Airwaves - föstudagur

Þriðja kvöld Airwaves hátíðarinnar byrjaði rennandi blautt. Förinni var heitið í Fríkirkjuna til að hlusta á hljómsveitina Ylju. Við stóðum fyrir utan í grenjandi rigningu í stundarfjórðung áður en við komumst inn. Verandi jafn miklar pæjur og við erum datt okkur ekki í hug að klæða okkur eftir veðri. Aldrei skildi maður læra. Ég varð ástfangin af Ylju þegar ég sá þau í fyrsta skipti sem var í kjallaranum á 11unni fyrir nokkrum árum. Ég varð síðan fyrir vonbrigðum með þau eftir tónleika með þeim á Airwaves í fyrra og hef lítið hlustað á þau síðan. Þessir tónleikar í Fríkirkjunni voru yfirnáttúrulegir, get ekki orðað það öðruvísi. Raddir söngkvennanna eru út úr þessum heimi. Þær hafa algjört vald yfir röddunum og raddanirnar eru stórkostlegar. Ég fékk gæsahúð í hverju einasta lagi og oft tár í augun. Eitt lagið samdi önnur söngkonan til ömmu sinnar heitinnar. Mig langaði helst til að leggjast á gólfið í fósturstellingunni og grenja því það var svo fallegt.

 

Eftir að hafa þurrkað mestu tárin í burtu og lagað maskarann var Hjaltalín næst á dagskrá. Það voru aðrir gæsahúðartónleikar eins og við var að búast. Ég hef reyndar ekki hlustað mikið á hljómsveitina nema aðalega plötuna Terminal sem ég hlustaði mikið á, á sínum tíma. Í þessari hljómsveit er annað gott dæmi um raddir sem passa skemmtilega saman. Drottningin Sigríður Thorlacius með sína fullkomnu klassísku rödd og síðan Högni með röddina sína sem er troðfull af alls konar karakter. Ólíkar raddir sem bara virka. Lagið sem stendur upp úr var lokalagið sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað heitir. En rúllandi í gegnum lögin þeirra á Spotify þá hlýtur það að hafa verið lagið We, af plötunni Enter 4. TROMMURNAR MAÐUR! Vávávává! Endirinn var rosalegur. Eitt massíft build up og TROMMURNAR! Hvað er að gerast! Sorrý það er ekki mjög pro að skrifa í caps lock en ég get ekki lýst þessu betur. Ég man ekki eftir því að hafa orðið leið þegar að eitthvað lag klárast áður. En ég var bara mjög pirruð, ég vildi meira. En það er allavega ljóst að ég ætla að fara að hlusta meira á Hjaltalín.

 

Það var erfitt að komast niður á jörðina eftir tvenna stórkostlega tónleika, enda var ekki mikið varið næstu hljómsveit sem við sáum sem var Perfume Genius. Lítið um þetta að segja nema bara að þetta höfðaði alls ekki til mín. Eftir nokkur lög kíktum við í Kaldalón, aðalega til að geta sest aðeins niður, verandi með ónýt bök og hné. Þar var hljómsveitin When 'airy met fairy. Skemmtilegt nafn en það var í raun eina við þetta sem mér fannst skemmtilegt. Söngkonan er reyndar með fína rödd og trommarinn fínn.

 

Systir mín dró mig svo á Grísalappalísu í lok kvölds. Og það var nú meiri gleðin. Þeir byrjuðu mjög skemmtilega þegar annar gítarleikarinn og saxafónleikarinn byrjuðu að spila Tears in Heaven. Restin af hljómsveitinni kom svo á sviðið og ballið byrjaði. Mér leist ekkert alltof vel á blikuna fyrst og vissi ekki alveg hvað ég var komin út í, en ekki leið á löngu þar til gamla var farin að dilla sér með. Það kom mér á óvart hvað þetta er góð hljómsveit, ég bjóst við einhverjum gaurum glamrandi á hljóðfærin sín, en þetta er þétt og drullufínt band. Frábær sviðsframkoma og alls konar skemmtilegir karakterar sem halda manni við efnið.

 

 

Hljómsveit kvöldsins: Ylja

Lag kvöldsins: We (held ég) með Hjaltalín

Vonbrigði kvöldsins: Þegar We var búið

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband