Plöturnar hans pabba #1

 

Í október verða orðin sex ár síðan að pabbi varð bráðkvaddur. Við systur vorum svo "heppnar" að erfa allt hans hafurtask sem innihélt meðal annars um 200 vínyl plötur. Stuttu eftir að hann dó fékk ég þá hugmynd að hlusta á allar plöturnar og skrifa um þær nokkrar línur. Síðan þá hefur þessi hugmynd alltaf verið í kollinum á mér en loksins núna ætla ég að byrja á þessu, betra er seint en aldrei.

 

Einhverjum finnst eflaust einkennilegt af hverju ég er að blogga um plötur sem voru flestar gefnar út fyrir meira en 30 árum. En ástæðan er sú að ég þekkti pabba því miður ekki eins vel og ég hefði viljað og með þessu vona ég að mér takist að skilja hann aðeins betur og einhvernveginn komist ég aðeins nær honum. Auk þess er ég mikill tónlistarunnandi og finnst gaman að uppgötva "nýja" tónlist og skrifa um hana.

 

Pabbi var mjög skipulagður þegar kom að plötunum hans. Þær eru allar númeraðar í stafrófsröð og margar sem maður kannast við og margar sem maður hefur aldrei heyrt um. Sumar sem ég hlakka mikið til að hlusta á eins og plötur með Frank Zappa og Deep Purple, og aðrar sem ég hreinlega kvíði fyrir að hlusta á eins og ein sem heitir Russian Balalaika, en sem betur fer er hún númer 167, þannig að miðað við hægaganginn á mér verð ég örugglega orðin sjötug þegar kemur að henni.

 

En plata númer 1 á listanum er hvorki meira né minna en Back in Black með ACDC og er með þeim þekktari á listanum. Gaman að segja frá því að aftan á henni er verðmiði sem stendur á 76.00kr. Við hvern talar maður til að fá þetta verð aftur?

 

Það er hrikalega erfitt að skrifa um plötu sem flestir rokk og ról unnendur hafa væntanlega verið með á repeat oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Platan er gefin út 1980 og inniheldur marga slagara eins og Hells Bells, Back in black og You Shook me all night long. Platan er tekin upp á Bahamas, sem er skemmtilegt trivia fyrir nöllana þarna úti.

 

Ég verð að viðurkenna það að ég hef aldrei verið mikil AC/DC kona þó að auðvitað hafi maður heyrt þessi helstu lög (sorrý, mínus rokk stig í kladdann fyrir mig). En á þessari plötu voru nokkur sem ég man ekki eftir að hafa heyrt, eins og til dæmis Have a drink on me og Shake a leg. Á plötunni er líka uppáhalds AC/DC lagið mitt sem er Let me put my love into you. Að mínu mati er það lag mest sexý rokk lag sögunnar. Ekki bara út af textanum heldur melódíunni, taktinum og bara öllu.

 

Næst síðasta lagið á plötuni er Shake a leg sem eftir þessa uppgötvun er jafnvel nýja uppáhalds lagið mitt með þessari sveit. Töff gítarriff lagið út í gegn, og ef mér skjátlast ekki þá verður takturinn örlítið hraðari því lengra sem líður á lagið. Veit ekki hvort það hafi verið með ráðum gert eða hvort trommarinn hafi bara orðið svona spenntur. Alltaf jákvætt að mínu mati þegar trommarinn er ekki klikktrakk vélmenni.

 

Rock and roll aint noise pollution er gott lokalag á þessari plötu. Mér finnst rosalega oft í lokalögum að það er aðeins minni alvarleiki yfir þeim. Eins og í intróin á þessu lagi til dæmis, þá heyrir maður andardrátt og einhvern vera að tala. Þetta loðir dálítið við lokalög og gerir plötur mannlegri að mínu mati. Þá veit maður að það er fólk í stúdíói einhversstaðar að leika sér.

 

En annars er þessi plata gourmet út í gegn. Skelfilega fínt trommusánd og enginn að óverdósa í reverbi. Söngurinn er dálítið aftarlega í mixinu á þessari plötu, sem er bara fínt, gott að leyfa tónlistinni bara að njóta sín svona endrum og eins. 

 

Næsta plata á listanum er platan Lone Rhino með Adrian Belew. Ég veit ekkert hvað ég er að fara út í þar, en kemur í ljós. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilld :) Gangi þér vel! 

Halldór Snorrason (IP-tala skráð) 29.5.2016 kl. 17:56

2 identicon

Frábært hjá þér elsku Sunna og virkilega gaman að lesa og langar mig bara að hlusta á plötuna sem fyrst. Snillingur og gangi þér vel og hlakka til að heyra meira. 

Draupnir Rúnar Draupnis (IP-tala skráð) 29.5.2016 kl. 21:22

3 Smámynd: Jens Guð

Gaman að lesa umsögnina.  Hlakka til að lesa næstu umsagnir.

Jens Guð, 30.5.2016 kl. 05:35

4 identicon

Adrian Belew! Þar ertu heppin!

Kristinn Snær Agnarsson (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband