Airwaves - Dagur 3

Jájá ég held bara áfram að bomba hér inn Airwaves færslum og nú er komið að kvöldi 3. Að mínu mati var dagskráin þetta kvöld minnst spennandi af öllum kvöldunum, aðeins tvö bönd sem ég hlakkaði mikið til að sjá.


11. Samuel Jon Samuelsson big band. Að mínu mati er bara hreinlega allt sem hann Samúel kemur nálægt hreinasta gull og er þessi hljómsveit engin undantekning. Risa band og rosa kraftur sem skilaði sér út í sal. Ótrúlega skemmtileg tónlist og mikið dillað sér á þessum tónleikum. En hvað er að frétta af Jagúar? Það er að mín mati eitt besta band sem við höfum átt. En þetta band var reyndar stórgott og ég hlakka strax til að sjá þau aftur.


12. Næstur á svið var John Grant. Hann er heldur of rólegur fyrir minn smekk en ég var búin að hlakka til að heyra GMF og nýjasta lagið sem er í spilun í útvarpinu núna sem mér finnst stórgott. Einnig þykir mér lagið Marz ofsalega fallegt lag sem hann flutti ofsalega fallega. Hann er súper söngvari með djúpa og silkimjúka rödd sem hrífur mann og er með flotta spilara með sér. 


13. Eftir það var það Sýrlendingurinn Omar Souleyman. Ég var frekar svartsýn fyrir tónleikana og bjóst ekki við miklu en ég hefði betur átt að vera aðeins jákvæðari því stemningin á þessum tónleikum var sú besta af öllum tónleikunum sem ég sótti. Það var líka mjög súrrealísk stemning á sviðinu. Á sviðinu voru tveir gaurar. Dj-inn og svo Yasser Arafat…ég reyndar var ekki með gleraugun þannig að það gæti hafa verið einhver annar. En Arafat gerði fátt annað en að labba fram og til baka og líta á klukkuna, hann var greinilega að skemmta sér konunglega. En þrátt fyrir að hann virtist vera í tímaþröng þá virtust áhorfendur ekki kippa sér upp við það og dilluðu sér og hoppuðu. Að mínu mati var hvorki tónlistin né söngurinn upp á marga fiska, en maðurinn fær hrós fyrir að kunna að klappa. Allir voru að fýla hann nema ég, ég er greinilega ekki með nógu þróaðan tónlistarsmekk.   


14. Mestu vonbrigði kvöldsins var svo Aluna George. Ég var reyndar alveg pínu spennt (mínus rokk stig) fyrir laginu Attracting Flies sem var eina lagið sem ég hafði heyrt með henni. En æjji þetta var bara asnalegt, hún labbar út á svið í bleyju (eins og áður kom fram var ég ekki með gleraugun svo þetta gæti hafa verið eitthvað annað) og byrjar svo eitthvað að gaula. Hund leiðinleg lög og bara blehh, ég hafði ekki þolinmæði til að bíða eftir laginu mínu enda ekkert meistaraverk svo sem. Ég ætla ekki að kenna óþróuðum tónlistarsmekk um það að ég hafi ekki fýlað hana. Hún var bara leiðinleg. Punktur.

 

Ekki var það nú meira sem ég sá þetta kvöld. En á morgun blogga ég um kvöld 4 þar sem ég sá meðal annars drottninguna Eivöru Páls, Sign og Byrtu.  


Airwaves - Dagur 2 - Sóltíðir og Endless Hjaltalín

Kvöld númer 2 á Airwaves hátíðinni var bæði há punktur hátíðarinnar og lág punktur þegar á innan við 10 mínútum varð ég bæði fyrir stórkostlegustu tónleikaupplifun lífs míns sem og vandræðalegustu. Við byrjum kvöldið í Gamla Bíó.

 7. Árstíðir. Ég var að koma inn í Gamla Bíó í fyrsta skipti og varð alls ekki fyrir vonbriðum. Hljómburðurinn er frábær, meira að segja þó svo að ég hafi setið aftast á svölunum með lágt til lofts. Reyndar voru engar trommur í hljómsveitinni þannig að það gæti hafa haft einhver áhrif. Ég hef aldrei hlustað á þessa hljómsveit neitt að ráði jafnvel þó að ég eigi plötu með þeim. Ég bjóst við einhverjum nokkrum gítarleikurum og litlu öðru. En þarna voru þrír gítarleikarar (einn á baritón gítar var mér sagt eftir á) hljómborð, fiðla og uppáhaldshljóðfærið mitt, selló. Það sem þettar var fallegt! Leið og ég labbaði þarna inn hugsaði að kannski ætti ég að slökkva á símanum. En hugsaði svo, neinei það hringir hvort eð er aldrei neinn í mig. Síðan lögðu drengirnir hljóðfærin frá sér og sungu Heyr himna smiður eins og í vídjóinu sem allir voru að deila hérna fyrir ekki svo löngu. Ró og spekt færðist yfir áhorfendur og þeir byrja að syngja accapella. Byrjar þá ekki síminn minn að HRINGJA!!! Og það sem verra var, þá fann ekki helvítis símann. Það sem ég skammaðist mín og í biðst innilegrar afsökunar á þessu. 

Eftir að ég var búin að jafna mig á þessu símadrama þá náði ég aðeins að einbeyta mér aftur að tónleikunum og sem betur fer því á meðan þeir spiluðu lokalagið varð ég fyrir rosalegustu tónleikaupplifun sem ég hef lent í. Lagið sem þeir spiluðu heitir Shades. Krafturinn í laginu var svo mikill, allt var svo stórkostlegt og mikilfenglegt,  gæsahúðin mín var svo rosaleg og á tímabili hélt ég hreinlega að ég myndi fá fullnæginu. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef þeir hefðu spilað í nokkrar sekúndur lengur….vávávíva. Ég hef allavega aldrei lent í þessu áður og efast um að það muni gerast aftur..en það yrði samt gaman. 

8. Endless Dark.  Eftir Árstíðir lölluðum við í Hörpu og sáum Endless Dark. Ég mundi eftir að hafa séð þá áður á Keflavík Music Festival, en finnst ekki rétt að dæma þá út frá einhverju litlu tjaldi þar sem þeir voru að spila. Það sem ég tók frá tónleikunum þeirra í Hörpu er einfaldlega það hvort þeir séu ekki bara með vanmetnustu böndum á landinu. Þeir eru ólýsanlega góðir. Allur hljóðfæraleikur til fyrirmyndar, söngvarinn alveg pitch perfect, og hann var mest allan tímann að syngja upp á háa c, hinir söngvararnir/growlararnir voru líka mjög góðir og allur krafturinn á sviðinu var rosalegur! Salurinn var kannski eilítið of stór fyrir þá því hann var ekki einu sinni hálf fullur sem skapaði frekar sérkennilega stemningu. En ég var allavega dolfallin fyrir þessari hljómsveit. Tónlistin sem þeir spila er ekki mín uppáhalds, en hörkuflott hljómsveit. 

9. Hjaltalín. Ég tel mig hafa verið heppna því kynni mín af vasaþjófum eru lítil sem engin, en tvennu hefur verið stolið af mér og koma báðir þessir hlutir við sögu í þessari Airwaves bloggi mínu. Ég bjó í Amsterdam í 4 ár og var alltaf skítblankur námsmaður. Eftir skólann þegar ég fór að vinna á MTV og átti smá pening ætlaði ég sko aldeilis að gera vel við mig og vinkonu mína. Málið var það að Hjaltalín áttu að spila þar í borg og ég keypti tvo miða fyrir okkur. Við röltum svo á Paradiso þar sem tónleikarnir voru haldnir og við stóðum þó nokkuð lengi í röð. Þegar við fórum að nálgast innganginn ætlaði ég að ná í miðana til að hafa þá tilbúna. En viti menn! Engir voru miðarnir þar. Þannig að við röltum heim með skottið á milli lappanna. Peningaveskið mitt var á sínum stað, en miðarnir sem ég hafði látið í sérstakt hólf voru horfnir. Hversu súrrealískt er það? En hvað um það, þetta var smá útúrdúr. 

Ég er enginn úber Hjalatín aðdáandi en mig hefur alltaf langað til að sjá þau live eftir þetta bull þarna í Amsterdam. Mér varð að ósk minni og var bara þó nokkuð sátt. Tónlistin er oft á tíðum aðeins of arty fyrir minn smekk, en flott er hún. Síðan tóku þau Halo sem ég veit að eru skiptar skoðanir um, en það mátti allavega sjá tár á hvarmi hjá gömlu. Það sem hún Sigríður getur sungið, hún er algjört gotterí. 

 10. Sólstafir. Jæja þá er komið að úrslitaviðureigninni við Sólstafi. Ég var fyrir tónleikana ekki búin að gera það upp við mig hvort ég fýlaði þá eða ekki, þó svo að hafa séð þá oftar en fjórum sinnum held ég. Ég held að ég hafi aldrei gefið hljómsveit jafn marga sénsa. Ég ákvað því í eitt skipti fyrir öll að horfa á tónleikana frá upphafi til enda og taka þessa miklu ákvörðun. Ég held svei mér þá að Sólstafir hafi tapað. Mér bara finnst þetta ekki skemmtilegt, ég viðurkenni þó að það eru mjög flottir kaflar í lögunum og nokkur mjög góð lög eins og til dæmis Ljós í stormi. En mér finnst það ekki skila sér live. Mér verður örugglega bannað að fara á Eistnaflug næst, en ég smygla mér bara samt.  

Á morgun mun ég blogga um kvöd 3 þar sem ég sá meðal annars John Grant og Samuel Jon Samuelsson big band.  


Airwaves - Dagur 1


Já ég skal sko segja ykkur það. Nú er konan búin að prófa Airwaves. Elsku besta systir mín gaf mér miða á Airwaves í útskriftargjöf. Ég hafði aldrei farið áður, enda bjó ég í Amsterdam áður og var svo fátækur námsmaður. En það sem þetta er flott hátíð! Ég á bara ekki til orð, stórkostlegt alveg hreint. Næstu daga ætla ég að blogga um hátíðina og mína upplifun af þessari snilld. Þar sem ég er að skrifa þetta eftir á vona ég að ég sé ekki að gleyma neinu. Ég nenni ekki að henda þessu öllu inn í einu enda yrði það súper löng færsla og ég tek bara einn dag í einu eins og maðurinn sagði. 

 

1. Ylja. Ég var að sjá Ylju flokkinn í 3. eða 4. skipti og ég hata þau alltaf jafn mikið, eða réttara sagt hata að elska þau. Þetta eru tvær ótrúlega hæfileikaríkar stelpur sem spila á gítar og syngja eins og englar. Smá öfundsýki í gangi hérna megin. Síðan er slædari, bassi og slagverk. Það eru nú liðnir nokkrir mánuðir síðan ég sá þau síðast og það er ekkert lítið sem þeim fer fram og þá sérstaklega söngvurunum. Einnig eru þau farin að spreyta sig á enskunni og þá kveður við nýjan tón í tónlistinni. Tónlistin fer úr því að vera þjóðlagaskotin yfir í aðeins poppaðri stemningu á enskunni. Ágætis tilbreyting. 

  

2. 1860. Eftir Ylju steig hljómsveitin 1860 á svið. Ég var að sjá þá í fyrsta skipti live, fyrit utan nokkur lög á Októberfest HÍ einhvertímann. Þeir eru stórkostlegir og hvergi falskan tón að finna. Einnig eru þeir mjög hressir og fyndnir á sviði. 


3. Agent Fresco. Við færðum okkur svo um set og fórum í Listasafnið þar sem Agent Fresco voru að spila. Mig minnir að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem ég fer á tónleika í þessu húsi og ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Agent Fresco voru stórkostlegir eins og þeirra er von og vísa en hljómburðurinn í húsinu er alveg skelfilegur. Þetta er náttúrulega bara steyptur geymir og hann hlómar nákvæmlega þannig. Hljóðið skánaði þó aðeins því nær sem við fikruðum okkur enda ekki jafn mikið pláss fyrir hljóðið að skoppa af veggjunum áður en það kom til okkar. Hljóðið eyðilagði eiginlega mína upplifun af tónleikunum, en það er ekki við hljómsveitarmeðlimi að sakast því þeir eru alltaf flottir. Voða fínt að það eigi að rífa Nasa, enda heill hellingur af flottum tónleikastöðum í borginni okkar. Fokk off. 


4. Valdimar tóku við af Fresco og voru mjög góð. Það sem maðurinn getur sungið. Ég átti bágt með mig í laginu Um Stund. Það er bara eitthvað við þetta lag, hljómagangurinn eða eitthvað. Viðlagið dettur inn í tón sem maður býst ekki við (eða allavega ekki ég) og það er það sem fær mín hár til að rísa, þetta óvænta. Alveg undursamlegt lag. 


5. Mammút. Næst röltum við í Hörpu og hlustuðum á Mammút. Ég hef reyndar aldrei verið mikill aðdáandi, en finnst þessi tvö nýju lög sem eru  í spilun í útvarpinu stórgóð, Blóðberg og lagið Salt. ,,Stráðu á mig salti‘‘  eða eins og vinkona mín hélt að textinn væri ,,Klýndu á mig salti.‘‘ Flutningurinn var fullkomin en mér fannst eins og hljómsveitin týndist aðeins því salurinn er mjög stór og krafturinn var bara ekki nógu mikill. Það hefði bara held ég mátt hækka í græjunum (og það þarf mikið að gerast til að ég kvarti yfir því að eitthvað sé of lágt). 


6. Retro Stefson Við fórum svo yfir í næsta sal og dilluðum okkur aðeins við Retro Stefson eins og gengur og gerist. Þau voru ótrúlega flott og kraftmikil eins og þau eru vön. 


Sú ákvörðun að fara heim eftir Retro Stefson var ein af þeim erfiðari sem ég hef þurft að gera í lífinu (já þetta líf hefur kannski verið svolítill dans á rósum). En það var ákvörðunin að fara ekki á Emilíönu Torrini (ég er btw byrjuð að skrifa blogg um nýju plötuna hennar sem ég pósta eftir þetta Airwaves blogg fíaskó). En Emilíana Torrini hefur eiginlega alltaf verið ein af mínum allra uppáhalds íslensku tónlistarmönnum. En hverjum dettur í hug að hafa hennar tónleika eftir miðnætti á miðvikudagskvöldi! Sá maður eða kona hefur greinilega fengið eitthvað í hausinn því ég bara skil þetta ekki. Ég er vinnandi kona og þarf að mæta í vinnu á fimmtudegi! Andodinn! eins og hún amma mín myndi segja. En reyndar var þreyta farin að segja til sín og almennur bakverkur þannig að ég hugsaði að ég hefði ekki notið tónleikana að fullu hvort sem er og fyrst hún er flutt til landsins hlýtur konan að fara að spila eitthvað að ráði. Ég verð allavega fyrst til að kaupa miða á þá tónleika. 


En ég verð að segja að þetta fyrsta kvöld var eiginlega bara besta kvöldið í heildina á litið. Öll böndin ofsalega flott og ekkert leiðinlegt inn á milli. Enda allt íslensk bönd sem ég hef séð áður og þekki vel og mikið djöfulli eigum við mikið af flottu tónlistarfólki. Takk fyrir mig. 

 

Á morgun verður það kvöld 2 þar sem við sáum meðal annars Árstíðir, Endless Dark og Hjaltalín.  

 

 

 


Dásemdar gítarrúnk í Hörpu

 

Pabbi heitinn var duglegur að senda mér plötur frá Danmörku þegar ég var yngri og þá sérsteklaga plötur með hljómsveitum sem voru ekkert ofsalega vinsælar hér á landi og hvað þá meðal 16 ára unglingsstelpna. Þessar plötur voru með hjómsveitum á borð við Disneyland after dark, Dizzy miss Lizzy og meistara Steve Vai. Ég hlustaði á plöturnar Sex and religion og Fire garden fram og til baka á sínum tíma og var ofsalega hrifin af þeim. Þó ég hafi ekki hlustað á þessar plötur í mörg ár varð ég nú að sjá meistarann á sviði og keypti mér þess vegna miða á tónleika hans í Hörpu sem fóru fram í gær. Ef ég hefði ekki gert það hefði gamli væntanlega snúið sér við í gröfinni og ekki viljum við það. Ég rúllaði aðeins yfir þessar tvær plötur nokkrum dögum fyrir tónleikana og þær standa svo sannarlega fyrir sínu. 

 

Tónleikarnir voru haldnir í Silfurbergi í Hörpu sem ég held að hafi bara verið fín staðsetning. Þegar tónleikarnir byrjuðu fannst mér sándið frekar leiðinlegt, allt of mikill botn og mér fannst gítarinn eiginlega týnast. En hljóðið batnaði og var bara stórgott fannst mér, mér fannst reyndar mega vera hærra í bassanum, en að mínu mati mætti alltaf vera aðeins hærra í bassanum :) Ég var búin að búast við gæsahúð eftir gæsahúð og tárum en gæsahúðin kom aldrei. Auðvitað komu nokkur tár í Tender surrender, enda ég afskaplega tender kona. Einnig spratt fram tár á no time þegar Satriani barst til tals og þeir byrjuðu að spila Always with me always with you í djóki, bara í 5 sekúndur eða svo. Þrátt fyrir að gæsahúðin hafi aldrei komið voru tónleikarnir frábærir og Steve Vai afskaplega fyndinn gaur og skemmtilegt að fylgjast með honum. Bjóst við honum mjög þurrum og leiðinlegum, en hann var að skemmta áhorfendum sem var alveg frábært. Allir hljóðfæraleikararnir fengu sitt spotlight sem byrjaði með hinum gítarleikaranum sem var bilaður. Síðan fékk bassaleikarinn sitt slot og var sjúklega góður en ég hefði alveg viljað hlusta aðeins lengur á hann því hann fékk lítinn tíma. Trommarinn kom svo með eitt það allra besta trommusóló sem ég hef heyrt, enda kannski ekki heyrt mörg, en það var allavega gott.

 

Ég man aldre nöfn á lögum þannig að ég ætla ekkert að fara að þylja upp hvaða lög hann tók og mér fannst ekkert eitt lag neitt miklu betra en annað því þau voru öll mjög góð. En það voru ekki mörg lög sem ég hafði ekki heyrt, þannig að margt af þessu hlýtur að hafa verið af plötunum sem ég á. Þó að mér hafi ekki fundist neitt eitt lag flottast fannst mér rosalegt þegar Steve fór að spila á kassagítar, hef aldrei pælt í honum sem kassagítarleikara, en hann kann að káfa á strengjunum, það er nokkuð ljóst. Það var líka ótrúlega fyndið þegar hann skipti um föt í 3. eða 4. skiptið og kom svo aftur fram. Þá var búið að slökkva ljósin og hann kominn í einhvern geimbúning með ljósum sem skiptu um lit og með grímu sem einnig var upplýst. Auðvitað var gítarinn líka með einhverjum ljósum á og síðan var hann með leiser á hverjum putta. Frábær skemmtun :) 

 

Eins neikvæð og ég er verð ég líka að benda á pirrandi punkta. Ef að þið ætlið að fara að sjá svona magnaðann tónlistarmann drullið ykkur þá til að halda fokking kjafti. Afsakið orðbragðið. En þegar hinn gítarleikarinn fékk sitt spott (á kassagítar btw) þá voru einhverjar kellingar fyrir aftan okkur að tala og það ekki lágt. Hvernig vogið þið ykkur segi ég nú bara. Þetta var frábært lag hjá honum en maður gat ekki notið þess því einhverjar tussur (afsakið aftur orðbragðið, en ég verð brjáluð að hugsa um þetta) voru að tala um það hvort þær ætluðu á 11una eða á DIllon eftir tónleikana og hvort þessi eða hin myndi mæta. ARG! Ég, verandi eins og ég er, þorði ekki að segja neitt, en horfði þrisvar sinnum aftur til þeirra með illum augum en þær hafa greinilega ekki tekið eftir mér, enda of uppteknar að tala um hvað þær ætluðu að gera eftir á. Þegar Steve sjálfur tók svo part á kassagítarinn byrjuðu þær aftur að tala en núna um það að þær gætu sko ekki spilað svona á gítar. REALLY!!!!!??? Sem betur fer snéri konan sem sat við hliðin á okkur sér við og sagði þeim að grjóthalda kjafti eða fara fram. Þær gerðu það. Allavega var ég laus við þær það sem eftir var af kvöldinu. Takk kona, bráðum skal ég verða svona hugrökk eins og þú. Bottom line, HALDIÐ ÞIÐ FOKKING KJAFTI!!

 

Að mínu mati hefði mátt vera hlé þannig að maður gæti aðeins staðið upp og teygt úr sér. Vai dróg svo tvo úr salnum upp á svið til að hjálp sér. Stelpan sem fór upp á svið var voða krúttleg en gaurinn var algjört…..... Ég var búin að skrifa heilmikið en vil ekki vera kærð fyrir ærumeiðingar eða eitthvað þannig að ég ætla að tjá mig sem minnst um hann. En ég hefði allavega bara verið þakklát og sýnt virðingu. Síðan var ég mjög pirruð við Vai að hafa ekki valið Andra Ívars (Steve Vai Íslands) upp á svið. Ég reyndi að senda honum hugskeyti um að velja Andra en vindvélin hans Steve hefur greinilega náð að feykja hugskeytinu eitthvert annað.  

 

Lokarðin eru þau að þessir tónleikar voru frábærir. Ekki bara flott tónlist heldur líka góð skemmtun. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar Steve mætti í landsliðstreyju í uppklappinu. Frábært alveg. Takk fyrir mig, og það er eins gott að þú komin með G3 til Íslands eins og þú lofaðir okkur :) 


1860

 

Já ég skal sko segja ykkur það! Nú er kerla orðin ansi tæknivædd. Hingað til hef ég keypt mér geisladiska og plötur út í búð. En loksins skráði ég mig inn á tónlist.is og keypti þessa plötu þar, þetta er líka svo fallegur plötutitill að meður getur ekki annað en keypt hana, Artifical daylight. Og ég sé sko ekki eftir því. Hér kemur smá lýsing á plötunni. 

 

 

1. Go forth: Fallegt lag, það sándar allt ofboðslega fallega og tært. Ég er alltaf mjög skotin í röddunum og sérstaklega stráka röddunum. Það kemur smá breik í laginu sem er undir einhverjum Fleet foxes áhrifum ef mér skjátlast ekki.


2. Father's farm: Skemmtileg byrjun, man ekki eftir mörgum lögum sem byrja á svona hrárri bassatrommu. Síðan finnst mér milli stefið hljóma eins og eitthvað intró í teiknimyndaþáttum síðan ég var lítil, man samt ekki hvaða þáttur var það. Lgið er aðeins of mikið jolly cola fyrir mig.


3. Cold winter nights: Hef áður talað um það hvað mér finnst æðislegt þegar lög renna saman, og þetta heppnast mjög vel. Ég fæ alltaf gæsahúð og tár þegar þetta lag byrjar, alveg stórkostlega falleg byrjun. Síðan hressist lagið aðeins með fingrasmellum og maður heldur að maður sé að detta í eitthvað jolly cola lag en þá dettum við inn í frábært viðlag. Mér finnst söngvarinn fá að njóta sín vel í þessu lagi. Síðan dettum við annað erindi og þá rennur inn mjúkur bassi, silky smooth. Sjúklega flott hvernig mússíkin dettur niður fyrir breikið. Lokakaflinn er mjög flottur, maður heldur að lagið sé bara að renna út en þá fáum við gordjöss píanó alveg í blá lokinn. Mér finnst reyndar mjög pirrandi þegar hann segir öður side, í staðin fyrir other side. Það er nefnilega svo ótrúlega flottur tónn og þetta bara pirrar mig, svo ég næ ekki að njóta tónsins eins vel og mig hefði langað. Við fyrstu hlustun fannst mér þetta lag það besta á disknum. 


4. Socialite: Mér finnst alltaf magnað þegar maður man hvenær maður var þegar maður heyrir lög fyrst og ég man nákvæmlega hvar ég var þegar ég heyrði þetta lag fyrst. Ég var í mesta stresskast lífs míns á leiðinni í HÍ frá Hafnarfirði með meistara ritgerðirnar okkar Möggu heitar úr prentun, 10 mínútur í skil. Ég var að bíða á ljósum Kringlumýrabrautar/Miklubrautar og hljómsveitin var í viðtali og ég held að lagið hafi verið frumflutt í útvarpi akkúrat þá. Eitthvað náði þetta lag að róa mig og ég vissi að þetta myndi allt reddast :) Jebbs, ég gerði broskall. En hvað um það. Lagið byrjar á mjög flottu mandólíni og svo kemur söngurinn inn eitthvað prósessaður sem er mjög töff. Síðan rúllar þessi mjúki bassi inn, nammi. Mjög skemmtilegt lag. 


5. Bastion: Falleg byrjun. Þetta er bara ágætis lag, ekkert sem heillar mig upp úr skónum og ekkert sem pirrar mig. 


6. Blue ease, Líður bara í gegn. Ekki mikið að gerast en það virkar. Ofsalega fallegt, æðislegar raddanir þegar þeir segja blue ease. Tært og fallegt gítarsánd og flott sánd á rim shottinu..veit ekki hvað þetta heitir. Þegar það er slegið á kantinn á snerlinum. 


7. Íðilfagur. Skemmtileg melódía. Það pirraði mjög mikið þegar þeir byrja allt í einu að syngja á íslensku, bara asnalegt. En eftir fleiri hlustanir verður þetta bara skemmtilegt. Mandólínið fær að njóta sín vel í þessu lagi. Skemmtilega panaðir gítarpartar. Hvernig þeir gægjast inn, fyrst til hægri ,,hæ ég er hér‘‘ en svo til vinstri ,,nei djók ég er hér.‘‘ Dálítill húmor í því. 


8. Endless ocean. Frábær byrjun. ,,Sail on‘‘ hvað er að gerast? Hvaða tónar eru þetta! Það gerist eitthvað við þessa tónasamsetningu að það verður ekki haldið aftur af gæsahúðinni. Dásemd (ykkur að segja þá finnst mér dásemd vera fallegasta íslenska orðið, þannig í mínum huga gerist mússík ekki fallegri). Sérstaklega þegar þeir segja sail on í fyrsta skipti, það verður ekki alveg jafn áhrifaríkt næstu skipti þó það sé yndislegt. Frábært þegar trommurnar og bassinn koma inn. Besta lagið á disknum að mínu mati.  


9. Times. Fallegt lag en gerir ekkert ofsalega mikið fyrir mig. 


10. Surrender. Frábær melódía. Ágætis hugmynd að pana sönginn til hægri og allt annað til vinstri. Held þetta hefði notið sín betur í normal pani. Söngurinn fær að njóta sín vel en því miður bara hægra megin. Viðlagið gerir ekki mikið fyrir mig. 


Mikil sunnudagsplata. Þegar maður situr bara í sófnum eða er að skúra (haha eins og ég skúri einhvertíman) eða eitthvað og það er kalt úti en mjög fallegt veður eins og akkúrat í dag. Diskurinn einkennist af fallegum byrjunum, flottu spili, allt hljómar mjög vel, frábærar röddunum og fallegum melódíum og textum. Ég hélt ég væri meistari í því að radda, en ég gæti nú lært heilmargt af þessum peyjum. Ég held að lokaorðin verði þau að þessi plata er ofboslega falleg, en það eru tvö lög sem mér finnst ekkert voða spes. 


Börn Loka

 

Ég er ekki fyrst með fréttirnar frekar en fyrri daginn. Ég þarf bara minn tíma til að hlusta á mússík og þessi plata kom út í fyrra. Hvað um það þá hef ég séð þá tvisvar á sviði að mig minnir og finnst þeir alveg stórgóðir. Mikill kraftur í þeim og það myndast alltaf fáránleg stemning á tónleikum með þeim. Ég hlakka mjög mikið til að heyra í þeim í vetur með Sinfó í Hörpu, það verður eitthvað. En þetta er það sem mér fannst um plötuna. 

 

 

1. Óðinn


Mikil dramatík með flottum kór. Óbó alveg æðislegt. Af einhverjum ástæðum finnst mér þetta lag hljóma eins og lokalag frekar en upphafslag, hef reyndar engin rök fyrir því. Finnst það bara.


2. Sleipnir


Rúllar beint inn í rokk og ról út frá óbóinu sem lokaði byrjunarlaginu. Takturinn í laginu er aveg frábær. Maður sér Sleipni fyrir sér og mig langar alltaf að fara á bak þegar ég heyri þetta lag, og ekki er ég nú mikil hestakona. Síðan dettur lagið niður í hægari og þyngri takt og við fáum að heyra fínasta gítarsóló með töff sándi.  En halló halló hvað er þetta. Allt í einu heyrir maður hest hneggja sem mér finnst ofsalega pirrandi. Maður er löngu búin að sjá hestinn fyrir sér áður en þetta hnegg kemur, algjörlega óþarft og að gerir þetta lag að mínu mati að einhverju svona leikskóla þungarokki. ,,Svona segir hesturinn, íhíííhííhíi.‘‘ Að mínu mati mætti vera hærra í hljómborðinu í þessu lagi, það er alltof aftarlega í mixinu. Það sem mér finnst mest aðdáunarvert við þetta lag er það hvernig þeir muna textann í millikaflanum: ríða, rokka, róta, reiða, líða, lokka, ljóta leiða, bíða, brokka, blóta breiða, skríða, skokka, skjóta skeiða - skeiða, skjóta, skokka, skríða, breiða blóta, brokka, bíða, leiða ljóta, lokka, líða, reiða, róta rokka, ríða. Flott gítarlína í lokinn. 


Gleipnir


Þetta lag er ágætt, aðeins of grípandi fyrir minn smekk. Og þarna erum við aftur komin í leikskóla fýling. Þar sem við fáum að heyra í fjötrunum..hljómar eins og einhver járnkeðja. Það besta í laginu finnst mér þegar gítarsólóið fær að halda sér inn í viðlagið.


Fenrisúlfur


Byrjunin á þessu lagi þykir mér sú flottasta á plötunni. Mjög töff líka að fenrisúlfur fái aðra rödd til að aðskilja karekterana. Röddin er líka vel unnin svo hún hljómar mjög grimmilega. Ég veit fátt fallegra en flotta karlakóra og þess vegna þykir mér kaflinn þegar hann kemur inn í frábær og sérstaklega með bassatrommuna undir: taggataggataggatagga! Síðan verða algjör kaflaskipti í laginu, og takturinn verður hraðari með einhverjum gítar sem er bara brjálaður um allar trissur. 


Himinhrjóður


Þetta lag brýtur upp plötuna en mér finnst þetta eiginlega óþarft. Þetta er orðið aðeins of mikið leikhús þarna. Þarna er í raun verið að drepa naut og við heyrum í því og þegar nautið er stungið aftur og aftur. 


Miðgarðsormur


Skemmtileg byrjun þar sem gítarar eru panaðir í drasl. Ótrúlega skemmtilegur taktur og flottur söngur. Mikið rokk og ról og allt í einu kemur smá Metallica fýlingur, ekkert að því sossum. 


Narfi


Ofsalega falleg melódía og grípandi í intróinu, spurningin er kannski hvort hún sé of grípandi? Verður kannski smá poppuð fyrir vikið, æjji veit ekki. Fínasta gítarsóló þarna í miðjunni. En það sem mér finnst flottast er þegar trommurnar eru feidaðar inn í annan millikafla, alveg stórkostlegt. Einkennilegt hvað litlu hlutirnir geta heillað mann. 


Hel


Jæja þá er það lagið Hel sem ég á bara mjög erfitt með að hlusta á, er alltaf við það að fara að grenja. Fjandin hafi það ég veit ekki hvað það er við þetta lag, það er bara svo sjúklega áhrifaríkt að það nær engum áttum. Ég hef nú bloggað um það áður þegar ég heyrði þetta lag í fyrsta skipti í drasl heyrnatólunum mínum í útvarpinu á drasl símanum mínum þegar ég var úti að labba með hundinn. Byrjaði bara að grenja út á götu, eða þið vitið ekki grenja grenja, en það láku allavega nokkur tár, en hvað um það. Þegar maður hlustar á þetta lag í góðum heyrnatólum heyrist eitthvað einkennilegt rattl (skruðningar?, ég er svo ofboðslega útlensk, veit ekki hvað það er á íslensku) sem ég er mjög forvitin að vita hvað er. Hljómborðið setur tóninn fyrir þetta lag og maður fær íshallar tilfinningu, þetta er allavega mjög kalt lag, sem ég býst við að hafi verið planið. Tónlistinn verður frábær þegar hann segir ,,minnist litlu systur minnar,‘‘ gæsahúðar móment. Svo dettur lagið niður með frábæru óbói og inn í lagið kemur Hel. Ég er að hlusta á þetta lag í þessum skrifuðu orðum og um leið og hún byrjar að kalla á Hilmar fæ ég rosalega gæsahúð og tár í augun. Þetta er algjört nammi, tilfinningin í röddinni er rosaleg. 


Váli


Eftir rosalegan endakafla í Hel byrjar þetta lag á aðeins rólegri nótum, en alls ekki of rólegum. Ég fæ alltaf einhvern smá Tool fýling, sem er sossum ekkert slæmt, en hann fer fljótt. Eftir að hafa lesið textann fæ ég alltaf gæsahúð við þetta lag. Af hverju þarf þessi plata að vera svona sorgleg, af hverju getur þessi plata ekki verið um fiðrildi, regnboga og súkkulaði? Það yrði mjög flott plata. Maður lifir sig svo inn í þetta lag, sérstaklega ef maður á litla systur eins og ég. Mér þætti frekar pirrandi að horfa upp á litlu systur mína rifna á hol svo innyflin héngu út og geta ekki gert neitt til að stoppa það. Línan ,,Bróður sinn grátandi síðastan sér, systir mín litla hvað gerði ég þér,?‘‘ kallar alltaf fram tár….spurning um að tala við einhvern sérfræðing varðandi þessi tár alltaf.. en það er önnur saga. 


Loki


Stórgóð byrjun á þessu lagi. En þetta lag er ofsalega mikið lag, alltaf mikið að gerast og brjálæði. Jaðrar við gítarrúnki á köflum. En síðan dettur það sem betur fer aðeins niður um mitt lag í aðeins rólegri kafla, og aftur koma trommur inn sem eru feidaðar inn, omnomnom. Hver þarf súkkulaði ef maður fær svona fínt trommufeid. Þetta lokalag er líka mikið leikhúslag því hér má heyra í þrumum og eldingum. Lagið endar á flottum kór.   


   

Þannig að:

 

Sagan á bak við plötuna er stórkostleg og textarnir frábærir svo maður veit að mikið hefur verið lagt í þá. Alltaf þegar ég hlusta á plötuna ímynda ég mér hvernig væri að sjá þetta í leikhúsi, því sagan gæti komið mjög vel út. Þess vegna fannst mér frekar fyndið þegar ég sá í Borgarleikhúsblaðinu (eða var það Þjóðleikhúsið?) að þeir væri að setja síðustu plötuna á svið. Ég vona að þeir geri slíkti hið sama með þessa plötu. 

 

Það er lítið hægt að setja út á plötuna fyrir utan þetta sem ég hef talað um áður varðandi helvítis hestinn. Hljómborðið mætti líka vera hærra í flestum lögunum. Gítarsoundið er flott og trommusoundið er einnig til fyrirmyndar. Mikið hefur verið lagt í artworkið á umslaginu sem er með því betra sem ég man eftir. Mjög vel gert.  

 

Verandi mikil kórunnandi og hafa leikið mér lengi við að breyta lögum í kórútsetningar fannst mér stundum að vantaði nokkrar raddir inn í þessa karlakóra sem oft á tíðum syngja bara eina rödd.

 

 Ég er á báðum áttum hvort ég eigi að gefa plötunni 3.5/5 eða 4/5 þannig að ég held ég detti bara í 3.75/5. 

  


Roca og ról á Dillon

Ég held að það sé orðið ansi langt síðan í fór úr bænum um Verslunarmannahelgi. Ég held það hafi verið Akureyri fyrir tæpum 10 árum síðan. En það er nú bara þannig að undanfarin ár hefur verið hörkudagskrá í bænum og þar sem það var mun betri dagskrá á Dillon en á Innipúkanum var förinni heitið þangað. 


Ég komst því miður ekki fyrsta kvöldið og missti þessvegna af Leaves og Botnleðju sem mér þykir ansi fúlt. En það bíður betri tíma. Á laugardeginum var svo planið að sjá Vintage Caravan og kannski eitt lag með Blaz Roca, svo við myndum nú ekki alveg springa af kjánahrolli. En það er bara alltaf sömu sögu að segja með snillingana í Vintage, þeir bara klikka ekki. Algjört súper band. Hingað til hef ég aðalega verið að fylgjast með bassasnillanum sem er ansi hæfur á sínu sviði, en nú bara gat ég ekki tekið augun af gítarleikaranum/söngvaranum. Auðvitað hef ég alltaf tekið eftir manninum enda frábær söngvari en ég var í fyrsta skiptið í gær að taka eftir hversu drullugóður gítarleikarin hann er. Það var bara hvert súpersólóið á fætur öðru. Uppáhalds lagið mitt með þeim þessa stundina er klárlega Psychedelic Mushroom Man. Ég veit ekkert betra en þegar þeir detta í viðlagið og takturinn breytist, dálítið gott. Og þeir eru bara 3! Hversu mikill Cream fýlingur er það? Algjört nammi.


Ég var mjög hissa og jafnvel hneyksluð að sjá Blaz Roca á dagskránni og ætlaði bara að sjá kannski eitt lag og svo drulla mér eitthvað annað. Ég kom mér fyrir og var fljót að krossleggja hendurnar, sem ég heyrði einhversstaðar að þýddi að maður væri í varnarstöðu og líka eitthvað um óöryggi. Það var alveg rétt, fyrstu hiphop/rapp tónleikar sem ég hef séð að mig minnir, allavega á Íslandi og ég bara var mjög óörugg, vissi ekkert hvað var að gerast :) Í byrjun kom svo þessu svaka kjánahrollur af því að sorry bara með mig þetta var fáránlegt. Einhver einn gaur að sjá um mússíkina og svo þrír rapparar. Erpur, og svo tattúeraður gaur með hökutopp sem ætti frekar heima í ZZ top og svo einhver þarna fyrir aftan sem var reyndar með mæk, en ég veit ekki alveg hvað hann var að gera. En kjánahrollurinn fór fljótt og þegar ég hætti í varnarstöðunni tók ég bara eftir að þetta var bara helvíti grípandi á köflum. Ég reyndar skildi ekki helminginn af því sem maðurinn talaði um…maður hefur jú heyrt minnst á mellur, hórur og lóka en síðan fór hann að tala um sigti og eitthvað fleira sem ég man ekki. Í minni heimasveit notuðum við sigti í matargerð, veit ekki hvort þessi sigti sem hann talaði um myndu virka á spaghettíið. Þó að tónlistin hafi kannski ekki verið mín uppáhalds var þetta fínasta skemmtun. Þeir voru fyndnir og skemmtu sér vel sem smitar út frá sér. 


Sunnudagurinn var svo tekinn með trompi. Esja var fyrsta bandið sem við sáum og vorum við allar að sjá þá í fyrsta skiptið. Það allra fyrsta sem ég sá þegar ég leit upp á sviðið var þessi undursamlegi gítar sem Krummi var með, algjört góðgæti. Síðan tók ég eftir Daníel Ágústi sem er bara guð í mínum augum. Hann hefur alla tíð verið einn af mínum uppáhalds söngvurum. En þessi tónlist er ekki alveg fyrir mig. Lögin eru of keimlík og róleg, þau rokkast svo aðeins upp sem er jákvætt en það verður aldrei neitt meira úr þeim, trommarinn fær samt alveg 5 stjörnur. Væri reyndar til í að kynna mér þetta band betur og gefa þeim séns. Reyndar stóðum við ekki úti alla tónleikana og fórum inn í smá stund. Þá heyrðum við eitthvað lag sem var trúlega síðasta lagið sem hljómaði mjög vel. Aldrei skyldi maður læra að drullast til að hlusta á tónleika til enda. 


Yndisdrengirnir í Dimmu voru næstir og voru bara flottir eins og alltaf. Mér finnst ég alltaf vera að segja sömu helvítis hlutina hérna, þarf að fara að hlusta á eitthvað annað, kannski maður fari að kynna sér hippedí hopp í staðinn fyrir þetta rokk og ról alla daga. Og þó, kannski ekki. 


Brain Police lokuðu svo kvöldinu eins og þeim er von og vísa. Þessir drengir eru bara alltaf með þetta, það er ekkert öðruvísi. Ég var reyndar frekar pirruð yfir sándinu. Allir tónleikarnir fannst mér sánda mjög vel og síðan komu þessir meistarar á sviðið og þetta rosa band hljómaði eins og bílskúrsband..og þó, það er kannski of harkalega orðað. En sándið á þeim var allavega ekki nógu gott, það var of lítið einhvernveginn, þröngt, æjji ég veit ekki. Plús þá var mækurinn hans Jenna að feila sem var frekar pirrandi. En hvað um það, þeir enduðu á Taste the Flower og tóku svo Coed Fever í uppklappi svo ég fór ansi sátt heim.

  


Takk fyrir mig Dillon



Eistnaflug númer 2

 

Eftir síðustu Eistnaflugshátíð vorum við vinkonurnar staðráðnar í að fara aftur. Þessi hátíð er bara engri annari hátíð lík. Ég var síðan svo heppin að vinna 2 miða á hátíðina í sérstökum Eistnaflugsþætti á X-inu sem kom sér mjög vel fyrir atvinnulausann aumingja eins og mig.

 

Við vinkonurnar rúntuðum af stað á miðvikudeginum suðurleiðina í hundleiðinlegu veðri og gistum eina nótt í hjólhýsinu í landinu hennar ömmu á Hornafirði. Á fimmtudaginn eftir yndælis sundferð í sundlauginni á Höfn rúlluðum við svo firðina til Neskaupstaðar. Planið var að gista í tjaldi í garðinum hjá Pálínu vinkonu en, svo fengum við bara heilt herbergi út af fyrir okkur og þurftum bara ekkert að tjalda sem var alveg yndislegt. En hvað um það. 

 

Við vorum ekkert að flýta okkur í Egilsbúð fyrsta kvöldið. Helstu hljómsveitirnar sem okkur langaði að sjá voru síðustu þrjár, Momentum, Dimma og Plastic Gods. Ég var að sjá Momentum í fyrsta skiptið og var mjög hrifin. Fáránlega þétt og þungt band, en ég entist ekki í mörg lög enda er þetta ekki uppáhalds tónlistin mín þó svo að ég átti mig á hæfileikunum. Dimma er hins vegar meira ég og ég var búin að hlakka hrikalega mikið til eftir að hafa séð þá á Keflavík Music festival með 20 öðrum áhorfendum eða svo. Ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum, ég stóð bara agndofa alla tónleikana. Eftir tónleikana voru ýmsir sem töluðu um að söngvarinn hafi verið falskur hér og þar. Ég er yfirleitt sú fyrsta að pirra mig á svoleiðis hlutum, en ég hef greinilega verið undir einhverjum álögum því ég tók ekkert eftir því. 

 

Plastic Gods kláruðu svo kvöldið og voru mjög góðir en það var sömu sögu að segja og með Momentum, hreinilega of þungt fyrir mig. Mínus rokkprik á mig fyrir það. Mér fannst þeir líka byrja á lögum með mjög rólega og þunga kafla sem ég hreinlega nennti ekki. 

 

Á föstudeginum var planið að sjá Ophidian I, Legend, Angist, Agent Fresco og Skálmöld.

Við vorum komnar í bæinn snemma og sáum Klikk sem byrjuðu daginn og eru ungir og efnilegir. Síðan var tekin smá pása og beðið eftir Ophidian I, sem ég var búin að hlakka mikiðmikiðmikið til að sjá. Þeir hjálpuðu mér helling í lokaverkefninu mínu og ég hafði hlustað á slatta af efninu þeirra en aldrei séð þá live, því þeir beiluðu á Keflavík Music festival eins og svo margir aðrir. Þó svo að Ophidian I séu mjög þungir þá hef ég samt meiri þolinmæði fyrir þeim en öðrum svona þungum böndum. Ég held að ástæðan sé sú að það er alltaf mikið að gerast í tónlistinni. Þegar ég hlusta á venjulegt dauðarokk finnst mér eins og einhver haldi mér undir vatni og ég sé alveg að kafna. En með Ophidin I er mér alltaf hleypt upp að anda öðru hvoru, það er mikið um taktbreytingar og það eru miklar kaflaskiptingar. Síðan var náttúrulega alveg frábært að heyra lögin sem ég notaði fyrir myndina mína sem má finna neðar á síðunni. Giggið var mjög fínt, ég held það sé aldrei hægt að spila fullkomið gigg með svona flókna tónlist. En ég varð allavega ekki fyrir vonbrigðum og hlakka til að sjá þá aftur. 

 

Eftir þá tónleika fórum við bara heim og grilluðum og sötruðum smá út á palli. En því miður fór svo voðalega vel um okkur á pallinum að við fórum allt of seint í bæinn og misstum af Legend sem við vorum allar mjög spenntar að sjá. Það eru eiginlega mestu vonbrigði hátíðarinnar því allir sem við hittum sögðu að giggið hefði verið rosalegt! Andskotans vesen. En jæja hvað um það. Við komum meira að segja það seint að við rétt náðum síðustu tveimur lögunum með Angist. En við vorum allar búnar að sjá þau oftar en einu sinni þannig að það var ekki jafn sárt. En ég fékk einnig mikla hjálp frá hljómsveitarmeðlimum úr Angist og það var mjög gaman að heyra lög sem ég fékk að nota í myndina mína. 

 

Agent Fresco stigu næstir á svið og jidúdda mía. Ég hef nú séð þá nokkrum sinnum áður en aldrei jafn góða. Ef einhver þekkir ekki Agent Fresco þá er þetta ofsalega flókin tónlist á köflum sem ég veit ekki hvernig er best að skilgreina, þetta er ekki prog rokk þó að þetta sé bæði prog og rokk. Ég læt aðra um að skilgreina þá. En hvað um það. Í þau skipti sem ég hef séð þá hef ég aldrei farið út fullkomlega sátt, því ég er fullkomnunar sinni þegar kemur að tónlist sem ég virkilega elska, og ég elska Agent Fresco. En þessir tónleikar voru bara bestu tónleikar hátíðarinnar þegar gæði tónlistarinnar eru skoðuð. Fullkonunarsinninn ég brosti út að eyrum allan tímann. Alveg stórkostlegt!

 

Við vinkonurnar vorum mjög spenntar fyrir Skálmöld, sérstaklega eftir að hafa hlustað á nýju plötuna þeirra á leiðinni í bílnum þar sem ég las sögurnar fyrir hvert lag. Alveg rosaleg plata sem ég mun blogga um bráðlega. Í fyrra stóð ég alveg agndofa með gæsahúð allan tímann en ég fékk ekki alveg sömu tilfinninguna í þetta skiptið, þó að þeir hefðu verið rosalegir. Þetta var bara allt svo nýtt fyrir mér í fyrra. Ég fékk þó gæsahúð tvisvar plús tár í augun. Ég saknaði samt Hel. Það hefði verið magnað að fá Eddu úr Angist að syngja með þeim. Ég gleymi aldrei þegar ég heyrði það lag fyrst. Þá var ég úti að labba með hundinn að hlusta á Rás 2 í símanum. Síðan byrjar þetta lag og ég bara byrja að grenja. Það er svo mikil tilfinning í laginu og Edda er stórkostleg, þannig að ég var bara þurrkandi tárin með annarri og haldandi á hundakúk í hinni. Mjög basic. En já ég semsagt hefði verið mikið til í að heyra það lag. En stemningin var stórkostleg og giggið flott. Einhver sagði eftir tónleikana að Skálmöld væri eins og Papaball á sterum, ég er bara ósammála því. Ég hef allavega aldrei skemmt mér svona vel á papaballi, með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu sveit. 

 

Þriðji og síðasti dagurinn var sko ekkert grín fyrir gamlar kellingar eins og okkur. Ég vaknaði til dæmis og gat varla haldið hausnum uppi vegna vöðvabólgu eftir "slamm" kvöldsins áður. Í gamla daga gat maður sko slammað almennilega en nú má maður ekki aðeins dilla höfðinu. Jáhh svona fer aldurinn með mann börnin góð. En það var bara skellt í sig einni Íbúfen og skellt sér af stað. Fyrstir á svið stigu Kaleo sem hafa verið að gera það gott með ábreiðu af Vor í Vaglaskógi sem ég er búin að lofsama mikið. Þeir tóku það lag hins vegar ekki en hvert einasta lag sem þeir tóku var frábært. Ég hef ekki farið á marga tónleika sem ég man eftir að hafa fundist hvert einasta lag skemmtilegt og hvað þá þegar maður þekkir bandið lítið sem ekkert. En þessir strákar halda manni sko við efnið. Án efa athyglisverðustu tónleikar hátíðarinnar og ég hlakka strax til að sjá þá aftur. Sjúkleg rödd, flottir spilarar og ég gapti bara af trommaranum, sjúklega flottur. Þessir strákar gera eitthvað rosalegt. 

 

Eftir þessa rosalega tónleika lágum við í sundlauginni í um tvo yndislega tíma. Síðan beint í sjúklega djúsí pizzu á Pizzafirði og svo fórum við heim og lögðum okkur. Jebb, mikið rétt, ég var búin að nefna það að við erum gamlar kellingar :) 

 

Það hafði verið mikil tilhlökkun fyrir Vintage Caravan en við gömlurnar dröttuðumst svo seint á lappir og þegar við vorum loks komnar var svo troðið þarna inni að við eignlega náðum bara einu lagi og fórum svo út. En það er alltaf jafn gaman að sjá þá. Stórkostlegir á sviði, elska greinilega það sem þeir eru að gera og frábær tónlist. Ég reyndar fór næstum að gráta þegar ég frétti að Jenni Brain Police hefði sungið eitthvað lag með þeim, enda Jenni búinn að vera í uppáhaldi síðustu 10 árin eða svo. Síðan fréttum við líka að sögnvarinn hefði crowd surfað í gúmmíbát, sem maður sér ekki á hverjum degi. 

 

Við rétt svo kíktum á Red fang sem áttu að vera svona stærsta erlenda sveitin og tjahh, mér fannst þeir bara ekkert spennandi. Sorrí með mig bara. Bara hreinlega ekkert sem greip mig. Eftir það stigu Sólstafir á svið. Það var búið að vera álíka mikill spenningur í hópnum fyrir Sólstafi eins og Skálmöld. Enda var ég næstum dottin í gólfið af gæsahúð í fyrra þegar þeir spiluðu, hélt mér bara ekki uppi. En æjji mér fannst þetta gigg fara of hægt af stað og ég bara meikaði það ekki, má vel vera að þreyta hafi haft sitt að segja, enda þriðja og síðasta kvöld hátíðarinnar. Þannig að ég stóð bara úti alla tónleikana og ætlaði svo að hlaupa inn þegar ég heyrði eitthvað flott, en endaði bara á að standa úti. Þannig að ég get lítið dæmt tónleikana. Ég get hreinlega ekki gert upp við mig hvort ég sé aðdáandi eða ekki. Ég gjörsamlega elska lagið Ljós í stormi en síðan hata ég Fjöru, það má vel vera að það sé út af ofspilun. Ég held að eina vitið sé að kaupa disk með þeim og komast að hinu sanna. 

 

Eftir Sólstafi byrjaði svo ein af mínum uppáhalds íslensku hljómsveitum sem ég var búin að bíða eftir svoooo lengi sérstaklega vegna þess að þeir mættu ekki á Eistnaflug í fyrra, Brain Police. Frábærir tónleikar og ógeðslega skemmtilegir. Þeir reyndar tóku eitthvað frekar rólegt og alltof langt lag sem ég man ekki hvað var akkúrat núna sem mér fannst algjör óþarfi. Síðan má alveg fara að hætta að spila Mr. Dolly. Flott lag, en ekki alveg nógu mikið rokk og ról. Gamla var sátt þegar Taste the flower og Coed Fever komu, enda í miklu uppáhaldi. Það sem pirraði mig samt ansi mikið var þetta bölvaða crowd surf. Maður gat ekki notið tónleikanna að fullu því maður var hræddur um að fá hné í hausinn eða eitthvað. Mér finnst crowd surf alveg cool upp að vissu marki. Gaman að fylgjast með einu og einu en þarna voru kannski 20-30 manns að crowd surfa í einu lagi. Koma svo fólk, ekki vera fíbbl, og kannski sama helvítis fólkið að fara aftur og aftur. Drullið ykkur bara af sviðinu svo maður geti fylgst með hljómsveitinni. 

 

En til að draga þessa færslu saman þá mæli ég eindregið með þessar frábæru hátíð. Okkur vinkonunum var sagt í fyrra að vera ekkert að fara því það væri svo skrítið fólk þarna og að við myndum ekki fitta þarna inn. Það er bara ekki satt. Við erum kannski ekki rokkaralegustu gellurnar á svæðinu, en það er öllum svo drullusama hvernig þú ert klæddur, hvort þú sért með eitthvað corpse paint eða ekki eða hvort þú ákveðir að hoppa allsber út í sjó. Það er partur af því sem ég elska. Ég elska líka stemninguna. Aldrei sá ég slagsmál eða einhvern út úr dópaðann og þar er ég að endurtaka mig frá því í fyrra. Reyndar gæti ég vel trúað að ég hafi séð gaur sem hafi verið að reykja eitthvað annað en Salem Light einn daginn þar sem hann dansaði mjög svo skemmtlega fyrir utan Pizzafjörð meðan Bob Marley hljómaði í græjunum :)

 

Flottasti flutningur: Agent Fresco

Mesta stemning (fyrir mig): Brain Police

Gæsahúð: Eitthvað lag með skálmöld

Feik gæsahúð: Þegar ég hélt að Hel væri að byrja, en svo var það ekki það lag :(

Vonbrigði: Að missa af Legend og að missa af Jenna syngja með Vintage Caravan

Brandari hátíðarinnar: Ein af okkur talaði um að hún hlakkaði mikið til að sjá Skálmstafi, hún mismælti sig allavega tvisvar aftur svona. Önnur af okkur sagði þetta allavega tvisvar og ég sjálf talaði einu sinni um þessa frábæri hljómsveit, Skálmstafi :) 

 

Æjji ég nenni ekki meir, drullið ykkur bara á þessa hátíð, því hún er stórkostleg!

 

Takk fyrir mig Eistnaflug, við sjáumst að ári

 

Over and out

 


Af Sigur Rós og seinþroska

Ég hef átt það til að vera á móti allri íslenskri tónlist sem nær heimsfrægð. Það er ekki með ráðum gert heldur finnst mér sú tónlist bara yfirleitt ekki skemmtileg. Þá er ég að tala um Björk, Sigur Rós og núna nýjasta æðið Of monsters and men sem mér finnst hreint ekki skemmtileg mússík. Svona Hó-Hei! tónlist fer yfirgengilega mikið í taugarnar á mér. Ég get þó alveg viðurkennt að Björk, Sigur Rós og OMAM eru allt færir tónlistarmenn með vandaða tónlist, bara ekki minn tebolli. Auðvitað er eitt og eitt lag sem mér líkar við, t.d. Joga með Björk sem er eitt af mínum uppáhalds lögum og Viðrar við til loftárása með Sigur Rós er ofsalega fallegt lag með yndislegu myndbandi sem ég tárast alltaf yfir.

 

Málið er þó að ég hef aldrei gefið þessu tónlistarfólki séns. Ég hef aldrei hlustað á heila plötu með þeim því ég einfaldlega nenni því ekki og þarna spilar líka ef til vill inn í hversu óstjórnlega þrjósk ég er. Fyrr en nú. Eftir að hafa heyrt mjög áhugavert lag í útvarpinu af nýjustu plötu Sigur Rós (Sigur Rósar?) ákvað ég að slá til og hlusta á plötuna þeirra sem er nýkomin út og ber heitið Kveikur. Ég reyndar hlustaði bara á plötuna á Spotify sem er ágætis apparatus fyrir fólk sem vill tékka á tónlist, en þá kemur það upp á móti að platan fékk ekki að rúlla í heild sinni, en það verður að hafa það. Ég hlustaði fjórum sinnum á hvert lag með nýju heyrnatólunum mínum sem eru frekar bass heavy (Sennheiser HD215). En hérna er allavega útkoman:

 

1. Brennisteinn

  • Skemmtilegt intro, ég fékk einhvern smá Radiohead fýling alveg í byrjun, sem er ekki slæmt.

  • Lagið byrjar með frekar nettum takti og um mitt lag kemur fallegt breik sem springur svo í flóknum og hraðari takti.

  • Bassinn er algjörlega frábær og einhverjir bassa effectar sem fá að þjóta um sem mér heyrist að sé mixað aftur á bak nema þetta sé einhver effect sem heppnast ekki alltaf vel, en passar hér

  • Þessi plata einkennist af frábærum endaköflum og þetta lag gefur tóninn og er flottasta endakaflinn á plötunni sem byrjar með strengjum...og hvað er þetta? Já bætum smá brassi við sem hljómar alveg undursamlega.

  • Stjörnur lagsins : Takturinn og outróið


2. Hrafntinna

  • Mér fannst þetta lag pirrandi í fyrsta skiptið sem ég heyrði það. Þetta glingurhljóð fór ofsalega mikið í pirrurnar á mér því það fær að lifa allt lagið.

  • Í annað skiptið sem ég hlustaði á það tók ég varla eftir glingrinu, því ég leyfði laginu að taka mig í nýjar áttir og sé ekki eftir því. Við erum að tala um tár í augum og gæsahúð

  • Söngmelódían er stórfengleg og sérstaklega þegar bakraddirnar koma inn. Þegar komið er yfir mitt lagið fær fiðlan að njóta sín undir röddunum sem nær að hýfa sönginn ennþá hærra. Það vantar einn fiðlutón því hún er skorin úr mixinu mjög snöggt og óvænt en það virkar frábærlega

  • Hér fáum við svo aftur yndislegt outro með fallegum blæstri

  • Stjörnur: Melódía, outro

 

3. Ísjaki

  • Þetta lag fær maður beint í andlitið með þungum og afgerandi trommutakti

  • Það er rosalega mikið að gerast allan tímann en melódían nær að skilja sig frá þannig að hún fær að njóta sín

  • Engin gæsahúð en ágætis lag engu að síður

  • Outróið er gott með fallegu reverbi

  • Stjarna: Trommtaktur sem er ansi breytilegur og flókinn í gegnum lagið. Allavega gæti ég ýmindað mér að þetta sé ekki auðvelt lag að tromma


4. Yfirborð
  • Byrjunin einkennist af vel heppnuðu afturábak pælingum og þungum takti lengst aftur í mixi sem hljómar næstum því eins og hjartsláttur (reyndar í vitlausum takti)

  • Því lengra sem líður inn í lagið verður takturinn hraðari og hraðari og hljómar eins og hann ætli að fara eitthvað á undan laginu, því lagið er mjög rólegt. Skemmtileg andstæða sem ég man ekki eftir að hafa heyrt oft áður svona í fljótu bragði.

  • Flottur og mjög drungalegur endakafli

  • Stjörnur: Pródúsering og mix


5. Stormur

  • Ætli þetta sé ekki svona mest mainstream lagið á plötunni. Allavega elskaði ég það strax. Skemmtilega hresst viðlag sem hægt er að dilla sér við, og hverjum finnst ekki gaman að dilla sér :) Ég gerði meira segja asnasvipinn minn í hvert sinn sem hressi takturinn kom inn, en það er svipur sem ég geri iðulega þegar ég hlusta á flotta rokktónlist og hann lét síðast sjá sig á smettinu á mér þegar ég sá Dimmu í Keflavík fyrir nokkru. Fyrir ykkur sem hafið áhuga má sjá svipinn aftast í færslunni
  • Ég kallaði nokkrum sinnum ,,kom inn!‘‘ því í gegnum lagið eru ýmis aukahljóð og bank sem eru pönuð út um allt sem er mjög flott og minnti mig af einhverjum ástæðum á plötuna hennar Emiliönu Torrini frá 2004: Fisherman's Woman

  • Stjarna: Hressi parturinn


6. Kveikur
  • Athyglisvert intró þar sem panað er frá vinstri til hægri
  • Hvað er málið með bassann!!! Frábært sánd
  • Í lokinn á laginu mætir félagi minn Optimus Prime á svæðið og verandi mikil Transformers kona býð ég hann ávallt velkominn
  • Stjarna: Bassinn

 

7. Rafstraumur

 

  • Byrjunin er svona eins og palate cleanser (ég er búin að vera að horfa mikið á Food network sko) En með því meina ég að það byrjar voðalega ferskt og hljómar svona eins og ég get ýmindað mér að sólarupprás myndi hljóma í bíómynd. Síðan þegar lengra inn í lagið er komi bætist við amstur dagsins og lagið verður meira busy en aldrei of mikið að gerast.

 

 

8. Bláþráður

  • Þetta lag þykir mér akkúrat núna vera besta lagið á plötunni. Ég fæ gæsahúð í hvert einasta skipti sem ég heyri það. Lagið byrjar frekar rólega og svo kemur þetta fáránlega töff bassasánd sem er að finna í fleiri lögum á plötunni. Hægt og rólega eykst takturinn og við rennum inn í stórkostlegt og kraftmikið viðlag.
  • Melódían er upp á ansi marga fiska og textinn og söngurinn fær að njóta sín.
  • Lagið endar á löngum og rólegum endakafla sem er mjög fínn.


9. Var

  • Í fyrsta lagi vil ég byrja á að hrósa Sigur Rós fyrir frábært nafn á lagi...hvað eru þeir að meina? Eru þeir að tala um var eða var? Væntanlega var..
  • Ég veit ekki hvort þið notið Spotify mikið en þegar ég spila tónlist þar þá hoppar forritið bara á milli laga en spilar plöturnar ekki í heild sinni. Þar sem ég vildi nú vera “pró” hlustaði ég á þau í röð en nokkrum sinnum fór forritið fram úr sér og þá fékk ég að heyra byrjunina á þessu lagi sem er undursamleg. Ég var semsagt búin að bíða ansi lengi eftir þessu lagi.
  • Byrjunin er ofsalega fallegt píanó spil sem ég fékk strax gæsahúð af. Svo bætast við mjög hráir strengir og einhver svona aukahljóð.
  • Lagið verður hins vegar aldrei neitt nema fjögurra mínútna langur endakafli á plötunni. Sem ég átta mig á núna meðan ég skrifa þetta að meikar hellings sens. Lögin eru flest með mjög langa og fallega endakafla þannig að þetta passar bara mjög vel við. Ég er bara svo mikill nautnaseggur og hefði viljað eitthvað aðeins meira fyrst þessi byrjun var svona næs.

 

En já ég er semsagt mjög seinþroska, ég fékk til dæmis ekki brjóst fyrr en um tvítugt, en þeir segja að góðir hlutir gerist hægt. Ég hef líka alltaf verið mjög seinþroska þegar kemur að tónlist. Fór ekki að hlusta á Guns n' roses fyrr en ég var 18, Radiohead þegar ég var 22 ára eftir ansi langt þrjóskukast og núna Sigur Rós 26. Leiðir okkar áttu greinilega ekki að liggja saman fyrr en nú og ég er bara ansi þakklát fyrir það og held að ég gefi þessari plötu 4 stjörnur af 5. Og þið þarna vinir mínir sem eruð búin að segja mér að hlusta á Sigur Rós síðustu 10 árin eða svo þá nenni ég ekki einhverju svona I told you so kjaftæði. Ég greinilega geri bara hlutina á mínum hraða og þið verðið bara að virða það. Eftir nokkur ár mun ég örugglega skrifa færslu þar sem ég lofsama OMAM.


Sigur Rós ég elska þig

 

Hérna er svo svipurinn sem ég var að segja ykkur frá sem lætur ósjálfrátt sýna sig þegar ég heyri eitthvað sem er ótrúlega flott.

 

Photo on 7-1-13 at 8.35 PM

 

 

 

 

 

 

 

Over and out

 


Keflavík music mess


Ég veit nú bara hreinlega ekki hvar ég á að byrja. Ég veit ekki hvort ég ber meiri virðingu fyrir þeim böndum sem afboðuð komu sína eða þeim böndum sem komu á hátíðina og gáfu allt í flutninginn þrátt fyrir að aðeins nokkrar hræður hefðu mætt til að hlusta. Ætli ég skilji ekki báðar afstöður bara. 


Ef við byrjum á byrjuninni er Reykjaneshöllin allt of stór fyrir svona viðburði. Ég reyndar sá ekki stærstu böndin sem tróðu upp þar en það var ekkert annað en vandræðalegt að sjá Hjálma og Jón Jónsson troða upp fyrir nokkur hundruð manns í höll sem rúmar örugglega 10 þúsund manns. Þrátt fyrir fámenni stóðu bæði böndin sig mjög vel. Það var hellingur sem mig langaði að sjá um kvöldið. Til dæmis Samúel Jón Samúlesson Big Band, Jónas Sig og ritvélar framtíðarinnar og Kiriyama Family sem að mínu mati áttu eina bestu plötu síðasta árs. Ekkert af þessum böndum létu sjá sig. 


Dimma var einnig hljómsveit sem ég hlakkaði mikið til að sjá því einhvernveginn hefur mér einhvernveginn alltaf tekist að missa af tónleikum með þeim. Síðan vorum við að labba um bæinn og heyrðum æðislega mússík í fjarskanum. Ég hugsaði…Vintage Caravan? …nei, Brain Police?…nei, Skálmöld? .. nei það getur ekki verið, þeir spiluðu hér í gærkvöldi fyrir 10 manns. Þegar við komum að tjaldinu heyrðist betur að þetta var Dimma og eftir að við komum inn í tjaldið var ekki aftur snúið. Þessi fáránlegi kraftur, þungi, þéttleiki og öll orð sem til eru um gott þungarokksband. Og krafturinn upp á sviði var líka stórkostlegur, þrátt fyrir að vera að spila fyrir 30 manns (jebb ég taldi), gáfu þeir sig allir í flutninginn sem skilaði frábærri skemmtun og ég stóð þarna og gjörsamlega gat ekki hætt að brosa, reyndar var ég næstum farin að grenja í einu lagi því það var svo flott. Ég get ekki beðið eftir að sjá þessa hljómsveit aftur, algjört nammigott. 


Eftir Dimmu tóku Endless Dark við sem ég hlakkaði líka mikið til að sjá. Hef heyrt mikið um þá en aldrei séð þá live. Það eina sem ég get sagt um þá hljómsveit er að þetta eru flottir straákar, vel spilandi og mikill kraftur í þeim upp á sviði, en þetta er ekki endilega minn tebolli. Ég saknaði þungans frá Dimmu. 


Þá var förinni heitið upp í Kaffi Duus, þar sem ég var búin að hlakka mikið til að sjá Ophidian I. Ég er nýbúin að gera stuttmynd um dauðarokk á Íslandi og þeir hjálpuðu mér helling. Eftir að hafa hlustað á mikið af efninu þeirra af plötunni Solvet Saeclum var ég orðin mjög spennt að sjá hvort allur þessi hraði og tekníski hljóðfæraleikur myndi skila sér live. Þegar við vorum búin að labba í ca. 10 mín í roki og rigningu komum við að luktum dyrum. Þá kíktum við á FB síðunna þeirra þar sem við sáum að þeir hefðu hætt við. Ég þarf þá greinilega bara að bíða þangað til á Eistnaflugi til að sjá þá live. 


Á laugardeginum var eina bandið sem ég sá Fjallabræður. Ég hef einu sinni séð þá áður en það var í Háskólabíói einhvertímann um jól að mig minnir. Reykjaneshöllin var staðurinn og aftur var vandræðalega fátt í salnum. Ég taldi nú ekki en ég ætla að giska á 50 manns sem síðan kannski fjölgaði upp í max 200 þegar á leið. En guð minn almáttugur hvað þetta er flott band. Ef þið hafið ekki séð fjallabræður þá mæli ég með að þið drífið í því hið snarasta. Þeir reyndar tóku mjög rokkað prógram sem ég græt ekki yfir. Þessi kór er alveg stórkostlegur sem og Halldór kórstjóri (sem lét það ekki á sig fá að spila fyrir 50 manns í 10 þús manna höll) og Unnur var stórkostleg á fiðlunni. Ekki spillir fyrir að vera með tvo trommara sem er ekkert nema rokk og ról og síðan var þarna líka annar gítarleikari sem var voða mikið krútt. Ég fór tvisvar að grenja, eða sko tárin láku ekki en það munaði litlu. Þeir tóku nýtt lag sem var yndislegt þar sem ég fór eiginlega þrisvar að grenja í sama laginu, alltaf þegar viðlagið kom sem var eitthvað varðandi völustein held ég. Ég hef hér með ákveðið að ég fái extra rokk prik fyror hvert grenj sem ég tek og einnig þau bönd sem ég fer næstum að grenja yfir. Þannig fær Dimma 1 rokk prik og Fjallabræður 4. En ég stend upp sem sigurvegari með 5 rokk prik. 


Annars gæti ég nú drullað eitthvað yfir þessa hátíð, en ég hreinlega nenni því ekki. Ég fór þarna á nokkra frábæra tónleika og maður kvartar ekki yfir því. Takk fyrir mig.


btw. ef einhver vill kíkja á stuttmynd um dauðarokk er hún hér :)

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sunna Þrastardóttir
Sunna Þrastardóttir

Tónlistaráhugamaður með MA í blaða- og fréttamennsku, BA í recording arts og diplomu í hljóðblöndun frá SAE í Amsterdam. Ég mun einungis skrifa um tónlist á þessari síðu.

Færsluflokkar

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband