Airwaves - Dagur 2 - Sóltíðir og Endless Hjaltalín

Kvöld númer 2 á Airwaves hátíðinni var bæði há punktur hátíðarinnar og lág punktur þegar á innan við 10 mínútum varð ég bæði fyrir stórkostlegustu tónleikaupplifun lífs míns sem og vandræðalegustu. Við byrjum kvöldið í Gamla Bíó.

 7. Árstíðir. Ég var að koma inn í Gamla Bíó í fyrsta skipti og varð alls ekki fyrir vonbriðum. Hljómburðurinn er frábær, meira að segja þó svo að ég hafi setið aftast á svölunum með lágt til lofts. Reyndar voru engar trommur í hljómsveitinni þannig að það gæti hafa haft einhver áhrif. Ég hef aldrei hlustað á þessa hljómsveit neitt að ráði jafnvel þó að ég eigi plötu með þeim. Ég bjóst við einhverjum nokkrum gítarleikurum og litlu öðru. En þarna voru þrír gítarleikarar (einn á baritón gítar var mér sagt eftir á) hljómborð, fiðla og uppáhaldshljóðfærið mitt, selló. Það sem þettar var fallegt! Leið og ég labbaði þarna inn hugsaði að kannski ætti ég að slökkva á símanum. En hugsaði svo, neinei það hringir hvort eð er aldrei neinn í mig. Síðan lögðu drengirnir hljóðfærin frá sér og sungu Heyr himna smiður eins og í vídjóinu sem allir voru að deila hérna fyrir ekki svo löngu. Ró og spekt færðist yfir áhorfendur og þeir byrja að syngja accapella. Byrjar þá ekki síminn minn að HRINGJA!!! Og það sem verra var, þá fann ekki helvítis símann. Það sem ég skammaðist mín og í biðst innilegrar afsökunar á þessu. 

Eftir að ég var búin að jafna mig á þessu símadrama þá náði ég aðeins að einbeyta mér aftur að tónleikunum og sem betur fer því á meðan þeir spiluðu lokalagið varð ég fyrir rosalegustu tónleikaupplifun sem ég hef lent í. Lagið sem þeir spiluðu heitir Shades. Krafturinn í laginu var svo mikill, allt var svo stórkostlegt og mikilfenglegt,  gæsahúðin mín var svo rosaleg og á tímabili hélt ég hreinlega að ég myndi fá fullnæginu. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef þeir hefðu spilað í nokkrar sekúndur lengur….vávávíva. Ég hef allavega aldrei lent í þessu áður og efast um að það muni gerast aftur..en það yrði samt gaman. 

8. Endless Dark.  Eftir Árstíðir lölluðum við í Hörpu og sáum Endless Dark. Ég mundi eftir að hafa séð þá áður á Keflavík Music Festival, en finnst ekki rétt að dæma þá út frá einhverju litlu tjaldi þar sem þeir voru að spila. Það sem ég tók frá tónleikunum þeirra í Hörpu er einfaldlega það hvort þeir séu ekki bara með vanmetnustu böndum á landinu. Þeir eru ólýsanlega góðir. Allur hljóðfæraleikur til fyrirmyndar, söngvarinn alveg pitch perfect, og hann var mest allan tímann að syngja upp á háa c, hinir söngvararnir/growlararnir voru líka mjög góðir og allur krafturinn á sviðinu var rosalegur! Salurinn var kannski eilítið of stór fyrir þá því hann var ekki einu sinni hálf fullur sem skapaði frekar sérkennilega stemningu. En ég var allavega dolfallin fyrir þessari hljómsveit. Tónlistin sem þeir spila er ekki mín uppáhalds, en hörkuflott hljómsveit. 

9. Hjaltalín. Ég tel mig hafa verið heppna því kynni mín af vasaþjófum eru lítil sem engin, en tvennu hefur verið stolið af mér og koma báðir þessir hlutir við sögu í þessari Airwaves bloggi mínu. Ég bjó í Amsterdam í 4 ár og var alltaf skítblankur námsmaður. Eftir skólann þegar ég fór að vinna á MTV og átti smá pening ætlaði ég sko aldeilis að gera vel við mig og vinkonu mína. Málið var það að Hjaltalín áttu að spila þar í borg og ég keypti tvo miða fyrir okkur. Við röltum svo á Paradiso þar sem tónleikarnir voru haldnir og við stóðum þó nokkuð lengi í röð. Þegar við fórum að nálgast innganginn ætlaði ég að ná í miðana til að hafa þá tilbúna. En viti menn! Engir voru miðarnir þar. Þannig að við röltum heim með skottið á milli lappanna. Peningaveskið mitt var á sínum stað, en miðarnir sem ég hafði látið í sérstakt hólf voru horfnir. Hversu súrrealískt er það? En hvað um það, þetta var smá útúrdúr. 

Ég er enginn úber Hjalatín aðdáandi en mig hefur alltaf langað til að sjá þau live eftir þetta bull þarna í Amsterdam. Mér varð að ósk minni og var bara þó nokkuð sátt. Tónlistin er oft á tíðum aðeins of arty fyrir minn smekk, en flott er hún. Síðan tóku þau Halo sem ég veit að eru skiptar skoðanir um, en það mátti allavega sjá tár á hvarmi hjá gömlu. Það sem hún Sigríður getur sungið, hún er algjört gotterí. 

 10. Sólstafir. Jæja þá er komið að úrslitaviðureigninni við Sólstafi. Ég var fyrir tónleikana ekki búin að gera það upp við mig hvort ég fýlaði þá eða ekki, þó svo að hafa séð þá oftar en fjórum sinnum held ég. Ég held að ég hafi aldrei gefið hljómsveit jafn marga sénsa. Ég ákvað því í eitt skipti fyrir öll að horfa á tónleikana frá upphafi til enda og taka þessa miklu ákvörðun. Ég held svei mér þá að Sólstafir hafi tapað. Mér bara finnst þetta ekki skemmtilegt, ég viðurkenni þó að það eru mjög flottir kaflar í lögunum og nokkur mjög góð lög eins og til dæmis Ljós í stormi. En mér finnst það ekki skila sér live. Mér verður örugglega bannað að fara á Eistnaflug næst, en ég smygla mér bara samt.  

Á morgun mun ég blogga um kvöd 3 þar sem ég sá meðal annars John Grant og Samuel Jon Samuelsson big band.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband