á nýju plötuna þeirra á leiðinni í bílnum þar sem ég las sögurnar fyrir hvert lag. Alveg rosaleg plata sem ég mun blogga um bráðlega. Í fyrra stóð ég alveg agndofa með gæsahúð allan tímann en ég fékk ekki alveg sömu tilfinninguna í þetta skiptið, þó að þeir hefðu verið rosalegir. Þetta var bara allt svo nýtt fyrir mér í fyrra. Ég fékk þó gæsahúð tvisvar plús tár í augun. Ég saknaði samt Hel. Það hefði verið magnað að fá Eddu úr Angist að syngja með þeim. Ég gleymi aldrei þegar ég heyrði það lag fyrst. Þá var ég úti að labba með hundinn að hlusta á Rás 2 í símanum. Síðan byrjar þetta lag og ég bara byrja að grenja. Það er svo mikil tilfinning í laginu og Edda er stórkostleg, þannig að ég var bara þurrkandi tárin með annarri og haldandi á hundakúk í hinni. Mjög basic. En já ég semsagt hefði verið mikið til í að heyra það lag. En stemningin var stórkostleg og giggið flott. Einhver sagði eftir tónleikana að Skálmöld væri eins og Papaball á sterum, ég er bara ósammála því. Ég hef allavega aldrei skemmt mér svona vel á papaballi, með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu sveit. 

 

Þriðji og síðasti dagurinn var sko ekkert grín fyrir gamlar kellingar eins og okkur. Ég vaknaði til dæmis og gat varla haldið hausnum uppi vegna vöðvabólgu eftir "slamm" kvöldsins áður. Í gamla daga gat maður sko slammað almennilega en nú má maður ekki aðeins dilla höfðinu. Jáhh svona fer aldurinn með mann börnin góð. En það var bara skellt í sig einni Íbúfen og skellt sér af stað. Fyrstir á svið stigu Kaleo sem hafa verið að gera það gott með ábreiðu af Vor í Vaglaskógi sem ég er búin að lofsama mikið. Þeir tóku það lag hins vegar ekki en hvert einasta lag sem þeir tóku var frábært. Ég hef ekki farið á marga tónleika sem ég man eftir að hafa fundist hvert einasta lag skemmtilegt og hvað þá þegar maður þekkir bandið lítið sem ekkert. En þessir strákar halda manni sko við efnið. Án efa athyglisverðustu tónleikar hátíðarinnar og ég hlakka strax til að sjá þá aftur. Sjúkleg rödd, flottir spilarar og ég gapti bara af trommaranum, sjúklega flottur. Þessir strákar gera eitthvað rosalegt. 

 

Eftir þessa rosalega tónleika lágum við í sundlauginni í um tvo yndislega tíma. Síðan beint í sjúklega djúsí pizzu á Pizzafirði og svo fórum við heim og lögðum okkur. Jebb, mikið rétt, ég var búin að nefna það að við erum gamlar kellingar :) 

 

Það hafði verið mikil tilhlökkun fyrir Vintage Caravan en við gömlurnar dröttuðumst svo seint á lappir og þegar við vorum loks komnar var svo troðið þarna inni að við eignlega náðum bara einu lagi og fórum svo út. En það er alltaf jafn gaman að sjá þá. Stórkostlegir á sviði, elska greinilega það sem þeir eru að gera og frábær tónlist. Ég reyndar fór næstum að gráta þegar ég frétti að Jenni Brain Police hefði sungið eitthvað lag með þeim, enda Jenni búinn að vera í uppáhaldi síðustu 10 árin eða svo. Síðan fréttum við líka að sögnvarinn hefði crowd surfað í gúmmíbát, sem maður sér ekki á hverjum degi. 

 

Við rétt svo kíktum á Red fang sem áttu að vera svona stærsta erlenda sveitin og tjahh, mér fannst þeir bara ekkert spennandi. Sorrí með mig bara. Bara hreinlega ekkert sem greip mig. Eftir það stigu Sólstafir á svið. Það var búið að vera álíka mikill spenningur í hópnum fyrir Sólstafi eins og Skálmöld. Enda var ég næstum dottin í gólfið af gæsahúð í fyrra þegar þeir spiluðu, hélt mér bara ekki uppi. En æjji mér fannst þetta gigg fara of hægt af stað og ég bara meikaði það ekki, má vel vera að þreyta hafi haft sitt að segja, enda þriðja og síðasta kvöld hátíðarinnar. Þannig að ég stóð bara úti alla tónleikana og ætlaði svo að hlaupa inn þegar ég heyrði eitthvað flott, en endaði bara á að standa úti. Þannig að ég get lítið dæmt tónleikana. Ég get hreinlega ekki gert upp við mig hvort ég sé aðdáandi eða ekki. Ég gjörsamlega elska lagið Ljós í stormi en síðan hata ég Fjöru, það má vel vera að það sé út af ofspilun. Ég held að eina vitið sé að kaupa disk með þeim og komast að hinu sanna. 

 

Eftir Sólstafi byrjaði svo ein af mínum uppáhalds íslensku hljómsveitum sem ég var búin að bíða eftir svoooo lengi sérstaklega vegna þess að þeir mættu ekki á Eistnaflug í fyrra, Brain Police. Frábærir tónleikar og ógeðslega skemmtilegir. Þeir reyndar tóku eitthvað frekar rólegt og alltof langt lag sem ég man ekki hvað var akkúrat núna sem mér fannst algjör óþarfi. Síðan má alveg fara að hætta að spila Mr. Dolly. Flott lag, en ekki alveg nógu mikið rokk og ról. Gamla var sátt þegar Taste the flower og Coed Fever komu, enda í miklu uppáhaldi. Það sem pirraði mig samt ansi mikið var þetta bölvaða crowd surf. Maður gat ekki notið tónleikanna að fullu því maður var hræddur um að fá hné í hausinn eða eitthvað. Mér finnst crowd surf alveg cool upp að vissu marki. Gaman að fylgjast með einu og einu en þarna voru kannski 20-30 manns að crowd surfa í einu lagi. Koma svo fólk, ekki vera fíbbl, og kannski sama helvítis fólkið að fara aftur og aftur. Drullið ykkur bara af sviðinu svo maður geti fylgst með hljómsveitinni. 

 

En til að draga þessa færslu saman þá mæli ég eindregið með þessar frábæru hátíð. Okkur vinkonunum var sagt í fyrra að vera ekkert að fara því það væri svo skrítið fólk þarna og að við myndum ekki fitta þarna inn. Það er bara ekki satt. Við erum kannski ekki rokkaralegustu gellurnar á svæðinu, en það er öllum svo drullusama hvernig þú ert klæddur, hvort þú sért með eitthvað corpse paint eða ekki eða hvort þú ákveðir að hoppa allsber út í sjó. Það er partur af því sem ég elska. Ég elska líka stemninguna. Aldrei sá ég slagsmál eða einhvern út úr dópaðann og þar er ég að endurtaka mig frá því í fyrra. Reyndar gæti ég vel trúað að ég hafi séð gaur sem hafi verið að reykja eitthvað annað en Salem Light einn daginn þar sem hann dansaði mjög svo skemmtlega fyrir utan Pizzafjörð meðan Bob Marley hljómaði í græjunum :)

 

Flottasti flutningur: Agent Fresco

Mesta stemning (fyrir mig): Brain Police

Gæsahúð: Eitthvað lag með skálmöld

Feik gæsahúð: Þegar ég hélt að Hel væri að byrja, en svo var það ekki það lag :(

Vonbrigði: Að missa af Legend og að missa af Jenna syngja með Vintage Caravan

Brandari hátíðarinnar: Ein af okkur talaði um að hún hlakkaði mikið til að sjá Skálmstafi, hún mismælti sig allavega tvisvar aftur svona. Önnur af okkur sagði þetta allavega tvisvar og ég sjálf talaði einu sinni um þessa frábæri hljómsveit, Skálmstafi :) 

 

Æjji ég nenni ekki meir, drullið ykkur bara á þessa hátíð, því hún er stórkostleg!

 

Takk fyrir mig Eistnaflug, við sjáumst að ári

 

Over and out

 


Af Sigur Rós og seinþroska

Ég hef átt það til að vera á móti allri íslenskri tónlist sem nær heimsfrægð. Það er ekki með ráðum gert heldur finnst mér sú tónlist bara yfirleitt ekki skemmtileg. Þá er ég að tala um Björk, Sigur Rós og núna nýjasta æðið Of monsters and men sem mér finnst hreint ekki skemmtileg mússík. Svona Hó-Hei! tónlist fer yfirgengilega mikið í taugarnar á mér. Ég get þó alveg viðurkennt að Björk, Sigur Rós og OMAM eru allt færir tónlistarmenn með vandaða tónlist, bara ekki minn tebolli. Auðvitað er eitt og eitt lag sem mér líkar við, t.d. Joga með Björk sem er eitt af mínum uppáhalds lögum og Viðrar við til loftárása með Sigur Rós er ofsalega fallegt lag með yndislegu myndbandi sem ég tárast alltaf yfir.

 

Málið er þó að ég hef aldrei gefið þessu tónlistarfólki séns. Ég hef aldrei hlustað á heila plötu með þeim því ég einfaldlega nenni því ekki og þarna spilar líka ef til vill inn í hversu óstjórnlega þrjósk ég er. Fyrr en nú. Eftir að hafa heyrt mjög áhugavert lag í útvarpinu af nýjustu plötu Sigur Rós (Sigur Rósar?) ákvað ég að slá til og hlusta á plötuna þeirra sem er nýkomin út og ber heitið Kveikur. Ég reyndar hlustaði bara á plötuna á Spotify sem er ágætis apparatus fyrir fólk sem vill tékka á tónlist, en þá kemur það upp á móti að platan fékk ekki að rúlla í heild sinni, en það verður að hafa það. Ég hlustaði fjórum sinnum á hvert lag með nýju heyrnatólunum mínum sem eru frekar bass heavy (Sennheiser HD215). En hérna er allavega útkoman:

 

1. Brennisteinn

  • Skemmtilegt intro, ég fékk einhvern smá Radiohead fýling alveg í byrjun, sem er ekki slæmt.

  • Lagið byrjar með frekar nettum takti og um mitt lag kemur fallegt breik sem springur svo í flóknum og hraðari takti.

  • Bassinn er algjörlega frábær og einhverjir bassa effectar sem fá að þjóta um sem mér heyrist að sé mixað aftur á bak nema þetta sé einhver effect sem heppnast ekki alltaf vel, en passar hér

  • Þessi plata einkennist af frábærum endaköflum og þetta lag gefur tóninn og er flottasta endakaflinn á plötunni sem byrjar með strengjum...og hvað er þetta? Já bætum smá brassi við sem hljómar alveg undursamlega.

  • Stjörnur lagsins : Takturinn og outróið


2. Hrafntinna

  • Mér fannst þetta lag pirrandi í fyrsta skiptið sem ég heyrði það. Þetta glingurhljóð fór ofsalega mikið í pirrurnar á mér því það fær að lifa allt lagið.

  • Í annað skiptið sem ég hlustaði á það tók ég varla eftir glingrinu, því ég leyfði laginu að taka mig í nýjar áttir og sé ekki eftir því. Við erum að tala um tár í augum og gæsahúð

  • Söngmelódían er stórfengleg og sérstaklega þegar bakraddirnar koma inn. Þegar komið er yfir mitt lagið fær fiðlan að njóta sín undir röddunum sem nær að hýfa sönginn ennþá hærra. Það vantar einn fiðlutón því hún er skorin úr mixinu mjög snöggt og óvænt en það virkar frábærlega

  • Hér fáum við svo aftur yndislegt outro með fallegum blæstri

  • Stjörnur: Melódía, outro

 

3. Ísjaki

  • Þetta lag fær maður beint í andlitið með þungum og afgerandi trommutakti

  • Það er rosalega mikið að gerast allan tímann en melódían nær að skilja sig frá þannig að hún fær að njóta sín

  • Engin gæsahúð en ágætis lag engu að síður

  • Outróið er gott með fallegu reverbi

  • Stjarna: Trommtaktur sem er ansi breytilegur og flókinn í gegnum lagið. Allavega gæti ég ýmindað mér að þetta sé ekki auðvelt lag að tromma


4. Yfirborð
  • Byrjunin einkennist af vel heppnuðu afturábak pælingum og þungum takti lengst aftur í mixi sem hljómar næstum því eins og hjartsláttur (reyndar í vitlausum takti)

  • Því lengra sem líður inn í lagið verður takturinn hraðari og hraðari og hljómar eins og hann ætli að fara eitthvað á undan laginu, því lagið er mjög rólegt. Skemmtileg andstæða sem ég man ekki eftir að hafa heyrt oft áður svona í fljótu bragði.

  • Flottur og mjög drungalegur endakafli

  • Stjörnur: Pródúsering og mix


5. Stormur

  • Ætli þetta sé ekki svona mest mainstream lagið á plötunni. Allavega elskaði ég það strax. Skemmtilega hresst viðlag sem hægt er að dilla sér við, og hverjum finnst ekki gaman að dilla sér :) Ég gerði meira segja asnasvipinn minn í hvert sinn sem hressi takturinn kom inn, en það er svipur sem ég geri iðulega þegar ég hlusta á flotta rokktónlist og hann lét síðast sjá sig á smettinu á mér þegar ég sá Dimmu í Keflavík fyrir nokkru. Fyrir ykkur sem hafið áhuga má sjá svipinn aftast í færslunni
  • Ég kallaði nokkrum sinnum ,,kom inn!‘‘ því í gegnum lagið eru ýmis aukahljóð og bank sem eru pönuð út um allt sem er mjög flott og minnti mig af einhverjum ástæðum á plötuna hennar Emiliönu Torrini frá 2004: Fisherman's Woman

  • Stjarna: Hressi parturinn


6. Kveikur
  • Athyglisvert intró þar sem panað er frá vinstri til hægri
  • Hvað er málið með bassann!!! Frábært sánd
  • Í lokinn á laginu mætir félagi minn Optimus Prime á svæðið og verandi mikil Transformers kona býð ég hann ávallt velkominn
  • Stjarna: Bassinn

 

7. Rafstraumur

 

  • Byrjunin er svona eins og palate cleanser (ég er búin að vera að horfa mikið á Food network sko) En með því meina ég að það byrjar voðalega ferskt og hljómar svona eins og ég get ýmindað mér að sólarupprás myndi hljóma í bíómynd. Síðan þegar lengra inn í lagið er komi bætist við amstur dagsins og lagið verður meira busy en aldrei of mikið að gerast.

 

 

8. Bláþráður

  • Þetta lag þykir mér akkúrat núna vera besta lagið á plötunni. Ég fæ gæsahúð í hvert einasta skipti sem ég heyri það. Lagið byrjar frekar rólega og svo kemur þetta fáránlega töff bassasánd sem er að finna í fleiri lögum á plötunni. Hægt og rólega eykst takturinn og við rennum inn í stórkostlegt og kraftmikið viðlag.
  • Melódían er upp á ansi marga fiska og textinn og söngurinn fær að njóta sín.
  • Lagið endar á löngum og rólegum endakafla sem er mjög fínn.


9. Var

  • Í fyrsta lagi vil ég byrja á að hrósa Sigur Rós fyrir frábært nafn á lagi...hvað eru þeir að meina? Eru þeir að tala um var eða var? Væntanlega var..
  • Ég veit ekki hvort þið notið Spotify mikið en þegar ég spila tónlist þar þá hoppar forritið bara á milli laga en spilar plöturnar ekki í heild sinni. Þar sem ég vildi nú vera “pró” hlustaði ég á þau í röð en nokkrum sinnum fór forritið fram úr sér og þá fékk ég að heyra byrjunina á þessu lagi sem er undursamleg. Ég var semsagt búin að bíða ansi lengi eftir þessu lagi.
  • Byrjunin er ofsalega fallegt píanó spil sem ég fékk strax gæsahúð af. Svo bætast við mjög hráir strengir og einhver svona aukahljóð.
  • Lagið verður hins vegar aldrei neitt nema fjögurra mínútna langur endakafli á plötunni. Sem ég átta mig á núna meðan ég skrifa þetta að meikar hellings sens. Lögin eru flest með mjög langa og fallega endakafla þannig að þetta passar bara mjög vel við. Ég er bara svo mikill nautnaseggur og hefði viljað eitthvað aðeins meira fyrst þessi byrjun var svona næs.

 

En já ég er semsagt mjög seinþroska, ég fékk til dæmis ekki brjóst fyrr en um tvítugt, en þeir segja að góðir hlutir gerist hægt. Ég hef líka alltaf verið mjög seinþroska þegar kemur að tónlist. Fór ekki að hlusta á Guns n' roses fyrr en ég var 18, Radiohead þegar ég var 22 ára eftir ansi langt þrjóskukast og núna Sigur Rós 26. Leiðir okkar áttu greinilega ekki að liggja saman fyrr en nú og ég er bara ansi þakklát fyrir það og held að ég gefi þessari plötu 4 stjörnur af 5. Og þið þarna vinir mínir sem eruð búin að segja mér að hlusta á Sigur Rós síðustu 10 árin eða svo þá nenni ég ekki einhverju svona I told you so kjaftæði. Ég greinilega geri bara hlutina á mínum hraða og þið verðið bara að virða það. Eftir nokkur ár mun ég örugglega skrifa færslu þar sem ég lofsama OMAM.


Sigur Rós ég elska þig

 

Hérna er svo svipurinn sem ég var að segja ykkur frá sem lætur ósjálfrátt sýna sig þegar ég heyri eitthvað sem er ótrúlega flott.

 

Photo on 7-1-13 at 8.35 PM

 

 

 

 

 

 

 

Over and out

 


Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband