Airwaves dagur 2

 

Airwaves dagur 2

 

Annað kvöld hátíðarinnar hófst off venue á Hressó þar sem hljómsveitin Shady tróð upp. Að skrifa um þessa sveit verður æfing í hlutleysi þar sem söngkonan er vinkona mín. Shady er tiltölulega nýtt band sem er skemmtileg viðbót í íslenska tónlistarflóru. Alvöru rokk og ról með flottri söngkonu í fararbroddi. Ég hef séð nokkra tónleika með þeim og þau verða betri og betri því oftar sem þau spila. Það voru hnökrar hér og þar en allt innan velsæmismarka. Sum lögin eru dálítið keimlík, en sömu sögu er að segja um lög Brain Police og það er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum. Í nokkrum lögum vantaði meiri röddun að mínu mati til að fá aðeins meiri fyllingu. Þessi hljómsveit er komin til að vera og ég get ekki beðið eftir plötu frá þeim sem vonandi styttist í. 

 

Eftir rokk og ról á Hressó var ferðinni heitið í Hörpu. Systir mín dró mig svo gott sem á tónleika með Low Roar sem ég nennti nú ekki á. Ég hef aldrei hlustað á þessa hljómsveit en var búin að búa til í huganum einhver rólegheit og leiðindi. Þegar við komum inn í salinn var selló það fyrsta sem ég sá á sviðinu og vel þess virði að stoppa bara út af því. Ég vonandi læri núna að dæma ekki hljómsveitir fyrirfram, því þetta voru rosalega góðir tónleikar. Ég var í sjokki yfir því hvað söngvarinn var góður, algjör fagmaður sem söng ekki feilnótu. Uppáhalds live söngvarinn minn er Guy Garvey úr Elbow, en þessi söngvari var ekki langt frá því að stela sætinu hans. Það var rosa kraftur á sviðinu sem skilaði sér út í salinn. Mikil upplifun að sjá þetta band og ég hlakka strax til að sjá þá aftur.

 

Samúel Jón Samúelsson big band er hljómsveit sem er alveg bannað að missa af en þeir spiluðu í Norðurljósum í Hörpu. Það er alltaf jafn skemmtilegt að fara á tónleika með þessari hljómsveit og ekki hægt að horfa á þá nema dilla sér. Samúel hefur gott vald á bandinu og gaman að horfa á hann stjórna þeim. Þarna eru topp hljóðfæraleikarar í hverju horni og allir eru á tánum þegar Samúel bendir á þá til að fá þá til að koma fram á sviðið í sóló. Ég veit ekki hvort það sé æft eða ekki, en það er skemmtilegt að hugsa til þess að allir séu tilbúnir í sóló hvenær sem er. Ef þið hafið ekki séð þessa hljómsveit mæli ég með að þið gerið það hið snarasta. Þeir reyndar tóku ekki uppáhalds lagið mitt Jógúrt, ég þarf þá bara að sjá þá aftur sem fyrst.

 

Við enduðum kvöldið á Listasafninu þar sem norska hljómsveitin Aurora spilaði. Ég vissi ekkert út í hvað við vorum að fara en varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Söngkonan var gríðarlega hógvær og þakkaði áhorfendum oft fyrir að koma, því hún bjóst ekki við að svona margir myndu mæta. Ég hef ekki oft heyrt svona gjörsamlega gallalausan söng í jafn erfiðum lögum. Það pirraði mig samt dálítið hvað tónlistin og söngurinn var keimlíkur norksu söngkonunni Emilie Nicolas sem spilaði á Airwaves í fyrra.

 

Hljómsveit kvöldsins: Low Roar

Lag kvöldsins: Öll með SJS big band

Klúður kvöldsins: Bara fólk almennt sem talar svo hátt á tónleikum að maður nær ekki að einbeita sér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Það er sannarlega ánægjulegt að lesa svona lýsandi og lifandi frásögn.

Ég hlakka til að fylgjast með vandaðri umfjöllun þinni af alvarlegri málefnum á borð við landlæga og rótgróna spillingu, eða nánar tiltekið málefni þau sem "kollegar" þínir láta hjá líða að fjalla um sökum vanhæfni - eða ótta?

Jónatan Karlsson, 7.11.2015 kl. 12:13

2 Smámynd: Sunna Þrastardóttir

Takk fyrir það Jónatan. Ég læt aðra um að fjalla um spillingu, nema það snerti spillingu innan tónlistargeirans þar sem þessi síða er tileinkuð tónlist.

Sunna Þrastardóttir, 8.11.2015 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband