Airwaves dagur 1

Airwaves dagur 1

Fyrsta kvöld Airwaves hátíðarinnar hófst í Iðnó hjá okkur systrum. Þar sáum við hina bráðskemmtilegu sveit Caterpillarmen. Þrátt fyrir að vera orðin 6 ára hljómsveit hefur mér ekki tekist að sjá þá fyrr en nú. Fyrstu lögin gerðu lítið fyrir mig. En um leið og bassinn fór í „réttar hendur“ og nýr maður tók við míkrafóninum fóru hlutirnir að gerast. Að mínu mati fúnkerar bandið best þannig og þá fyrst kom stemning í mannskapinn. Söngvarinn er alveg stórkostlegur performer með danssporin á hreinu. Maður gat ekki annað en brosað út að eyrum og dillað sér, sérstaklega í laginu sem mér heyrðist vera eitthvað á þessa leið.,, burnt toast, rubber bullets,“ þarf að segja meira?

Næsta stopp var á Gauknum þar sem við sáum In the company of men. Samkvæmt facebook síðu sveitarinnar skilgreina þeir sig sem hardcore/mathcore/jazzcore. Ég held að ég sé bara orðin of gömul fyrir allt þetta core, allavega gerði þetta lítið fyrir mig. Það var reyndar ein mjög flott bassalína sem ég heyrði í á milli growla sem fangaði athygli mína.

Við enduðum kvöldið í Hörpu þar sem við hlustuðum á Júníus Meyvant. Ég hafði heldur aldrei heyrt í honum, rétt missti af honum á Airwaves í fyrra og sá mikið eftir því. Tónleikarnir voru frábærir í alla staði. Hljóðfæraleikur til fyrirmyndar sem og Júníus sjálfur (eða Júventus eins og systir mín kallaði hann) og sándið hefði ekki getað verið betra að mínu mati. Þriðja lagið sem þeir tóku heillaði mig upp úr skónum, veit því miður ekki hvað það heitir. Þegar maður stendur í mannþvögu með nokkur hundruð manns, en nær gjörsamlega að kúppla sig úr öllu og líður eins og maður sé einn í heiminum, þá verður sú hljómsveit að fá eitt stórt klapp. Kella fékk meira að segja smá ryk í augað og það er alltaf jákvætt og frábær tilfinning þegar tónlist nær að sópa ryki í augun á manni. Mig fannst samt vanta alvöru brass fyrir aftan, það hefði kórónað tónleikana. Eftir tónleikana sagði ég að ég gæti alveg sleppt því að fara á fleiri tónleika því það væri ekkert að fara að toppa þetta. En sjáum til hvað komandi dagar bera í skauti sér. Gleðilega Airwaves. 

 

Hljómsveit kvöldsins: Júníus Meyvant

Lag kvöldsins: 3. lag sem Júníus Meyvant tók (veit ekki hvað það heitir)

Klúður kvöldsins: Var reyndar ekki tónlistartengt. En við systur fórum að borða á Tapas barnum á milli tónleika. Þegar við vorum búnar að borða fórum við á snyrtinguna og þegar við komum til baka var konan sem hafði setið á borðinu við hliðin á okkur að fá sér bita af súkkulaðikökunni sem við höfðum ekki kárað. Má það bara? Pæling.


Jón Jónsson í Austurbæ

 

Ég skellti mér á Jón Jónsson í Austurbæ á föstudaginn. Þeir eru nýbúnir að gefa út nýja plötu, Heim. Ég var ekki búin að hlusta á plötuna fyrir tónleikana en hafði heyrt nokkur lög af henni. Áður en lengra er haldið þarf ég að segja að svona rólyndis popp tónlist er ekki uppáhaldið mitt. Ég kann samt að meta vel flutta tónlist af öllu tagi og í þessari hljómsveit eru mjög færir hljóðfæraleikarar í hverju horni og bandið gífurlega þétt. 

 

Ég hef farið á nokkra tónleika með þeim og það er alltaf jafn ótrúlega skemmtilegt. Jón er stórkostlegur front maður og skelfilega fyndinn. Nær salnum mjög vel. Maður fær tónleika og uppistand í sama pakkanum. Hljóðið í Austurbæ var mjög gott. Ég hef stundum pirrað mig yfir því að það sé of lágt í hljómborðinu en það var mjög fint level á því þetta kvöld. Það er nauðsynlegt að heyrist vel í hljómborðsleikaranum því hann er gríðarlega góður. 

 

Fyrsta lagið sem þeir fluttu var að ég held titillag plötunnar, Heim. Mér fannst það lengi vel flottasta lagið og líka best flutta lagið á tónleikunum. Ég var mjög ánægð með að heyra nýtt rafmagnsgítarsánd í þessu lagi. Í flestum gítarsólóum er sama sándið sem er sossum allt í lagi en það verður stundum þreytt þetta John Mayer sánd. Tónleikarnir voru voða rólegir til að byrja með, kósý stemning og rómó fýlingur. Maður hefði þurft að vera þarna með kærastanum en þar sem minn var upptekinn knúsaði ég bara múttuna mína. 

 

Fyrsta lagið sem vakti athygli hjá mér var lagið Heltekur minn hug. Þið sem hafið lesið þetta blogg vita að þegar ég heyri eitthvað flott þá kemur ósjálfrátt mjög skrítinn svipur á mig. Það gerðist við þetta lag. Mér finnst þetta lag og annað á plötunni vera á dálítið öðru plani en hin lögin hans. Ég get ekki útskýrt það en það er bara ekki jafn "týpískt" og mörg önnur lög frá honum og ég fýla það. Hitt lagið sem vakti athygli var lagið Engin eftirsjá. Bara allt öðruvísi en hin lögin hans og systir mín sem var líka á tónleikunum fannst þetta flottasta lagið. Við mæðgur virðumst hafa sama smekk, því mamma komst líka í stuð við þessi tvö lög og byrjaði að smella fingrum og alles. 

 

Annað rosa fallegt lag er lagið Sátt. Ofsalega falleg melódía og hugljúft lag. Það eina sem pirraði mig við þetta lag er að orðið kærleikur kemur örugglega fyrir 15 sinnum. Aðeins of mikill kærleikur fyrir minn smekk. Uppáhaldið mitt í tónlist eru "rödduð" gítarsóló. Ég fékk svoleiðis í laginu Gefðu allt sem þú átt, og þar með var þessi kvöldstund orðin næstum fullkomin. Það sem hefði fullkomnað kvöldið væri ef þeir hefðu tekið lagið Ocean Girl sem er að mínu mati lang besta lagið þeirra. Ég hef bara einu sinni heyrt þá taka það á tónleikum og ég væri gríðarlega mikið til í að heyra það aftur. 

 

Ég er búin að renna plötunni í gegn nokkrum sinnum núna og hún er vel gerð, vönduð og að mínu mati mun betri en fyrri platan. Mæli með henni klárlega ef ykkur vantar eitthvað kósý sem rennur ljúflega í gegn. Ég missi nokkur rokk prik fyrir að segja þetta en mér er sama. Takk kærlega fyrir mig. 

Góðar stundir og gleðileg jól :)


Airwavesklúður

Þetta var mesta klúður kvöld lífs míns. 

 

Við vorum komnar í Hörpu um rétt að verða 9. Mig langaði að sjá Júníus Meyvant, var búin að heyra að tónleikrnir hans í Gamla bíó hefðu verið mjög flottir. Síðan var aðalatriðið auðvitað að sjá Hozier sem okkur langaði öllum mikið að sjá. Þegar við komum í Hörpu var engin röð þannig að við röltum bara beint upp. Eftir smá spjall fyrir framan salinn ákváðum við að fara á klósettið en af því að það var smá röð uppi ákváðum við að fara í kjallarann því þar eru aldrei raðir. Þegar við höfðum lokið okkur af í kjallaranum fórum við upp aftur en þá blasti við þessi gríðarlega röð sem náði næstum því út úr Hörpu. Við bjuggumst nú við að hún myndi ganga hratt þannig að við vorum bara ekkert að stressa okkur. Blessuð röðin gekk hins vegar bara ekki rassgat. Til að gera langa sögu stutta þá misstum við bara af öllu. 

 

Við vorum gríðarlega sára en þar sem ég er nýbúin að fara á tvo jákvæðninámskeið á stuttum tíma brosti ég bara í gegnum tárin. Ég átti ennþá eftir að sjá átrúnaðargoðin mín í Brain Police. Við röltum beint yfir á Gaukinn þar sem Grísalappalísa var að ljúka sér af. Tónlistin höfðar ekkert gríðarlega mikið til mín en þetta var ágætt. Síðan steig á svið band sem heitir Perfect Pussy sem var í raun alveg skelfilegt band, hef ekkert meira um það að segja. 

 

EIn í hópnum vill meina að næsta band sem steig á svið sé besta íslenska hljómsveitin síðan Trúbrot. Ég er ekki alveg viss um að ég vilji ganga svo langt og segja það en the Vintage caravan er gríðarlega öflugt band. Pjúra rokk og ról eins og það gerist best, ég hef séð þá nokkrum sinnum og þeir hafa alltaf verið í fantaformi. 

 

Brain Police lokuðu kvöldinu. Ég var í jákvæðniskasti, þökk sé Siggu Kling, og hef sjalda skemmt mér jafn vel á tónleikum með þeim. Þeir voru hins vegar langt frá sínu besta og ekki var hljóðið að bæta neitt. Ég sé hins vegar ekki sólina fyrir þessum drengjum og hef ekki gert síðan ég var 17 ára. Fyndið hvað maður getur verið ótrúlega krítískur á margt en samt leitt svona hjá sér og bara notið, kannski smá hræsni, en mér er sama. 

 

Band kvöldsins: Brain Police

 

Lag kvöldsins: Taste the flower (spurning hvort þetta sé ekki bara besta þungarokkslag íslandssögunnar, og kannski líka Coed Fever, og, og, og…)

 

Svekkelsi kvöldsins: Gettu!


Airwaves dagur 3

Airwaves dagur 3

 

Þeir sem sáu Dusty Miller fyrir aftan Bæjarins bestu í gærkvöldi hljóta að teljast aðdáendur númer 1. Í skítakulda og roki byrjuðum við kvöldið þar og eyðilögðum þar með hárgreiðslurnar, en það var allt þess virði því þetta band er náttúrulega stórkostleg, líka í litlum gám fyrir utan pylsusjoppu. Með ískalda fingur spiluðu þeir bæði nýtt efni og eldra fyrir viðstadda. Ég get ekki beðið eftir nýrri plötu frá þeim því nýja efnið er hrikalega gott. 

 

Eftir meistara Dusty fórum við á Fredriksen þar sem við sáum endann á Gretu Svabo Bech. Fredriksen hentar mun betur fyrir svona acoustic set. Hún er með voða fína rödd en ekkert sem greip mig neitt þannig. Hún tók í lokinn Drunk in Love með Beyoncé sem var ansi athyglisverður flutningur. Ein úr hópnum sá alla tónleikana og sagist hafa fengið gæsahúð nokkrum sinnum þannig að það er kannski þess virði að athuga málið betur.

 

Þaðan var förinni heitið á Listasafnið þar sem þýska rafgrúbban Ballet School spiluðu. Mér fannst fyrsta lagið sem þau tóku alveg gæsahúðar gott, en annars var þetta ekki minn tebolli. Þetta er svona 80's popp, ég hugsaði bara um Dirty dancing og Footloose, ætlið það sé ekki aðalega sneriltromman sem kemur með þetta 80's sánd. Það var líka mikil, The Cure fýlingur í þessu og ég hef aldrei verið aðdáandi.  Söngkonan var mjög góð og með gríðarlegt raddsvið og hitti í langflestum tilfellum á réttu tónana. Í sumum hæstu tónunum minnti hún mig á Röggu Gísla sem er nú ekki leiðum að líkjast.

 

Moses Hightower voru næstir á svið. Ég held því miður að ég hafi bara séð þá einu sinni áður sem er algjör skandall því þetta er yndislegt band. Vel spilandi, syngjandi, flottir textar og bara allt gott um þá að segja. Svo eru þeir líka bara svo sexý, alltso tónlistin. Ég var næstum farin að káfa á Möggu vinkonu en ákvað að setja hendurnar bara í vasana svo ég færi mér ekki að voða. Þeir eru algjört nammi.

 

Eftir sexítæm fórum við í Hörpu að sjá tónlistarkonuna Zhala frá Svíþjóð. Ein í hópnum var æst að sjá hana. Ég hef bara aldrei séð aðra eins sýru. Fyrst labbar kall og kona inn á sviðið, kallin næstum nakin en konan bara gjörsamlega allsber…ha!? Kallinn sest niður hjá einhverri plöntu á sviðinu og byrjar að dansa einhvern jógadans. Á meðan situr sú nakta á einhverju rúmi aftast á sviðinu að borða vínber eða hnetur eða eitthvað. Síðan kemur Zhala á sviðið og byrjar að syngja. Fólk virtist vera að fýla þetta en ég stóð bara frosin og vissi ekkert hvað ég ætti að gera, er greinilega ekki nógu þroskuð fyrir svona gjörning. Tónlistin var örugglega ágæt en maður tók ekki eftir henni því maður var bara að glápa á konuna með vínberin og að vona að kallinn færi líka úr fötunum. Ég kenni Moses Hightower um það. Við löbbuðum út eftir  3 lög. 

 

Við vissum ekkert hvað við áttum að gera af okkur þannig að við ákváðum að labba á Húrra til að sjá Skvab eins og ég kýs að kalla hann. Eftir að hafa staðið í röð í 15 mínútur ákváðum við að gefa skít í þetta og beint inn á Nonna í hlýjuna. Þar með var kvöldið búið.

 

 

Band kvöldsins: Dusty og Moses verða að vera jafnir, get ekki gert upp á milli þeirra.

 

Lag kvöldsins: Háa c með Moses og lagið með Dusty sem er með skrítnum takti og ég veit ekki hvað heitir.

 


Airwaves dagur 2

Við byrjuðum kvöldið í Hörpu til að sjá sænsku söngkonuna Alice Boman. Voða hugljúf og róleg tónlist, heldur of rólegt fyrir minn smekk og lítið að gerast. Hún er voða krútt og með fallega rödd en við þraukuðum bara inni í nokkur lög. 

 

Næsta sem við ætluðum að sjá var hljómsveitin Ylja, en á milli var eitt band sem við vissum ekkert um og sem betur fer ákváðum við að hlusta á það. Það var söngkonan Emilie Nicolas og ég hef bara aldrei vitað annað eins. Ég á erfitt með að tjá mig um þetta því þetta var svo rosalegt. Einir bestu tónleikar sem ég hef séð. Það var allt fullkomið, hljóðið, stemningin, tónlistin, ljósin…bara vávává. Ég held ég kunni ekki nógu flott orð til að koma þessu til skila.  En annars er þetta eitthvað svona elektrópop með smá soul og RnB fýling, pung og attitude. Í fyrra missti ég mig yfir Eivöru Páls og valdinu sem hún hefur á sinni rödd en Emilie Nicolas er enginn eftirbátur. Rosalegt raddsvið sem hún hefur og hvergi feilnóta. Ég fékk gæsahúð í mörgum lögum og í síðasta laginu sem var í rauninni bara eitt build upp þá komu tárin, ég elska það þegar tónlist nær að snerta mann þannig. Besta tilfinning í heimi.

 

Eftir þessa drottningu steig Ylja á svið. Frá því ég sá þær fyrst hef ég verið rosalega skotin í þeim, tvær stelpur með ofsalega fallegar raddir sem hljóma svo vel saman. Nú hefur hljómsveitin breyst mikið og ég hef ekki séð þær í þessari nýju útgáfu. Það er kominn trommari, hljóðborðsleikari, gítarleikari og bassaleikari með þeim og fyrir eru þær báðar á gítar. Ég var búin að hlakka mikið til að sjá þær. Mér þykir skelfilega erfitt og sárt að segja þetta en ég varð fyrir vonbrigðum. Þær tvær eru góðar saman og bandið er hörkuflott en mér finnst blandan ekki góð. Það sem mér hefur alltaf fundist flottast við Ylju eru raddirnar þeirra og þær eiginlega týndust í öllu, ég veit ekki hvort það hafi verið mixið eða að ég hafi staðið á vitlausum stað í salnum. Tónlistin hefur líka breyst úr því að vera pjúra folk í eitthvað sem ég veit ekki hvernig á að skilgreina. Besta við þessa tónleika var þegar þær fóru af sviðinu og bandið tók instrumental kafla. Þá fyrst kom smá bros á mína, það var virkilega flottur kafli. 

 

Þá var förinni heitið á Gaukinn þar sem Dimma var að spila. Mér finnst Dimma alltaf vera mjög solid band og hef aldrei heyrt þá lélega, pjúra þungarokk. Hef lítið um tónleikana að segja annað en að ég hefði verið til í að heyra fleiri gömul lög, þeir tók eiginlega bara nýtt efni. En svo enduðu þeir auðvitað á Þungu krossi, við hötum það ekki. 

 

Eftir Dimmu fórum við hinu megin við götuna að sjá hljómsveit sem heitir Himbrimi á Fredriksen. Það var eiginlega frekar erfitt fyrir eyrun. Staðurinn er ekki gerður fyrir trommusett held ég. Bara steypa og stórir gluggar þannig að hljóðið frá simbölun var alveg skelfilegt. Nú hef ég aldrei starfað sem hljóðmaður og hef bara lært grunninn í hljóðblöndun en það fyrsta sem ég hefði gert væri að draga fyrir gluggana. Það er skelfilegt endurkast frá svona stórum gluggum og ég er nokkuð viss að það hefði dempast smá við það að draga fyrir. Það gæti vel verið að ég sé að tala út um rassgatið á mér, ef svo er þá bara sorrí. Tónlistin greip mig ekkert rosalega nema kannski þriðja lagið sem þau tóku sem var með fáránlegum takti. En ég ætla klárlega að gefa þeim annan séns og sjá þau aftur, en ekki á þessum stað. 

 

 

Band kvöldsins: Emilie Nicolas

 

Lag kvöldsins: Þar sem ég veit ekki hvað síðasta lagið sem hún tók heitir ætla ég að velja lagið Fail með Emilie Nicolas

 

Airwaves dagur 1

 

Kvöldið byrjaði í Gamla bíó þar sem við ætluðum að sjá hljómsveitina Vök. Ég man hvar ég var þegar ég heyrði fyrst lag með þeim. Ég var ég að labba úr vinnunni til að taka strætó heim, hlustandi á xið og heyrði þá lagið Ég bíð þín sem er alveg yndislegt lag. Þrátt fyrir elektrónísk element sem ég er almennt ekki mikið fyrir greip laglínan og söngkonan mig strax. Það er alltaf jafn magnað að muna eftir stað og stund þegar maður heyrir lög fyrst og ég held að þegar það gerist nái maður einhverri sérstakri tengingu. En hvað um það. Tónleikarnir voru sem áður sagði í Gamla bíó þar sem nýbúið er að taka allt í gegn. Ég hef aldrei séð Vök spila áður og var dálítið hrædd um að söngkonan væri kannski ekki jafn góð live og hún er á lögunum þeirra en ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum. Það var líka skemmtilgt að sjá hvað saxafónninn spilaði stórt hlutverk, ekki bara sóló hér og þar. Hljóðið var mjög gott, ég hefði samt viljað hafa örlítið hærra í söngkonunni á stöku stað. Hvað tónlistina varðar greip hún mig ekkert rosalega nema kannski síðustu tvö lögin. Ég var búin að bíða spennt eftir laginu mínu, var alveg viss um að þau myndu enda á því en það kom aldrei. Ég var pínu svekkt í sannleika sagt, en það kemur dagur eftir þennan dag.

 

Eftir Vök var ferðinni heitið á Gaukinn. Ein í hópnum var æst í að sjá dj flugvél og geimskip en röðin inn á Húrra þar sem hún var að spila náði næstum því á Bæjarins bestu þannig að við ákváðum að fara harðkjarna leiðina og beint inn á Gaukinn þar sem var engin röð. Þegar inn var komið voru Endless Dark að gera sig klára til að stíga á svið. Í fyrra spiluðu Endless Dark í Hörpu í allt of stórum sal sem var eiginlega frekar vandræðalegt en hljóðið var allavega gott. Nú er búið að snúa öllu við á Gauknum þannig að helmingurinn af áhorfendum þurfa að standa undir lofti sem er alltof lágt og drepur þar af leiðandi allt hljóð. Hljóðið þar sem við stóðum fyrst var alveg skelfilegt, fyrir utan að vera allt of hátt, en því nær sem við fórum batnaði það, enda hækkar loftið nær sviðinu. Hljómsveitin er rosalega öflug og mikill kraftur í þeim, mér fannst þeir samt betri í fyrra, held að þeir þurfi meira pláss enda 7 manna band. 

 

Ophidian I voru næstir á svið. Ég hef bara einu sinni séð þá áður sem var á Eistnaflugi fyrir tveimur árum. Ég er voða lítið inn í teknísku dauðametalsenunni og bjóst ekkert endilega við að staldra við alla tónleikana en þeir gripu mig strax. Maður er alltaf á tánum því það er alltaf eitthvað nýtt að gerast, taktbreytingar, stopp hér og þar, kaflaskil og rödduð gítarsóló. Og ég spyr hvað er betra en raddað gítarsóló? Þetta heitir pottþétt ekki raddað gítarsóló, en þið vitið hvað ég meina. Þeir gefa frá sér gífurlega orku, eru þéttir og vel spilandi. Bassaleikarinn var með einhvern monster bassa, hálsinn jafn sver og lærið á mér, eða svo gott sem. Mér sýndist þeir vera komnir með nýjan trommuleikara sem átti ekki í neinum vandræðum með þetta, allt til fyrirmyndar. Skelfilega gott band og komu mér á óvart og ég kom sjálfri mér líka dálítið á óvart að fýla þá jafn vel og ég gerði. Þegar ég heyri eitthvað gott kemur ósjálfrátt einhver fáránlegur svipur á mig sem er blanda af brosi og grettu og þið getið séð á mynd hérna til hliðar. Þessi svipur lét sjá sig nokkrum sinnum yfir þessari hljómsveit.

 

Næst var ferðinni heitið í Hörpu en þar ætlaði ég að sjá Leaves og var búin að hlakka mikið til. Því miður var Ásgeir Trausti að byrja á sama tíma þannig að röðin var svakaleg. Það sá ekki fyrir endann á henni, reyndar var ég ekki með gleraugun þannig að ég býst við að hún hafi endað einhversstaðar en við allavega nenntum ekki að bíða. Við fórum því aftur á Gaukinn þar sem Svartidauði var að spila. Þetta fannst mér ekki skemmtilegt, hreint ekki skammtilegt bara. Ég sat í fýlu út í horni alvarlega að íhuga að draga upp prjónana sem ég var með í veskinu. Vinkona mín sagðist vera alveg dolfallin og að þetta hafi verið algjör hápunktur kvöldsins. Er ekki frábært hvað við erum öll misjöfn. 

 

Ég ákvað að hætta í fýlu og stóð upp til að sjá næsta band sem var Momentum. Ég labbaði út af tónleikum með þeim á Eistnaflugi einhvertíman, en ég gef alltaf nokkra sénsa þannig að þeir eiga alveg inni hjá mér. Mikið skelfilega var ég ánægð með að hafa gefið þeim annan séns. Þeir komu mér á óvart. Á feisbúkk síðunni sinni kalla þeir sig psychedelic - progressive - doom, þannig að ég fýla þá 2/3. Er ekki mikil doom kona. En ég heyrði mikla prógressív í tónlistinni sem er alltaf jákvætt. Spila mikið í 7/8 ef ég hef verið að telja rétt sem er pjúra prog og þeir fá gríðarlegt hrós fyrir að ná að radda í öllum þessum látum. Síðan var líka hljómborð þarna sem setti skemmtilegan blæ á tónlistina, þó svo að mér hafi það ekki alltaf fundist passa. Flottur söngur og flott growl. Ég fékk á tímabili smá Pain of salvation fýling, sem er fjandi fínt. Gaman líka að sjá hvað Mac úr It's always sunny þáttunum er góður á gítar

 

Síðastir á svið voru Koninuum sem hafa verið mikið spilaðir í útvarpinu upp á síðkastið, allvega eitt lag með þeim, Í Huldusal. Þeir náðu ekki að heilla mig neitt gríðarlega, nema þegar þeir tóku einmitt þetta lag. Þetta er hryllilega gott lag og þá sérstaklega instrumental parturinn sem byrjar um mitt lagið, algjört nammi. Ég mun gefa þeim annan séns, alveg hiklaust. 

 

Það er augljóst að Airwaves 2014 byrjar af krafti og ég get ekki beðið eftir meiru. Þar sem gærkvöldið einkenndist af hinum ýmsum metal tegundum ætla ég að pósta hérna eina ferðina enn lokaverkefninu mínu sem ég gerði í HÍ, sem var stuttmynd um dauðarokk.

 

Band kvöldsins: Ophidian I

Lag kvöldsins: þriðja síðasta lagið hjá Momentum, veit ekkert hvað það heitir

Pirringur kvöldsins: Að missa af Leaves

 

 


Eistnaflug 2014


Við vinkonurnar rúlluðum inn í Neskaupstað fimmtudaginn 10. júlí í algjörri bongóblíðu. Fallegi fjörðurinn skartaði sínu fegursta eins og við var að búast. Þriðja árið í röð vorum við mættar. Eistnaflug er eins og Pringles, einu sinni smakkað þú getur ekki hætt. Fyrsta kvöldið var ekkert mikið á dagskránni sem okkur langaði að sjá þannig að við gátum sötrað bjór á pallinum hjá frábærum gestgjöfum fram eftir kvöldi. Við lögðum svo af stað niðrí Egilsbúð þar sem fyrir nokkrum árum voru haldnir minningartónleikar um pabba. Sá dagur mun aldrei gleymast. 
 
Sign: Ég held að ég hafi ekki séð Sign síðan á 17. júní 2005 eða 2006. Ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum. Gífurlega flott hljómsveit, þéttir og kraftmiklir. Söngvarinn náttúrulega drullugóður. Það eina sem mér fannst var að þarna vor nokkur gítarsóló sem hefðu mátt missa sig. Úti á túninu eftir tónleikana voru flestir sem ég talað við alveg í skýjunum með tónleikana. Ég er ennþá með Thank god for silence á heilanum. 
 
Brain Police: Ég nenni varla að segja mikið um þá tónleika. Ég hef svo oft skrifað hér um það hversu mikið ég elska þá og ætla bara að segja sem minnst. Ég elska þá svo mikið að ég held að ég sé hreinlega ófær um að segja hvort þeir hafi verið góðir eða slæmir. 
 
Við sáum ekki meira fyrsta kvöldið og annað en margir hátíðargestir fórum við inn í herbergið okkar, skriðum upp í risarúm og fórum að sofa. Það var ágætt því morguninn eftir heyrðum við sögur af fólki í rennandi blautum svefnpokum. Það er gott að vera prinsessa.
 
Á föstudeginum byrjuðum við á því að fara í sund og svo beint heim að kúra til að safna smá kröftum fyrir rosalegt line up það kvöldið.
 
Agent Fresco: Við pirruðum okkur dálítið á því að Agent Fresco væru svona snemma á ferðinni en þeir byrjuðu klukkan hálf sjö. Ég dýrka Agent Fresco og hef alltaf gert en því miður hafa þeir átt betri daga. Einhversstaðar las ég að þeir hefðu ekki spilað í 8 eða 9 mánuði og því miður fannst mér það heyrast. Söngvarinn er stórkostlegur þegar hann á góða daga, en hann var lengi að koma sér í gang og var frekar falskur í fyrstu lögunum. Ég veit ekki hvort það hafi verið sándið eða tónlistin en mér fannst þetta bara alls ekki vera að gera sig. Mér fannst hljóðfærin öll vera í hrúgu í mixinu og ég sem þekki lang flest lögin þeirra áttaði mig ekki fyrr en mjög seint í lögunum hvaða lag þeir væru að taka. Kannski er þetta bara ég því margir aðrar sögðu þá hafa verið mjög góða. Það besta við tónleikana var eitt rosalegast rokkörskur sem ég hef heyrt sem söngvarinn tók fyrir síðasta lagið. Algjört nammi. Síðan er reyndar alltaf gaman að sjá þá spila því þeir elska það sem þeir gera og það sést langar leiðir. 
 
Dimma: Það var í raun ágætt að Agent Fresco hafi byrjað svona snemma því við gátum farið á Pizzafjörð og fengið okkur bestu pizzur á landinu og þó víðar væri leitað fyrir næsta band. Það er nú bara þannig að Dimma er ein af flottustu hlómsveitum á landinu með besta söngvarann. Hef lítið um þessa tónleika að segja annað en að þeir voru rosalegir. 
 
The Vintage Caravan: Ég hef alltaf fýlað þessa peyja og þeir voru mjög góðir. Mér finnst ég samt hafa séð þá betri. Eitt sem pirraði mig gríðarlega við þessa tónleika var að það hljómaði einhver leiðinleg tíðni helminginn af tónleikunum. Það var eins og einhver stæði á sviðinu og blési stanslaust i fremsta partinn af blokkflautu. Ég er ekki viss hvaðan þetta kom en ætla að skjóta á snerilinn. Það er ógeðslega gaman að horfa á þá spila og þá sérstaklega bassaleikarann sem brosir alltaf hringinn. Söngvarinn tók svo sama atriði og hann gerði í fyrra þegar hann crowd surfaði á gúmmíbát, sem var stórkostlegt. 
 
Sólstafir: Fyrir hverja tónleika með Sólstöfum segi ég við vinkonurnar að nú ætli ég að komast í gegnum heila tónleika þannig að ég viti um hvað málið snúist. Ég reyndi eins og ég gat en þraukaði bara í einhver 3 lög eða svo. Þetta er bara ekki fyrir mig, þetta er of rólegt og þungt sem meikar kannski lítið sens en ég get ekki útskýrt það betur. Auðvitað eiga þeir nokkur góð lög sem ég fýla en inn á milli koma kaflar sem er alltof langir og lítið að gerast. Ég var trúlega eina á svæðinu sem gekk út af þessum tónleikum, ég er kannski bara ekki með nógu þroskaðan tónlistarsmekk. Ég fór því beint í búðina og keypti mér Brain Police bol og þegar ég kom til baka var Stebbi í Dimmu kominn á sviðið með þeim sem var mjög skemmtilegt. Finnst voða gaman að fá smá mix. 
 
Skálmöld: Já þeir eru bara geggjaðir það er lítið annað hægt að segja en það. Ég sá þá síðast í Borgarleikhúsinu sem var frábær skemmtun. Ég vona innilega að þeir taki nýjustu plötuna líka í þeim búning. Þeir voru með nýjann trommara þar sem trommarinn þeirra var nýbúinn í aðgerð en það kom ekki að sök. Allavega tók ég ekki eftir því. Þeir tóku nokkur ný lög sem að ég var ekki að fýla. Þau voru ekki jafn melódísk og grípandi eins og mörg lögin þeirra. Það er kannski ný stefna hjá þeim. Allavega veit ég um marga sem fýla þá ekki einmitt vegna þess að þeir eru of grípandi á köflum. Skálmöld nær líka alltaf að toppa stemninguna í Egilsbúð, það tryllast allir og syngja með. 
 
Á laugardeginum byrjuðum við á því að fara á Pizzafjörð og fá okkur Skarðið. En ekki hvað. Við erum að tala um pepperoni, rjómaost, sveppi og beikon. Fokk mí hvað þetta eru góðar pizzur.
 
Benny Crespo's Gang: Það er sömu sögu að segja með Benny og Sign að ég hafði ekki séð þau síðan 17. júní 2005 eða 2006. Þá var ég mikill aðdáandi og átti plötuna og allt. Þau voru hins vegar ekki neitt eins og í minningunni. Lögin voru frekar leiðinleg og allt of artí fyrir minn smekk. Það var eins og söngvararnir væru sjaldnast að syngja sama lagið og já þetta var bara frekar einkennilegt. Reyndar var þriðja lagið sem þau tóku alveg geggjað og ég brosti og allt (það gerist þegar ég heyri eitthvað gott). Ætli það hafi ekki verið lagið Next Weekend.
 
nas Sig og Ritvélar Framtíðarinnar: Ég var dálítið efins um á Jónas Sig ætti heima á Eistnaflugi. Þó að ég hafi alltaf fýla þetta band var ég ekki viss um að þetta myndi passa þarna. Ég hefði betur látið þessar efasemdir eiga sig því þetta voru geðveikir tónleikar og stemningin ekki síðri. Ég hef ekkert út á tónleikana að segja nema hljóðlega séð. Að mínu mati hefði mátt vera hærra í Jónasi og líka í brassinu. Síðan fannst mér snerillinn leiðinlega mixaður. Mér heyrðist þetta vera eitthvað geitað reverb sem passaði ekki alveg við afganginn af tónlistinni. Bara svo að það sé á hreinu þá kann ég ekkert að mixa trommur en er voða flink að drulla yfir það. Mér finnst alltaf gaman að blásturshljóðfærum og ég tók sérstaklega eftir góðri dínamík, spiluðu lágt þagar það þurfti og hátt þegar það átti við. Samt hefði átt að vera meira af þeim í mixinu. 
 
Mammút: Ég get ekki ákveðið mig hvort ég sé aðdáandi eða ekki. Hef séð þau nokkrum sinnum og er alltaf 50/50. Þessir tónleikar voru ekkert öðruvísi. Fyrstu 4 lögin voru skelfilega leiðinleg og ég var við það að labba út en ákvað að þrauka sem var ágætt því síðustu 3 voru hrikalega góð.  
 
Þá var aftur haldið á Pizzafjörð og fengið sér Skarðið og hlaðið í sig kolvetnum fyrir næsta band.
 
Maus: Ég veit ekki af hverju ég hef aldrei gefið mér tíma í að hlusta á Maus af einhverju ráði. Auðvitað hefur maður heyrt flest þessara laga oft og mörgum sinnum en ég hef aldrei átt Maus plötu. Ég held að nú verði breyting á, því ég var gjörsamlega dolfallin eftir þessa tónleika. Þeir tóku hvert flotta lagið á fætur öðru en flottasta lagið fannst mér vera Musick. Vávává, ég var alveg búin að gleyma þessu lagi. Gríðarlega flott lag. Ég er búin að hlusta á þetta lag nokkrum sinnum síðan ég kom heim og þetta er nýjasta uppáhalds lagið mitt. Ég hef sagt það áður að ég er oft pinku seinþroska þegar kemur að tónlist. Ég er samt dálítið sár því að á meðan þeir spiluðu þetta lag tók trommarinn svo geðbilað trommufill að ég var næstum köfnuð á strumpanamminu mínu sem ég hafði keypt mér fyrr um daginn af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Ég heyri þetta trommufill ekki í laginu núna og vil endilega að þetta verði tekið upp aftur, takk fyrir. 
 
HAM: Jájá hvað get ég sagt. Það að háttvirtir alþingismenn og borgarfulltrúar syngi um dauða hóru er náttúrulega bara fyndið og frekar súrrealískt. En nei þetta er ekki mín tónlist og mér er drullusama þó að ég tapi öllum rokkprikunum mínum fyrir það (enda á ég ekki mörg eftir). Við hlustum á fyrstu 3 eða 4 lögin og löbbuðum þá bara út í rigninguna. Fengum okkur svo engifer, chilli mohito inn á Hótel Hildibrand sem var gríðarlega góður og fín tilbreyting frá bjórþambi.

Retro Stefson: Ef ég hafði efasemdir um Jónas Sig þá voru þær margfaldar fyrir þessa tónleika. Retro Stefson myndi aldrei ná að mynda stemningu á Eistnaflugi hjá pungsveittum, síðhærðum rokkurum. Þetta voru hins vegar þeir rosalegustu tónleikar sem ég hef séð á Eistnaflugi hvað stemningu varðar. Ég hélt á tímabili að húsið myndi hreinlega hrynja. Ég hef alltaf kunnað ágætlega við þetta band, kannski aðeins og hresst á köflum fyrir minn smekk en þau voru alveg æðisleg. Fyrsta lagið sem þau tóku var instrumental að mig minnir og ég vil endilega að einhver segi mér hvað þetta lag heitir. Sjúklega flott lag og minnti á Boston, Kansas, Journey, Asiu veislu. Algjört nammi. Það var líka gaman að sjá þegar Stebbi Eistnaflug crowd surfaði á gúmmíbátnum með söngvaranum.
 
 
Þetta átti að vera síðasta Eistnaflugið mitt, enda var ég að fara 3ja árið í röð. En ég get ekki endað þetta á svona rigninga Eistnaflugi þannig að ég mæti aftur að ári. Til hamingju með 10 árin og takk fyrir frábæra veislu. Þið eruð æðisleg !!!  
 

 

Nammigóð frumraun Dusty Miller

 

Það var mikið að þessi blessaða plata kom út. Ég er búin að fylgjast með þessari hljómsveit í þó nokkurn tíma. Sá þau fyrst í kjallaranum á 11unni og varð strax ástfangin. Þetta er eitthvað nýtt, en samt svo gamalt með mikla sál. Fyrir nokkru bloggaði ég um það að Endless Dark væri trúlega vanmetnasta band landsins. Ég held ég verði að taka það til baka og segja að Dusty Miller sé vanmetnasta bandið. Síðast sá ég hljómsveitina á Rósenberg og það voru kannski 5 í salnum, það er skandall. Ég er búin að bíða eftir plötunni síðan 2012 þegar hún var tilbúin. Síðan var mér sagt að hún væri komin í búðir í nóvember og ég arka inn í allar plötubúðir oftar en einu sinni og spyr eftir plötunni. En nei hún var ekki komin (þá hafði verið einhver seinkun). Ég var reyndar spurð í Skífunni hvort ég væri að tala um Dusty Springfield… Þið getið því rétt svo ýmindað ykkur hamingjuna að fá loksins gripinn í hendurnar einhverri viku seinna. En leggjum við hlustir:

 

 

1. Itch my scratch.  Lagið byrjar á alltof löngu feid inni. Hálf helvítis mínúta sem er algjörlega óþarfi og maður þarf alltaf kíkja og athuga hvort maður hafi ekki örugglega ýtt á play. Bara byrja stuðið strax, það hef ég alltaf sagt. Ég er nú ekki mikil textakona en ég staldraði aðeins við þessa skemmtilegu línu: ,,What I want is just to see what you've got, dressed the way you came into this world" pinku sexý. Frábærar raddanir í viðlaginu og flott brú sem dettur inn alveg óvænt og fær mann til að brosa. Brúin minnir um margt á Steely Dan og ég held að hrósin verði ekki stærri en það. Gjörsamlega áreynslulaust rennur svo brúin út og lagið byrjar aftur. Svo verður tempóið hraðara þangað til að það dettur niður í einhvern mjúkan fýling með bongó og tilheyrandi kósýheitum þangað til það deyr út.  

 

2. I'm bad news. Byrjar á sælgætisbassa og svo læðast með ýmis skemmtileg synthahljóð og flottur gítar. Síðan kemur söngurinn inn og ég hef haldrei heyrt neitt jafn smooth og þegar hann syngur ,,the whole day through…" Það verður að segjast eins og er að ég held að synthinn sé dálítið stjarnan í þessu lagi. Öll aukahljóðin og synthinn á bakvið viðlagið gera mjög mikið fyrir lagið og fylla vel upp í það. Nammi rim shot (veit ekki hvað það heitir þegar það er slegið á kantinn á snerlinum)  og þétt og snörp sneriltromma. Flottur bassi og gítar og gaman að bongó.

 

3. What a life it's been. Voðalega hugljúft lag. Frábært sánd í því sem ég hélt fyrst að væri gítar en svo hélt ég að þetta væri banjó. Fróðir menn segja mér hins vegar að þetta sé hljóðfæri sem heitir dobro. Hljómar allavega eins og ef að gítar og banjó myndu eignast barn. Brakið í strengjunum er yndislegt. Síðan koma trommurnar inn með þéttri og flottri sneriltrommu. Smooth gítarsóló.  

 

4. Shake! Þarna kemur feid inn sem á rétt á sér og virkar vel. Mér finnst dálítið skrítið við þetta lag að mér finnst það byrja á endakafla, get ekki útskýrt hvað það er. Mikið stuð og ef maður nær ekki að dilla sér við þetta lag þá er eitthvað mikið að. Frábært brass og yndislegt hljómborðs/hammond sóló. Eftir mesta hamaganginn dettur lagið svo niðrí einhvern mjúkan blús, frábær lagskipting og flottur endir. 

 

5. Do it yourself. Mér fannst þetta lag hundleiðinlegt fyrst, og fannst það eiga heima í einhverri svart/hvítri drakúla mynd. En síðan fór ég að reyna að einblýna á það sem mér líkaði í laginu og þá batnar lagið til muna. Til dæmis þegar þau syngja ,,time you know" ekkert slor röddun í gangi þar, enda engar slor bakraddasöngkonur. Að mínu mati mættu bakraddirnar fá meira svæði og bara hækka í þeim. Hammond línan í endanum pirrar mig smá vegna þess að ég hugsa alltaf um July Morning með Uriah heep þegar ég hlusta þannig að það hlýtur að svipa eitthvað til þeirrar línu. Útsetningin á þessum endakafla er góð en línan mætti vera önnur. Þetta lag stingur í stúf við hin lögin og hljómsveitin tekur smá áhættu á að stinga þessu lagi þarna.

 

6. Only love remains.  Indælt. Hvað er betra en bursta trommur. Fínasta brass og almenn kósíheit í þessu lagi. Rennur ljúflega niður, lítið meira hægt að segja. 

 

7. Don't let your song go to waste. Gott intro. Flottur gítar, skemmtileg blæbrigði í röddinni. Flottur texti ,,don't let your song go to waist.‘‘ Ótrúlega flott og ruglandi sóló. Fyrst var ég á því að þetta væri hljómborðssóló en síðan hlustaði ég á þetta betur og held að þetta sé gítar með einhverju mixi af fínum effectum, en flott er það sama hvað það er. Stórkostlegar raddanir í ,,..did it hurt….‘‘. Spes en skemmtilegt fade out. 

 

8.  Give'em Love. Nammi hljómborðssóló. Flott stuttu pásurnar á milli erinda og viðlagsins. Flottur bassi. 

 

9. For a while. Þetta er drullusexý lag. Það er eitthvað við svona rim shot með flottu reverbi sem ég fæ bara gæsahúð af. Reyndar er textinn líka mjög flottur og það er eitthvað skemmtilegt ryð í röddinni hans í þessu lagi.  Alls konar flott aukahljóð sem fylla upp í og virka vel. Skemmtilegt syntha sóló undir lokinn. Hallærislegt sánd en það virkar samt og verður bara flott. 

 

10. X. Stórkostlegt instrumental lag. Lagið er eitt magnað build up. Lagið er einföld en gífurlaga falleg lína spiluð aftur aftur. Alltaf bætast svo fleiri og fleiri hljóðfæri við…ég er mikill sökker fyrir flottu build uppi og táraðist alltaf þegar ég hlustaði á þetta lag fyrst, en nú er ég orðin svakalega hard core og get hlustað á þetta án þess að fara að grenja. Dugleg.   

 

 

Þetta er alveg glæsileg plata og flott frumraum hjá þessum snillingum. Ég hef fylgst með Ella söngvara frá því 2006, þegar hann söng í prog rokk/metal bandinu Perlu sem var og hét ( ég held reyndar enn í vonina að þeir gefi út plötu). En hvað um það, þá hefur Elli þroskast gríðarlega sem söngvari. Hann hefur meira vald á röddinni, er með skemmtilegan tón sem sker sig úr og hikar ekki við að nota ýmis blæbrigði. Hann syngur líka með mikilli innlifun og tilfinningu sem skilar sér á plötunni,

 

Allur hljóðfæraleikur sem og bakraddir á plötunni er til fyrirmyndar og á háum standard. Mér skildist á meðlimum að það væri erfitt að koma lögum af plötunni í spilun í útvarpi og ég hef aldrei heyrt aðra eins þvælu. Þetta er svo yfirgengilega áheyrileg tónlist og ég get ekki ímyndað mér marga sem myndu ekki fýla þetta. 

  

Við fyrstu hlustun var ég staðráðin í að gefa plötunni 5 stjörnur. En því oftar sem ég hlustaði fannst mér nokkur lög sem eru í rólegri kantinum vera dálítið keimlík. Einnig finnst mér drakúla lagið ekki neitt ofsalega skemmtilegt. Það sem hafði líka áhrif á að ég ákvað að lækka stjörnugjöfina var það að ég er búin að heyra nokkur ný lög frá þeim og þau eru hreinlega á öðrum standard og ég hef ákveðið að geyma þessa hálfa stjörnu þangað til að næsta plata kemur út, engin pressa samt :)

 

4,5 stjörnur

 

 

 

Dusty Miller verður með útgáfutónleika í Tjarnarbíó núna á laugardaginn klukkan 21 og mæli ég með að allir tónlistarunnendur kíki á þessa stórgóðu hljómsveit. Ég kemst ekki vegna fáránlegrar íþróttaiðkunar norður á landi og er jafn vonsvikin yfir því og ég var yfir því að hafa setið á kamrinum þegar Metallica byrjuðu á Nothing else matters á Werchter hér um árið. En í guðanna bænum ekki missa af þessum tónleikum og ég mæli með að þið gerið þarfir ykkar áður en þið farið því þið viljið ekki missa af neinu. 

 

50% ástarbréf til Emilíönu Torrini


Emilíana Torrini er lengi búin að vera uppáhalds íslenska tónlistarkonan mín. Allt sem þessi kona gerir þykir mér vera gull. Platan Fisherman's woman frá árinu 2004 er næstum gufuð upp því ég hlustaði svo mikið á hana þegar hún kom út. Ég man einmitt hvar ég var þegar ég heyrði fyrst lag af þeirri plötu. Þá var ég að vinna á gistiheimili og eyrun spertust upp eins og á hundi þegar ég heyrði lag af henni í útvarpinu. Lögin á þeirri plötu þykja mér vera hvert öðru fallegra en undirtónninn er mjög sorglegur. Síðan kom platan Me and Armini sem mér þykir líka mjög góð en hún hafði ekki alveg sömu áhrif á mig. Ég hef bara einu sinni séð drottninguna spila en er svo þakklát fyrir að hafa séð hana þar sem ég sá hana. Það er á flottasta tónleikastað sem ég hef farið á. Það er gömul kirkja í Amsterdam sem heitir núna Paradiso. Þar sá ég líka Tuin brakes, og Elbow og ég mæli eindregið með að fara á tónleika þar ef þið eigið ferð til Amsterdam. En hvað um það. Undirtónninn á þeirri plötu (me and Armini) er hressari og meira upbeat og mun meira að gerast í lögunum flestum en á plötunni á undan. Síðan er það Tookah. 


Mér leist nú ekkert á blikuna þegar fyrsta lagið af plötunni fór að hljóma, mér fannst það of elektrónískt og ég er ekki mikill talsmaður þess. En ég ákvað nú samt að gefa henni séns. Því auðvitað þróa tónlistarmenn smekkinn sinn með árunum og ég verð víst bara að taka því. 


1. Tookah: Þetta lag bara virkar. Flottur taktur, flottur gítar, skemmtileg pródúsering á röddinni hennar. Flott byrjunarlag. 


2. Caterpillar: Þetta lag byrjar líka á einhverjum syntha. Síðan koma undurfagrir gítarhljómar og flottur bassi inn. Þetta lag gæti vel átt heima Fisherman's Woman. Voðalega falleg melódía og tært gítarsánd með allskonar flottu á bakvið. 


3. Autumn sun: Þetta er annað ofsalega hugljúft lag. Manni finnst maður bara sitja fyrir framan gítarleikarann og Emilíönu meðan þau spila þetta því þetta er svo tært og gítarinn er næstum jafn framarlega í mixinu og söngurinn sem er skemmtilegt. Lítið reverb á söngnum og í staðinn er hann tvöfaldaður undir lokinn sem mýkir hann upp og bara ég á ekki til orð. Þetta er frábært. Mér þykir þetta líka frábærlega vel pródúserað lag. Ég er dálítill raddana fýkill og hefði helst viljað radda allt þetta lag. En það er á pinku litlum kafla sem söngurinn er raddaður sem gerir það miklu flottara fyrir vikið, ,,..couldn't do us any harm…..‘‘ tékkið á því þegar röddin kemur inn, algjört nammi. Mér finnst líka alltaf gaman við mörg lögin hennar þegar það heyrist þrusk inn á milli erinda eða einhversstaðar sem gerir tónlistina mannlegri og svona meira rustic eða hvað maður á að kalla þetta. 


4. Home: Byrjar hressilega, mikið að gerast. Voða repetetive lag fyrir utan smá breik sem dettur inn í einhvern rólegan mystic kafla. Hef lítið meira um lagið að segja, lala. 


5. Elisabet: Fallegt lag. Kannski aðeins og dramatískt fyrir minn smekk. Flott melódía. Það skemmtilegast við þetta lag fannst mér að syntharnir minntu mig í augnablik á þættina Nonna og Manna ef einhver man eftir þeim. Já ég var sko mikið Nonna og Manna nörd og horfði á þættina aftur og aftur og spilaði upphafslagið endalaust á þverflautuna. En þetta stef minnir mig ekki á upphafslagið í Nonna og Manna (eins og það lag var frábært), en það minnir mig á kaflann þegar Nonni datt í snjóholuna með hestinn sinn. 


6. Animal Games: Of mikið af elektrónískum hljóðum í byrjun…en síðan kemur bassi og gítar inn og þá fyrst verður þetta lag ágætt. Mikið að gerast allt lagið og síðan emur smá krúttlegur lokakafli með gítar. Lala segi ég.


7. Speed of dark: Þetta lag var það fyrsta sem var spilað í útvarpinu er ég nokkuð viss um. Eins og ég sagði þá leist mér ekkert á þetta lag fyrst, en þetta verður bara betra og betra með hverri hlustun og nú finnst mér þetta lag alveg stórgott. Þó að þetta sé voða elektrónískt…svona er maður skrítinn. Þetta lag bara virkar. 


8. Blood red: Æðislegt lag. Minnir mig á Fishermsan's woman. Voðalega rólegt og pjúr. Síðan veit maður ekki alveg hvort hún sé að syngja eða muldra erindið sem gerir þetta ennþá athyglisverðara. Síðan dettur inn þetta undurfagra viðlag þar sem fallega röddin hennar fær að njóta sín. Síðan kemur úúúú kafli sem er frábær. ÞAr sem tónlistin hækkar og hækkar og verður meiri og meiri og röddin fellur aftar og aftar og síðan bara búið. Nammi.


9. When fever breaks: Æjji nei takk. Væri ef til vill fínasta lag ef fyrri helmingurinn af laginu væri bara klipptur í burtu. 



Áhugaverð plata. 50% frábær og 50% lala. Dálítið mix af fyrri tveimur plötunum hennar sem er jákvætt. Að mínu mati mætti hún vera minna elektrónísk þó það virki vel á pörtum. En ég elska Emilíönu alveg jafn heitt. Hef ekki verið mikið að tjá ást mína á konum, en maður verður að byrja einhversstaðar :)



Airwaves - Dagur 4

 
Laugardagskvöldið var pakkað og sérstaklega af tónlist sem ég þekkti lítið sem ekkert. Fyrst var ferðinni heitið á Iðnó.

15. Þar var drottningin Eivör Pálsdóttir að spila með hljómsveit. Ég hef aldrei séð hana áður, en vissi alveg að hún væri góð en ekki svona góð! Lögin voru líka hressari en ég bjóst við. En mesta sjokkið var einfaldlega hversu gott vald hún hefur á röddinni. Ég er mjög krítísk á það þegar fólk syngur falskt, jafnvel þó það sé ekki nema ogguponsulítið og ég beið eftir því alla tónleikana að hún myndi klúðra einhverju. Ég stóð mig að því tvisvar að hrissta hausinn einfaldlega því ég trúði ekki að þetta væri að gerast. Konan syngur lengst upp á háa c eða væntanlega miklu hærra en það (er ekki nógu vel að mér í tónfræðinni) og heldur einhverjum hátíðnitón áður hún droppar fullkomleqa niður í einhvern lágan tón. Ég held hreinlega að ég hafi aldrei séð svona áður. Ef ég hefði verið með hatt hefði ég tekið að ofan fyrir drottningunni og hef ég ákveðið að kalla hana drottningu hér eftir. Við vorum fimm stelpur sem fórum saman á Eivöru og vorum allar nánast með tárin í augunum yfir því hversu stórkostlegir tónleikar þetta voru, mig langaði nú reyndar helst til að grenja af því tónleikarnir voru alltof stuttir.

16. Því næst röltum við á Gaukinn þar sem við horfðum á þrjú bönd. Fyrst var það Fears. Ég hafði aldrei heyrt um þessa hljómsveit áður né heyrt í henni, en þetta er stórflott band. Flottur söngvari og fín mússík, en það er bara alltaf sama helvítis sagan með Gaukinn, það er svo alltof fokking hátt þarna inni. Við vinkonurnar ákváðum að sitja á hliðarlínunni og sáum því hljómsveitina ekki. Eru allir löngu orðnir heyrnalausir sem vinna þarna? Ég bara skil þetta ekki andaskotinn hafi það, já ég er frekar pirruð yfir því að geta ekki farið á tónleika og notið þeirra. En ég mun klárlega skoða þetta band betur.

17. Sign voru næstir á svið sem ég var mjög spennt fyrir, enda ekki séð þá í mörg ár. Þeir voru mjög þéttir og góðir en aftur ákváðum við að sitja fyrir aftan vegg til að hlífa eyrunum aðeins.

18. Þá var komið að hljómsveitinni sem ég  hlakkaði mest til að sjá þetta kvöld, enda var okkur sagt að við hefðum misst af tónleikum ársins eftir að við misstum af Legend á Eistnaflugi. Ég hefði betur átt að gera mér örlítið minni væntingar því þá hefði ég farið glaðari út. Í fyrsta lagi var tónlistin súper há og bassinn svo mikill að ég hélt að lungun myndu falla saman eða augun skjótast úr höfuðkúpunni þegar þeir byrjuðu fyrst.  Ég færði mig svo aftar og aftar þangað til ég fór bara út og hlustaði þar. Síðan þegar frægasta lagið þeirra byrjaði fór ég aftur inn en hefði betur átt að vera bara úti. Hann var bara falskur allan tímann og bara blehh, aðeins of artí fyrir minn smekk. Ég væri samt til í að gefa þeim annan séns

19. Af Gauknum var rölt yfir í Þjóðleikhúskjallarann þar sem færeyska hljómsveitin/tónlistarmaðurinn Byrta sá um tónlistina. Ég held nú að tónlistin hafi ekki verið svo slæm en hljóðið var alls ekki gott. Reyndar stóðum við frekar aftarlega, má vel vera að hljóðið hafi verið betra framar. Ég er líka til í að gefa þeim annan séns. 

 20.-21.Við enduðum kvöldið svo í Hörpu þar sem við sáum Young Dreams og Jon Hopkins. Young Dreams er eitthvað sem vert er að fylgjast með, ansi hressandi popparar. Jon Hopkins hef ég ekki áhuga á að fylgjast með, enda verð ég seint talin áhugamanneskja um elktró danstónlist. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband