Airwaves dagur 1

 

Kvöldið byrjaði í Gamla bíó þar sem við ætluðum að sjá hljómsveitina Vök. Ég man hvar ég var þegar ég heyrði fyrst lag með þeim. Ég var ég að labba úr vinnunni til að taka strætó heim, hlustandi á xið og heyrði þá lagið Ég bíð þín sem er alveg yndislegt lag. Þrátt fyrir elektrónísk element sem ég er almennt ekki mikið fyrir greip laglínan og söngkonan mig strax. Það er alltaf jafn magnað að muna eftir stað og stund þegar maður heyrir lög fyrst og ég held að þegar það gerist nái maður einhverri sérstakri tengingu. En hvað um það. Tónleikarnir voru sem áður sagði í Gamla bíó þar sem nýbúið er að taka allt í gegn. Ég hef aldrei séð Vök spila áður og var dálítið hrædd um að söngkonan væri kannski ekki jafn góð live og hún er á lögunum þeirra en ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum. Það var líka skemmtilgt að sjá hvað saxafónninn spilaði stórt hlutverk, ekki bara sóló hér og þar. Hljóðið var mjög gott, ég hefði samt viljað hafa örlítið hærra í söngkonunni á stöku stað. Hvað tónlistina varðar greip hún mig ekkert rosalega nema kannski síðustu tvö lögin. Ég var búin að bíða spennt eftir laginu mínu, var alveg viss um að þau myndu enda á því en það kom aldrei. Ég var pínu svekkt í sannleika sagt, en það kemur dagur eftir þennan dag.

 

Eftir Vök var ferðinni heitið á Gaukinn. Ein í hópnum var æst í að sjá dj flugvél og geimskip en röðin inn á Húrra þar sem hún var að spila náði næstum því á Bæjarins bestu þannig að við ákváðum að fara harðkjarna leiðina og beint inn á Gaukinn þar sem var engin röð. Þegar inn var komið voru Endless Dark að gera sig klára til að stíga á svið. Í fyrra spiluðu Endless Dark í Hörpu í allt of stórum sal sem var eiginlega frekar vandræðalegt en hljóðið var allavega gott. Nú er búið að snúa öllu við á Gauknum þannig að helmingurinn af áhorfendum þurfa að standa undir lofti sem er alltof lágt og drepur þar af leiðandi allt hljóð. Hljóðið þar sem við stóðum fyrst var alveg skelfilegt, fyrir utan að vera allt of hátt, en því nær sem við fórum batnaði það, enda hækkar loftið nær sviðinu. Hljómsveitin er rosalega öflug og mikill kraftur í þeim, mér fannst þeir samt betri í fyrra, held að þeir þurfi meira pláss enda 7 manna band. 

 

Ophidian I voru næstir á svið. Ég hef bara einu sinni séð þá áður sem var á Eistnaflugi fyrir tveimur árum. Ég er voða lítið inn í teknísku dauðametalsenunni og bjóst ekkert endilega við að staldra við alla tónleikana en þeir gripu mig strax. Maður er alltaf á tánum því það er alltaf eitthvað nýtt að gerast, taktbreytingar, stopp hér og þar, kaflaskil og rödduð gítarsóló. Og ég spyr hvað er betra en raddað gítarsóló? Þetta heitir pottþétt ekki raddað gítarsóló, en þið vitið hvað ég meina. Þeir gefa frá sér gífurlega orku, eru þéttir og vel spilandi. Bassaleikarinn var með einhvern monster bassa, hálsinn jafn sver og lærið á mér, eða svo gott sem. Mér sýndist þeir vera komnir með nýjan trommuleikara sem átti ekki í neinum vandræðum með þetta, allt til fyrirmyndar. Skelfilega gott band og komu mér á óvart og ég kom sjálfri mér líka dálítið á óvart að fýla þá jafn vel og ég gerði. Þegar ég heyri eitthvað gott kemur ósjálfrátt einhver fáránlegur svipur á mig sem er blanda af brosi og grettu og þið getið séð á mynd hérna til hliðar. Þessi svipur lét sjá sig nokkrum sinnum yfir þessari hljómsveit.

 

Næst var ferðinni heitið í Hörpu en þar ætlaði ég að sjá Leaves og var búin að hlakka mikið til. Því miður var Ásgeir Trausti að byrja á sama tíma þannig að röðin var svakaleg. Það sá ekki fyrir endann á henni, reyndar var ég ekki með gleraugun þannig að ég býst við að hún hafi endað einhversstaðar en við allavega nenntum ekki að bíða. Við fórum því aftur á Gaukinn þar sem Svartidauði var að spila. Þetta fannst mér ekki skemmtilegt, hreint ekki skammtilegt bara. Ég sat í fýlu út í horni alvarlega að íhuga að draga upp prjónana sem ég var með í veskinu. Vinkona mín sagðist vera alveg dolfallin og að þetta hafi verið algjör hápunktur kvöldsins. Er ekki frábært hvað við erum öll misjöfn. 

 

Ég ákvað að hætta í fýlu og stóð upp til að sjá næsta band sem var Momentum. Ég labbaði út af tónleikum með þeim á Eistnaflugi einhvertíman, en ég gef alltaf nokkra sénsa þannig að þeir eiga alveg inni hjá mér. Mikið skelfilega var ég ánægð með að hafa gefið þeim annan séns. Þeir komu mér á óvart. Á feisbúkk síðunni sinni kalla þeir sig psychedelic - progressive - doom, þannig að ég fýla þá 2/3. Er ekki mikil doom kona. En ég heyrði mikla prógressív í tónlistinni sem er alltaf jákvætt. Spila mikið í 7/8 ef ég hef verið að telja rétt sem er pjúra prog og þeir fá gríðarlegt hrós fyrir að ná að radda í öllum þessum látum. Síðan var líka hljómborð þarna sem setti skemmtilegan blæ á tónlistina, þó svo að mér hafi það ekki alltaf fundist passa. Flottur söngur og flott growl. Ég fékk á tímabili smá Pain of salvation fýling, sem er fjandi fínt. Gaman líka að sjá hvað Mac úr It's always sunny þáttunum er góður á gítar

 

Síðastir á svið voru Koninuum sem hafa verið mikið spilaðir í útvarpinu upp á síðkastið, allvega eitt lag með þeim, Í Huldusal. Þeir náðu ekki að heilla mig neitt gríðarlega, nema þegar þeir tóku einmitt þetta lag. Þetta er hryllilega gott lag og þá sérstaklega instrumental parturinn sem byrjar um mitt lagið, algjört nammi. Ég mun gefa þeim annan séns, alveg hiklaust. 

 

Það er augljóst að Airwaves 2014 byrjar af krafti og ég get ekki beðið eftir meiru. Þar sem gærkvöldið einkenndist af hinum ýmsum metal tegundum ætla ég að pósta hérna eina ferðina enn lokaverkefninu mínu sem ég gerði í HÍ, sem var stuttmynd um dauðarokk.

 

Band kvöldsins: Ophidian I

Lag kvöldsins: þriðja síðasta lagið hjá Momentum, veit ekkert hvað það heitir

Pirringur kvöldsins: Að missa af Leaves

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband