Airwaves dagur 2

Við byrjuðum kvöldið í Hörpu til að sjá sænsku söngkonuna Alice Boman. Voða hugljúf og róleg tónlist, heldur of rólegt fyrir minn smekk og lítið að gerast. Hún er voða krútt og með fallega rödd en við þraukuðum bara inni í nokkur lög. 

 

Næsta sem við ætluðum að sjá var hljómsveitin Ylja, en á milli var eitt band sem við vissum ekkert um og sem betur fer ákváðum við að hlusta á það. Það var söngkonan Emilie Nicolas og ég hef bara aldrei vitað annað eins. Ég á erfitt með að tjá mig um þetta því þetta var svo rosalegt. Einir bestu tónleikar sem ég hef séð. Það var allt fullkomið, hljóðið, stemningin, tónlistin, ljósin…bara vávává. Ég held ég kunni ekki nógu flott orð til að koma þessu til skila.  En annars er þetta eitthvað svona elektrópop með smá soul og RnB fýling, pung og attitude. Í fyrra missti ég mig yfir Eivöru Páls og valdinu sem hún hefur á sinni rödd en Emilie Nicolas er enginn eftirbátur. Rosalegt raddsvið sem hún hefur og hvergi feilnóta. Ég fékk gæsahúð í mörgum lögum og í síðasta laginu sem var í rauninni bara eitt build upp þá komu tárin, ég elska það þegar tónlist nær að snerta mann þannig. Besta tilfinning í heimi.

 

Eftir þessa drottningu steig Ylja á svið. Frá því ég sá þær fyrst hef ég verið rosalega skotin í þeim, tvær stelpur með ofsalega fallegar raddir sem hljóma svo vel saman. Nú hefur hljómsveitin breyst mikið og ég hef ekki séð þær í þessari nýju útgáfu. Það er kominn trommari, hljóðborðsleikari, gítarleikari og bassaleikari með þeim og fyrir eru þær báðar á gítar. Ég var búin að hlakka mikið til að sjá þær. Mér þykir skelfilega erfitt og sárt að segja þetta en ég varð fyrir vonbrigðum. Þær tvær eru góðar saman og bandið er hörkuflott en mér finnst blandan ekki góð. Það sem mér hefur alltaf fundist flottast við Ylju eru raddirnar þeirra og þær eiginlega týndust í öllu, ég veit ekki hvort það hafi verið mixið eða að ég hafi staðið á vitlausum stað í salnum. Tónlistin hefur líka breyst úr því að vera pjúra folk í eitthvað sem ég veit ekki hvernig á að skilgreina. Besta við þessa tónleika var þegar þær fóru af sviðinu og bandið tók instrumental kafla. Þá fyrst kom smá bros á mína, það var virkilega flottur kafli. 

 

Þá var förinni heitið á Gaukinn þar sem Dimma var að spila. Mér finnst Dimma alltaf vera mjög solid band og hef aldrei heyrt þá lélega, pjúra þungarokk. Hef lítið um tónleikana að segja annað en að ég hefði verið til í að heyra fleiri gömul lög, þeir tók eiginlega bara nýtt efni. En svo enduðu þeir auðvitað á Þungu krossi, við hötum það ekki. 

 

Eftir Dimmu fórum við hinu megin við götuna að sjá hljómsveit sem heitir Himbrimi á Fredriksen. Það var eiginlega frekar erfitt fyrir eyrun. Staðurinn er ekki gerður fyrir trommusett held ég. Bara steypa og stórir gluggar þannig að hljóðið frá simbölun var alveg skelfilegt. Nú hef ég aldrei starfað sem hljóðmaður og hef bara lært grunninn í hljóðblöndun en það fyrsta sem ég hefði gert væri að draga fyrir gluggana. Það er skelfilegt endurkast frá svona stórum gluggum og ég er nokkuð viss að það hefði dempast smá við það að draga fyrir. Það gæti vel verið að ég sé að tala út um rassgatið á mér, ef svo er þá bara sorrí. Tónlistin greip mig ekkert rosalega nema kannski þriðja lagið sem þau tóku sem var með fáránlegum takti. En ég ætla klárlega að gefa þeim annan séns og sjá þau aftur, en ekki á þessum stað. 

 

 

Band kvöldsins: Emilie Nicolas

 

Lag kvöldsins: Þar sem ég veit ekki hvað síðasta lagið sem hún tók heitir ætla ég að velja lagið Fail með Emilie Nicolas

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband